29.05.1933
Neðri deild: 86. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2429 í B-deild Alþingistíðinda. (3778)

93. mál, ábúðarlög

Sveinn Ólafsson:

Ég hefi aðeins fáar mínútur til umráða, og verð því að takmarka mál mitt.

Ég vil þó taka það fram út af orðum hv. þm. Borgf., að brtt. á þskj. 839 geta að litlu leyti orðið mér til geðs, enda eru þær aðeins fálm. Ég vil taka til dæmis þá brtt. við 2. gr., að í stað „Búnaðarfél. Íslands“ komi „sveitarstjórn“. Þessi sama breyt. á við á 4—5 öðrum stöðum í frv., en er tekin eftir mér aðeins á þessum eina stað. Ég legg til, að hún verði hvarvetna í frv. tekin upp, nema í 13. gr. Við að breyta eins og n. gerir verður frv. aðeins álappalegra.

Að því er snertir brtt. hv. meiri hl. landbn. út af orðinu „vergögn“, að í staðinn komi uppsátur og fiskireiti, þá er þar aðeins færð til réttara máls ambaga, sem valdið gat misskilningi, en miklu þýðlegra orð er þó vervist, sem ég legg til að notað verði, og mundi ekki um það orð verða hnotið. En yfirleitt eru allar brtt. n. að öðru leyti svo smávægilegar, að ég vil ekkert fyrir þær gefa, enda spilla þær sumar og ganga ekkert á móti mínum till. í þessu máli.

Að nafninu tekur meiri hl. n. til greina að nokkrum hluta brtt. mína við 18. gr. frv., en þó ekki það, sem verulegu máli skiptir í brtt. minni. Með ákvæðum 2., 3., 9., 11., 12. og 13. gr. frv. er búið að herða svo að kjörum jarðeigenda, að þeir hljóta oft að neyðast til að sleppa leigujörðum sínum og bjóða ábúendum þær samkv. 18. gr. til kaups, og ætlast meiri hl. n. til, ef þeim semur ekki um kaupverðið, að þá skeri úttektarmenn úr. Má nærri geta um öryggi þess úrskurðar eða mats, ef úttektarmenn eru nágrannar kaupanda og því oftlega ekki óvilhallir. Ég legg til í minni brtt., að þegar þessi neyðarkjör knýja jarðeigendur til að selja jarðir sínar, þá séu dómkvaddir menn látnir meta þær, eins og venja hefir verið við sölu þjóðjarða og kirkjujarða. Sala þeirra hefir ætíð farið fram samkv. mati dómkvaddra manna, þó að mati þeirra hafi stundum verið breytt til hækkunar verði af seljanda (ráðherra). Mér finnst með frv. alveg farið aftan að siðunum, þar sem jarðirnar á að taka af eigendum með hálfgildingsofbeldi og án þess að tryggilegt mat sé látið fara fram á þeim. Má líka segja, að bætt sé gráu ofan á svart með því að jarðeigandi er skyldaður til að veita langan gjaldfrest á ¾ hlutum kaupverðs, sem fer fram úr áhvílandi veðskuldum. Hvorttveggja virðist eiga að útiloka með 18. gr.: álit dómkvaddra matsmanna og samninga milli kaupanda og seljanda um kaupverð og greiðsluskilmála; úttektarmenn ráða þar öllu. — Í þessum brtt. meiri hl. n. er sízt lengra gengið til samkomulags en við 2., 3. og 9. gr. Skiptir það litlu máli, hvort þessar till. n. verða samþ. eða ekki; þær koma engum að gagni, en auðvitað fylgi ég þeim fáu atriðum, sem eru samstæð mínum brtt.

Ég sé ekki ástæðu til að fara mörgum orðum um brtt. á þskj. 748, frá hv. 1. þm. Árn. og hv. 1. þm. Skagf.; ég hafði ekki tíma til þess við fyrri hl. umr., og nú er mér ætluð aðeins stutt aths. Ég vil þó minnast á 4. brtt. þeirra, við 14. gr., sem lýtur að því að færa niður leiguliðabótina til mikilla muna. Af því að hún er kvöð á leiguliðum þá vilja flm. gera hana svo óverulega, að hún verður nær að engu gagni fyrir landsdrottin.

Hv. flm. brtt. ætlast til þess, að af steinhúsum verði gjaldið fært úr 1/3—2/3% niður í ¼—½%; en eftir því mundi þurfa 200—400 ár til þess að safna fé, sem jafngilti húsverðinu. Að því er snertir ákvæðin um leiguliðabótina af húsum úr öðru efni, gera hv. till.menn ráð fyrir niðurfærslu á henni, þannig að í sta𠾗1½% komi ½—1%, og ættu húsin þá að endurnýjast á 100—200 árum. Líklega verður að leita nokkuð víða um land eftir svo gömlum húsum úr torfi eða timbri, og munu þau vart finnast. Ég veit satt að segja ekki, hvað slík ákvæði og þetta eiga að þýða. Þetta gerir leiguliðabótina gagnslausa um marga mannsaldra, en þetta minnir mig á sögu um níræða konu, sem keypti hrafnsunga og sagðist ætla að vita, hvort það væri satt, að hrafninn gæti lifað í 100 ár. Ég fyrir mitt leyti get ekki skilið, hvaða vit er í þessari brtt., ef það annars vakir fyrir hv. flm. till., að leiguliðabótin eigi að koma að liði fyrir núlifandi kynslóð.

Auðvitað er miklu fleira við þessar brtt. n. að athuga en það, sem ég hefi tíma til að benda á. Ég hygg, eins og áður er sagt, að afgreiðslu þessa máls væri bezt komið með því að fresta henni til næsta þings. Þetta er svo örlagaríkt og stórt mál, að það á alls ekki við að afgr. það í flýti eða flaustri og eiga það svo á hættu, að lögin verði stórgölluð, eins og frv. auðsæilega er.