02.06.1933
Neðri deild: 92. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 315 í C-deild Alþingistíðinda. (3927)

42. mál, eftirlit með sparisjóðum

Frsm. (Halldór Stefánsson):

Ég var ekki staddur í d. þegar málið var tekið fyrir, en samnm. minn, hv. þm. N.-Ísf., mun hafa gert þá grein fyrir málinu, sem þörf var á. En ég vildi út af ræðu hv. 1. þm. Skagf. staðfesta það, sem hann sagði, að við höfum vísað til nál. frá í fyrra um þetta sama mál og ætlumst til þess, ef þetta yrði samþ., að stj. kynni sér það, sem þar stendur, og ég skal, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp fáein orð úr nál., sem við höfðum einkum í huga:

„Nefndin telur nauðsynlegt, að þetta mál verði athugað rækilegar en enn er orðið. Þá athugun stendur stj. bezt að vígi að gera. Vill n. því ráða til, að stj. verði falið að athuga málið, og væntir þess, að hún leggi till. sínar þar um fyrir næsta þing, ef ástæða þykir til breytinga. Telur n. þá leið varlegri en að hrapa nú að afgreiðslu þessa máls, lítt athugaðs“.

Till. um málið var engin afgr, í fyrra og þess vegna er e. t. v. eðlilegt, að stj. hafi ekki lagt neina vinnu í athugun þessa máls. Út af því, sem minnzt hefir verið á, að starfið muni hafa verið minna rækt en vert væri, þá man ég, að það kom fram við umr. í fyrra, og vil einungis minna á það aftur, að það mun aldrei hafa verið samin nein reglugerð fyrir þetta starf eða erindisbréf fyrir eftirlitsmanninn. Það gæti verið ástæðan til að starfinu hefir verið minni gaumur gefinn en ella hefði verið og heldur en ég tel, að vert væri, því að ég tel þetta starf geta verið mjög gagnlegt og nauðsynlegt, bæði fyrir þær stofnanir, sem eiga hlutað máli, eins og fyrir ríkisstj. og almenning, þar sem heita má, að ríkið beri nú ábyrgð á meiri hluta fjár þess, sem bankarnir hafa með höndum, og almenningur á hagsmuna að gæta um innlánsfé sitt í sparisjóðunum.