15.05.1933
Neðri deild: 74. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2526 í B-deild Alþingistíðinda. (4080)

191. mál, mjólkurbúastyrk og fl.

Sveinn Ólafsson:

Mér er ekki ljúft að tefja umr., en ég sé mér ekki annað fært en að gera stutta grein fyrir atkv. mínu. Ég verð að segja það, að ég lít á þetta mál mjög líkt og hv. þm. N.-Ísf. og get tekið undir margt af því, sem hann sagði viðvíkjandi samanburðinum á þessum erindum, sem hér liggja fyrir, og þeim erindum; sem vænta má, að berist á eftir og snerta útveginn og atvinnufyrirtæki, sem standa álíka höllum fæti og mjólkurbúin.

En ég vil út af þeirri atkvgr., sem væntanleg er, taka það fram, að ég fylgi brtt. á þskj. 676, ekki af því, að ég sé henni í raun og veru fylgjandi, heldur af hinu, að ég vil með því reyna að fyrirbyggja, að 1. gr. frv., eins og hún er, verði samþ., því aðeins með því að samþ. brtt. á þskj. 676 kemst málið inn á það spor, að fremur má telja forsvaranlegt af d. að afgreiða frv.

Nú er fundartíminn liðinn og því ekki fært að halda uppi umr. í bili. Þess vegna ætla ég að sleppa því að gera frekari grein fyrir atkv. mínu.

En hinsvegar verð ég að segja það, að ef þessu á að fara fram, ef af líkum erindum og þessu á að sinna mörgum í viðbót við þær kreppuráðstafanir, sem til stendur að afgreiða, þá finnst mér, að líkurnar bendi í þá áttina, að hér verði setið til sláttar og verði þá fyrr eða síðar gefizt upp við þær ráðstafanir, sem eins réttlátt er að sinna eins og þessum, sem hér eru á dagskrá.