01.05.1933
Neðri deild: 62. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2623 í B-deild Alþingistíðinda. (4255)

43. mál, læknishéraða - og prestakallasjóðir

Frsm. (Steingrímur Steinþórsson):

Ég skal ekki lengja mjög umr. Hæstv. ráðh. (MG) heldur því fram, sem ég skal ekki þræta við hann um, að leggja megi þann skilning í 3. gr. frv., að hægt sé að nota fé læknishéraðasjóða til uppbótar á launum lækna. Ég vil því fús bera fram brtt. við 3. umr., til þess að þetta verði fyrirbyggt, með því að bæta við gr. t. d. því: Þó má aldrei nota fé læknishéraðasjóða til uppbótar á launum lækna. Eins og ég hefi þegar tekið fram, þá er það einungis með það fyrir augum, að n. hefir fylgt frv., að féð verði notað héruðunum sjálfum til framdráttar.

Það getur verið, að læknum sé sama, hvort það er ríkið eða héruðin, sem hafa byggt læknisbústaðina. En hæstv. ráðh. hlýtur þó að sjá, að ef eitthvert hérað á tilkall til fjár úr sérstökum sjóði, þá getur það byggt betur, eða að öðrum kosti að minna kemur á héruðin sjálf af byggingarkostnaðinum. Hugsanlegt er og, að byggt yrði smásjúkraskýli, sem eru mjög nauðsynleg, og ekki sízt í afskekktum héruðum, þar sem erfitt er að koma sjúklingum burt um langan veg og torfarinn.

Á ýmsa fleiri vegu má og nota fé þetta til þess að koma heilbrigðismálum héraðanna í betra horf, án þess að um nokkrar launabætur til læknanna verði að ræða. En aðstaða læknanna verður að öllu leyti betri. Ég get því ekki fallizt á þá röksemd, að þetta geti ekki haft mjög mikil áhrif og gert gagn afskekktum og fátækum læknishéruðum, að fá að njóta þess fjár, sem slíkum sjóðum kynni að áskotnast.

Ég ætla ekki að fara að ræða við hv. 3. þm. Reykv. um prestakallasjóði, því vonandi kemur það mál fljótlega fyrir d. En ég vil taka það fram aftur, að ég álít, að það frv. eins og það er nú sé annars eðlis en það frv., sem fyrir liggur hér til afgreiðslu, því í öðru tilfellinu eru það héruðin ein, sem eiga að njóta fjárins, en í hinu tilfellinu stéttin sameiginlega. Og það er allmikill munur þar á.