07.03.1933
Neðri deild: 18. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 363 í C-deild Alþingistíðinda. (4288)

54. mál, vörslu opinberra sjóða

Pétur Ottesen [óyfirl.]:

Það virðist sérstaklega vera tvennt, sem liggur til grundvallar fyrir því, að frv. þetta er borið fram. Í fyrsta lagi það, að fjmrh. sé falin yfirstjórn allra opinberra sjóða, enda þótt með skipulagsskrám þeirra sé allt annað ákveðið um meðferð þeirra. Hitt atriðið er það, hvernig fé slíkra sjóða skuli ávaxtað. Það liggur í augum uppi, að þessu tvennu er ekki hægt að ná, nema með því að brjóta í bága við vilja gefendanna, sem venjulega hafa með skipulagsskrám sjóðanna sett ákveðnar reglur um vörzlu þeirra og stjórn. Slíkar reglur eru oft frábrugðnar fyrir hvern sjóð. Það er tiltekið, hverjir skuli geyma sjóðinn, hvar hann skuli ávaxtast og oft til hvers féð skuli notað sem veltufé. Suma sjóðina á að ávaxta aðeins í peningastofnunum með ríkisábyrgð, ekki grænan eyri annarsstaðar. Í skipulagsskrám annara sjóða er svo fyrir mælt, að þá skuli geyma í skuldabréfum eða verðbréfum, tryggðum með ríkisábyrgð. Og enn aðrir sjóðir eiga að geymast í fasteignum.

Mér finnst það fráleitt að setja það í lög, að alla opinbera sjóði eigi að ávaxta í peningastofnunum með ríkisábyrgð, því oft og tíðum mun hægt að geyma sjóðina betur á annan hátt. Ég tel ekki hægt að geyma þá á nokkurn hátt tryggilegar en að lána féð út á fasteignir, sé þess gætt, sem sjálfsagt er, að ekki sé lánað meira út á hverja fasteign en svo, að tryggilegt sé. Ég vil því mótmæla því ákvæði í þessu frv., að fé opinberra sjóða megi aðeins ávaxta í peningastofnunum með ríkisábyrgð. Ég get ekki skilið, að Alþingi sjái sér fært að lýsa yfir því með þessu ákvæði, að fasteignir séu ekki sú trygging, sem Alþingi geti tekið gilda. Auk þessa, eins og ég hefi þegar tekið fram, er þetta ákvæði alveg gagnstætt vilja margra gefenda, sem ætlazt hafa til og beinlínis mælt svo fyrir, að gjafaféð skuli lánað til vissra framkvæmda í því byggðarlagi, þar sem gefandinn átti heima. Þá vil ég taka undir það með hv. þm. N.-Ísf., að mér finnst óþolandi, að ekki megi ávaxta opinbera sjóði í sparisjóðum úti um land. Það má að vísu segja, að þeir séu yfirleitt ekki eins öruggir og bankar eða fasteignir, en þó er það vitanlegt, að rekstur sparisjóða flestra er það tryggur, að ekki virðist ástæða til að útiloka það með lögum, að þeir megi geyma opinbera sjóði í vissum tilfellum. Þetta vildi ég benda á til athugunar fyrir þá n., sem væntanlega fær frv. til meðferðar. Mér finnst eðlilegt, að frv. fari til hv. fjhn., og styð því till. hv. þm. N.-Ísf. um það.

Ég legg mikla áherzlu á, að það verði skýrt tekið fram í þessum lögum, að ekki verði að nokkru leyti breytt út af þeim reglum, sem gefendur hafa sett og skráðar eru í skipulagsskrám einstakra sjóða, hversu sem þær kunna að fara í bága við fyrirmæli þessa frv. En tilhneigingu til þess að ganga á snið við slíkar reglur hefir áður skotið upp í okkar löggjöf. Slíkt er í fyrsta lagi mjög rangt, að breyta þannig gagnstætt kannske síðasta vilja gefandans; auk þess er það mjög hættulegt, því það gæti hæglega haft þær afleiðingar, að mönnum sýndist svo ótryggileg meðferð á gjafafé, að þeir þyrðu ekki að leggja fé í slíka sjóði. Það væri óheillaspor að setja löggjöf, er slíkar afleiðingar gæti haft. Því mörgu þörfu og góðu málefni hefir myndarlega verið af stað hrint með gjafafé.