23.03.1933
Neðri deild: 34. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 374 í C-deild Alþingistíðinda. (4299)

54. mál, vörslu opinberra sjóða

Frsm. (Halldór Stefánsson):

Ég verð að segja, að það eru dálítið óvenjulegar undirtektir, sem till. n. fá frá hv. aðalflm. frv., 2. þm. Reykv., þegar þó er í aðalatriðum fylgt þeirri hugsun, sem í frv. felst. Ég hefi ekki orðið þess var áður, að flm. frv. hafi orðið svo uppnæmir eða móðgaðir af því, þó að nefndir hafi flutt till. til breyt. á frv. þeirra.

Út af þeirri ósk hv. aðalflm., að frv. verði fellt heldur en að brtt. fjhn. yrðu samþ., vil ég aðeins segja það, að þetta er vitanlega lagt á vald hv. þd., því að hvorttveggja liggur fyrir. Hún getur valið um þann grundvöll, sem frv. leggur í málinu, með þeim breyt., sem á því kunna að verða gerðar, eða þann grundvöll, sem er í brtt. fjhn., með þeim breyt., sem síðar kynnu að koma fram við þær. Þeir hv. þdm., sem aðhyllast brtt. n., fylgja þeim, en þeir, sem álíta frv. aðgengilegra. fella brtt. n. við þessa umr.

Hv. aðalflm. þykir ekki settar nógu strangar reglur í brtt. n. um vörzlu opinberra sjóða. Það er rétt, að n. þótti ekki ástæða til að setja um þá jafneinstrengingslegar reglur og eru í frv., svo sem eins og að það skuli mega rifta gerðum samningum um lán úr sjóðunum, sem tryggð eru með fasteignaveðum, eins og 3. gr. frv. ákveður. Enda er mjög vafasamt, að það gæti staðizt og að hægt sé að ákveða með lögum að rifta slíkum samningum.

Þeir sjóðir, sem frv. fjallar aðallega um og mest er um vert, eru þeir opinberu sjóðir, sem stofnaðir eru með lögum eða konunglegri skipulagsskrá og eru í opinberri vörzlu. Af því að n. gerði ráð fyrir, að þeim væri ráðstafað samkv. fyrirmælum í skipulagsskrám þeirra, þá er aðeins sagt í till. n., að þeir skuli vera tryggilega ávaxtaðir. Auðvitað mætti tiltaka nánar um það og ákveða, að ekki skuli lána fé úr sjóðunum nema svo og svo, t. d. út á vissan hluta af matsverði fasteigna eða eitthvað þvíumlíkt. En hitt, sem frv. setur sem skilyrði, að ekki megi ávaxta fé sjóðanna nema í skuldabréfum eða verðbréfum, tryggðum með ríkisábyrgð, þótti n. vera of einskorðað. Eftir því mætti ekki ávaxta þetta fé eins og gert er í söfnunarsjóði Íslands, nema opinber ábyrgð sé á bak við. En ég veit ekki betur en að söfnunarsjóður láni fé út á fyrsta veðrétt í fasteignum án ríkisábyrgðar, og er það talið og hefir reynzt fullkomlega öruggt. Þetta ákvæði í frv. víkur auðvitað að þeirri stefnu hv. flm. að draga öll fjárumráð sem mest undir ríkið. Hv. aðalflm. var eitthvað að minnast á það, hvernig fé Brunabótafél. Ísl. mundi vera ráðstafað og ávaxtað. Það má vel vera, ef miðað er við það mat, sem hann vill láta gilda, að fé félagsins sé að einhverju leyti ávaxtað öðruvísi en hann telur vera tryggilegt. En ég hygg, að fullkomlega sé um það búið, að það fé, sem félagið hefir í útlánum, sé tryggilega ávaxtað, enda er félagið undir eftirliti ríkisstj. að lögum. Hvenær sem ástæða þykir til, má láta fara fram athugun og endurskoðun á því skv. till. n.

Hæstv. forsrh. taldi, að n. hefði ekki tekið upp í till. sínar það ákvæði úr frv., sem mest væri um vert, að veðdeildarbréfin séu keypt beint og þeim stofnunum og fyrirtækjum, sem gefa þau út. En það er nú svo um veðdeild Landsbankans, að hún reynir ekki að selja bréf sín - þann flokk, sem nú er verið að selja, 10. flokk - til stofnananna eða annara, heldur greiðir hún lánin út í skuldabréfum veðdeildarflokksins. Hún varpar skuldabréfum sínum út á frjálsan markað í fullkomna óvissu um, hvað lántakendur fá fyrir þau. Má næstum því segja, að hún varpi þeim út í brask. Ef veðdeildin hefði haldið við þá reglu að lána ekki örar en svo, að hún gæti sjálf selt veðdeildarbréfin, þá væri allt öðru máli að gegna. Enda kæmu þá ekki aðrir seljendur fram að verulegu ráði en veðdeildin sjálf, og teldi ég það eðlilegast.

Þá taldi hæstv. forsrh., að varhugavert væri að skylda allar stofnanir, sem njóta styrks af almannafé, til þess að birta ársreikninga sína opinberlega, og nefndi skólana t. d. Það má vel vera, að slíkt sé óþarfi. Ég man ekki eftir, að það kæmi sérstaklega til tals í n. um skólana. En ef það þykir óþarft, þá mætti takmarka þessa ákvörðun eitthvað og undanþiggja t. d. skólana og breyta þá orðalaginu á till. samkv. því. Annars get ég ekki betur séð en að það væri góð regla, að þeir skólar, sem fá árlega ríkisstyrk, birti reikninga sína. Það hafa svo margir áhuga fyrir því að vita, hvernig þeim vegnar fjárhagslega.

Ef hv. þd. færi eftir óskum hv. aðalflm. frv. og felldi það umsvifalaust, þá þarf ekki frekar um frv. að ræða. Verði frv. hinsvegar ekki fellt, en till. n. lagðar til grundvallar, þá má taka til greina allt það, sem hv. þdm. þætti rétt að væri í þessum lögum, þ. á m. þau ákvæði fleiri úr frv., sem við þættu eiga. Því að málið á eftir að ganga í gegnum 3. umr. hér í þd. og þrjár umr. í hv. Ed.