06.05.1933
Neðri deild: 67. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 400 í C-deild Alþingistíðinda. (4368)

81. mál, sjúkrasjóð ríkisins

Pétur Ottesen [óyfirl.]:

Eins og hv. frsm. n. tók fram, var ég ekki við, þegar n. tók endanlega afstöðu til þessa máls. Í rauninni hafði mál þetta verið borið fram í n. áður en hv. þm. Ísaf. bar hér fram þetta frv., og ég man ekki betur en að hann hreint og beint færi fram á það við n., að hún tæki að sér flutning þessa máls, en það vildi hún hinsvegar ekki gera, og svo kom hv. þm. fram með þetta frv. Ég get lýst því yfir sem minni skoðun, að ég sé ekki beint ástæðu til að vera að gera þá breyt. í þessum efnum, sem farið er fram á í þessu frv. Undanfarið, þegar eitthvað sérstakt hefir borið að höndum, eins og t. d. þegar mænuveiki hefir geysað yfir, hefir þingið um langt skeið veitt fé í fjárl. til þess að hjálpa þessum sjúklingum, og hefir ríkisstj. ráðstafað því í samráði við landlækni. Svo föst venja hefir komizt á það að hjálpa þessum sjúklingum, að þó að fjárveiting sú, sem staðið hefir í fjárl. hvert ár, hafi ekki hrokkið til, þá hefir verið farið fram yfir þessa fjárveitingu, eftir því sem þörf var á, sem svo aftur hefir verið tekið upp í fjárl. Svo ég sé ekki, með tilliti til þessara mænusóttarsjúklinga, að nein knýjandi þörf sé til þess að fara að binda þetta með l., eins og gert er ráð fyrir með þessu frv. Hinsvegar má fyllilega gera ráð fyrir því hvað aðra sjúkdóma snertir, sem taldir eru upp í þessu frv., að það geti rýmkazt svo um þessar reglur, sem hér eru settar, að það geti orðið til þess, að í þessum efnum verði farið nokkru lengra ofan í vasa ríkissjóðs en gert væri, ef þetta væri enn óbundið. Hinsvegar myndi það verða svo, þegar sérstök aðkallandi þörf væri fyrir hendi, að þingið myndi ekki bregða frá þeirri venju, sem verið hefir um að veita fé til styrktar í sérstökum tilfellum. Ég held, að með þessu frv. sé verið að búa til einn nýjan spítala í viðbót, sem margt geti rúmazt í, sem ekki væri beint þörf á að veita fé til úr ríkissjóði, en sem með þessu frv. væri einskonar skylda að styrkja, þ. e., sem hægt væri að teygja undir ákvæði þessa frv., og þess vegna sé verið með þessu að gefa undir fótinn að auka fjárveitingar í þessu skyni frá því, sem verið hefir með því fyrirkomulagi, sem nú er. Það sést á því yfirliti, sem hér er gefið um fjárveitingar í þessu skyni á árunum frá 1924- 1931, að það eru ákaflega mismunandi fjárhæðir, sem veittar hafa verið í fjárl. á þessum árum, allt frá 3 þús. og upp í 12 þús. kr., þegar hæst hefir farið. Þegar búið væri að slá því föstu, að setja þessar fjárveitingar í eitt, þá geri ég ráð fyrir, að það myndi verða nokkuð föst fjárveiting í fjárl., þannig, að þó að ekki bæri neitt sérstakt að höndum, þá myndi þessi fjárveiting verða notuð eigi að síður, og á þann hátt myndi ríkissjóði með þessu verða sköpuð nokkru meiri útgjöld en verið hefir.

Ég vil benda á það, að með breyt. þeim, sem gerðar voru á fátækral. á síðasta þingi, hefir myndazt betri aðstaða fyrir sveitarfélögin, sem verða oft að taka á sig mikinn þunga af slíkri sjúkraframfærslu, því að þegar sjúkrakostnaður fer fram úr vissri upphæð, þá hleypur ríkið sjálft undir bagga með þeim. Þetta dregur nokkuð úr þörfinni á því, að ríkið grípi hér inn í á þann hátt, sem ráð er fyrir gert. Get ég því ekki fallizt á það, að þetta frv. verði samþ., og vil heldur búa við það skipulag þessara mála, sem hingað til hefir ríkt.