06.05.1933
Neðri deild: 67. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 405 í C-deild Alþingistíðinda. (4383)

81. mál, sjúkrasjóð ríkisins

Frsm. (Ingólfur Bjarnarson):

Það getur verið, að fjvn. sleppi ekki að fullu við að fjalla um svona styrkbeiðnir, en hitt er víst, að það er léttara fyrir hana að vísa þeim frá sér, ef sjúkrasjóðurinn er til. Mín skoðun er sú, svo að ég snúi mér að styrkjum til námsmanna, sem hv. þm. V.-Húnv. drap á, að ef enginn ákveðinn námsstyrkur væri fyrir hendi, mundi miklu meira veitt af þingsins hálfu til námsstyrkja. Þó að mikill fjöldi námsmanna sæki um styrki til menntamálaráðs umfram þá, sem einhverja úrlausn fá, og þeir leiti síðan margir til þingsins, þá eru það nefnilega fáir, sem komast í fjárlögin. Og þá aðeins fyrir harðfylgi einstakra þm., sem ganga berserksgang til þess að koma sínum skjólstæðingum að.

Hvað sjúkrahjálp snertir verður sjálfsagt erfitt að losna til fulls við hana úr þinginu, en það er þó hægara, ef hægt er að benda á sjóð, sem er sjúkum mönnum til styrktar og þeir geta leitað til. En mér virðist að ágreiningurinn sé um þetta, að andmælendur frv. telji, að betra samræmi verði í styrkveitingunum, ef þingið hefir þær. (HJ: Betra en verður, ef báðir aðilar hafa þær með höndum). Já, en það er ekki meiningin. (HJ: En það verður samt svo). Ég held fast við það, að miklu hægara verði að vísa slíku út úr þinginu, ef þessi breyt. verður tekin upp, samræmi fáist betra og meiri sanngirni í sjúkrahjálpinni eftir þessu frv. en ella mundi.