30.03.1933
Neðri deild: 40. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 411 í C-deild Alþingistíðinda. (4621)

108. mál, aukatekjur ríkissjóðs

Frsm. (Jón Auðunn Jónsson):

Nefndin er sammála um að leggja til, að frv. verði samþ. Lægsta aflýsingargjald er nú 2 kr., en hæsta 12 kr. Menn vita ekki, hve mikið þeir eiga að senda og láta því niður falla að aflýsa skjölum. Nefndin vill þó ekki samþ. ákvæði frv. óbreytt, að allar aflýsingar kosti 3 kr., heldur hafa tvo gjalddaga, svo að ríkissjóður tapi ekki á breytingunni, en þó sé þetta þægilegra en áður fyrir þá, sem þurfa að láta aflýsa skjölum, svo að menn láti það síður undir höfuð leggjast. En það hefir verið eitt af mestu vandkvæðum hjá bæjarfógetum og sýslumönnum að hafa veðmálaskrárnar í lagi, af því að menn hafa trassað að aflýsa skjölum.