01.05.1933
Neðri deild: 62. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 563 í C-deild Alþingistíðinda. (4747)

174. mál, áfengislög

Flm. (Vilmundur Jónsson):

Ég skal aðeins bæta því við það, sem stendur í grg. frv., þar sem sýnt er fram á þörfina fyrir þessa löggjöf, að ég hefi sent frv. til umsagnar lögreglustjórans í Rvík, og hann hefir skrifað mér út af því á þessa leið : „Í bréfi til mín, dags. 21. þ. m., spyrjist þér, herra landlæknir, fyrir um álit mitt á því, hvort þörf sé á löggjöf um læknisrannsókn á ölvun þeirra, sem kærðir hafa verið fyrir ölvun. Sem svar við þessari spurningu yðar sendi ég yður hér með afrit af bréfi mínu til dómsmálaráðuneytisins, dags. 8. sept. 1932, og kemur þar fram, að ég tel það mikla nauðsyn, að breytt verði um rannsóknaraðferð á ölvun manna. Ég hefi oftar ritað ráðuneytinu og tilfært dæmi þess, að gamla rannsóknaraðferðin sé ófullnægjandi, en ráðuneytið hefir þó ekki ennþá séð sér fært að verða við þessum tilmælum. Það er því þarft, að ákvæði svipuð þeim, sem eru í frv. því, er fylgdu bréfi yðar, séu leidd hér í lög“.

Í þessu bréfi lögreglustjórans til dómsmálaráðuneytisins eru ýmsar upplýsingar um þetta mál, m. a. bréf frá forstöðumanni rannsóknarstofunnar, þar sem hann skýrir frá því, hvernig rannsóknunum er hagað og hvers af þeim má vænta. Hann hefir kynnt sér þetta með því að ferðast til þess staðar, þar sem þessum rannsóknum er lengst komið, og lært hjá þeim manni, sem mest hefir unnið að því að fullkomna þær rannsóknaraðferðir, sem hér yrði um að ræða.

Þetta bréf lögreglustjórans legg ég fyrir væntanlega n. og sting upp á því, að málinu verði vísað til allshn., að umr. lokinni.