01.03.1933
Neðri deild: 13. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 655 í B-deild Alþingistíðinda. (484)

4. mál, bifreiðaskatt og fl.

Jón Auðunn Jónsson:

Hæstv. forsrh. sagði, að ég vildi með brtt. á þskj. 58 undanþiggja lækna- og ljósmæðrabifreiðar þessum skatti. En slíkt er ekki rétt. Ég legg aðeins til, að þær séu settar í sama flokk og almennar fólksflutningsbifreiðar, enda notaðar í þarfir almennings, svo fljótlegra og ódýrara verði að ná í lækna og yfirsetukonur. Ég sé því engan mun á þessu tvennu og verð að halda því fram, að till. sé sanngjörn, og vonast ég til þess, að hv. þdm. ljái henni fylgi sitt.

Það hefir talsvert verið rætt um brtt. á þskj. 64, sem er borin fram til þess að smábátarnir verði undanþegnir þessum skatti, sem ætlaður er til vegagerðar. Er það líka viðurkennt, að ekki er til þess ætlazt, að bátaútgerðin greiði þennan skatt. Það er og í samræmi við það, sem er í öðrum löndum, þeim, er ég þekki til, t. d. Englandi, Danmörku og Svíþjóð. En til þess að fyrirbyggja það, þarf að lækka lágmarkið, svo smærri bátarnir sleppi við skattinn. Þessum skatti á að verja til þess að bæta vegina í landinu og gera landferðalög auðveldari og ódýrari, því bættir vegir lækka flutningana stórkostlega.

Á vondum vegum verður bílaslit og benzíneyðsla margfalt meiri. Í útlöndum, þar sem vegir eru góðir, eru flutningar með bílum margfalt eða a. m. k. helmingi ódýrari en hér, enda eru bílaferðir þar ódýrari en járnbrautir, á öllum skemmri vegalengdum. Þar sem það er ekki meining þessarar löggjafar, að smábátar, sem notaðir eru til útgerðar og flutninga, greiði þennan skatt, er nauðsynlegt að breyta l., og vona ég því, að brtt. á þskj. 64 verði samþ. Það hefir að vísu verið talað um, að þetta drægi ekki mikið, þó hver bátur borgaði 20—30 kr. En er ekki oft kvartað undan minna en því? Menn kvarta oft undan fárra kr. skatti, t. d. 5—10 kr. á heimili. Ef það er tilfinnanlegt, þá er þetta það eigi síður fyrir smábátaeigendur.