01.03.1933
Neðri deild: 13. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 675 í B-deild Alþingistíðinda. (496)

4. mál, bifreiðaskatt og fl.

Fors.- og fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson) [óyfirl]:

Hv. þm. Seyðf. sagði, að það væri óviðfelldið að byrja á því að koma á bráðabirgðasköttum, og framlengja þá svo ár eftir ár. Ég get tekið undir það, að óviðfelldið er að framlengja eitt og eitt ár í einu skatta, sem þurfa og eiga að standa áfram. Og það er einmitt sú krafa, sem nú er verið að gera um bíla- og benzínskattinn, að hann fái að standa þangað til Alþingi vill afnema hann aftur. Við sjáum það t. d. á verðtollinum, sem er nauðsynlegur tekjustofn, að þessar árlegu framlengingar eru hin mesta óvenja. Það hefir aldrei verið gefið í skyn af flm. eða stj., að bíla- og benzínskatturinn ætti aðeins að vera til bráðabirgða. Þess hefir jafnan verið óskað, að hann væri látinn standa til frambúðar, og þegar frv. um hann fór út úr þessari hv. d. í fyrra, var í því gert ráð fyrir, að hann stæði um óákveðinn tíma. Það voru aðeins vandkvæði á að fá frv. samþ. í Ed., sem ollu því, að inn í það komst ákvæðið um, að l. skyldu aðeins gilda í eitt ár.

Það, sem óviðfelldnast er þó í skattamálunum, er það, að gera stöðugt kröfur um aukin útgjöld úr ríkissjóði, en neita jafnframt að ljá honum þá skatta og tekjustofna, sem nauðsynlegir eru til þess að standast útgjöldin. En þetta er það, sem gert hefir verið á undanförnum árum. Ég hygg, að lögbundin útgjöld ríkissjóðs hafi á árunum frá 1926 til 1982 vaxið um ekki minna en 2 til 3 millj. kr. Og á þessu tímabili hefir enginn tekjustofn verið settur á móti. Þessi skattur, sem hér er um að ræða, er eitt af því, sem vitanlega á að koma á móti þessum auknu útgjöldum. Hann kemur bara seint, vegna þessarar mótstöðu þingsins gegn því að fullnægja fjárþörf ríkissjóðs jafnframt því, sem fallizt er á kröfur um auknar framkvæmdir og aukin útgjöld.

Hv. þm. Seyðf. vítti stj. fyrir það, að hún sparaði nokkuð á vegamálunum á síðasta ári, frá því sem áætlað hafði verið. Um þetta er það að segja, að áætlun fjárl. var gerð áður en kreppan skall yfir með fullum mætti, og til vegamálanna hefði aldrei verið áætlað eins mikið og gert var í fjárl. fyrir árið 1932, ef þau hefðu verið samin á harðasta kreppuári. En hvað gerði stj. fært að framkvæma þó að svo miklu leyti sem gert var áætlun fjárl.? Vitanlega þær 130 þús. kr., sem bíla- og benzínskatturinn gaf fram yfir gamla bílaskattinn. Hvernig fór um hinar verklegu framkvæmdir ríkisins árið 1923? Þá stöðvuðust þær alveg fyrir fjárskort. Eins gat farið á síðasta ári, ef þessi skattur hefði ekki fengizt samþ. á síðasta þingi. Það er alveg víst, að því hærri sem þessi skattur er, því meiri framkvæmdir verða í vegamálunum. Hinu beina sambandi milli skattsins og þeirra flutninga sjálfra, sem hér er verið að kvarta undan, að íþyngt sé, verður alls ekki neitað. Skatturinn er blátt áfram lagður á til þess að flutningarnir geti orðið ódýrari í framtíðinni, eins og við höfum margsinnis sýnt fram á. Við skulum taka dæmi af leiðinni milli Akureyrar og Rvíkur. Á þeirri leið þarf nú ekki nema einn lítra af benzíni á móti hverjum tveimur til þremur, sem áður eyddust. Þegar lítrinn kostar 32 aur. sparast þarna um 60 aur. af þriggja lítra eyðslu. Það er ekki hár skattur, þó teknir séu átta aur. af þessum sparnaði. Því segi ég það, að þetta er hin bezta hjálp, sem hægt er að veita til flutninganna. Það er ekki verið að taka allt, sem sparast vegna vegabótanna, aðeins lítinn hluta þess. Það er enginn tilviljun, að slíkur skattur sem þessi er nú kominn á víðsvegar um lönd. Hitt er einkennilegra, hvað tregt hefir gengið að koma svo sjálfsögðum hlut á hér, þó bílar hafi nú verið notaðir hér um mörg ár og vitanlegt sé, að það er notkun þeirra, sem hefir hrundið áfram vegagerðum í landinu og sem enn kalla eftir auknum framkvæmdum á því sviði.

Ég mun nú ekki svara öllu fleira af því, sem hér hefir verið sagt. Ég býst ekki við, að raddir þeirra hv. þm., sem nú andmæla þessum skatti, um þörfina á nýjum vegum þagni þegar að því kemur að afgreiða fjárl. Það getur engin stj. tekið undir með þeim sem segja: hér þarf að byggja brýr, en það má enginn kostnaður við það koma niður á kjósendur okkar. Það er auðvitað gott að geta sagt við kjósendurna: við ætlum að sjá um að þið fáið allt, sem þið girnist, og alltsaman ókeypis, eða a. m. k. skal kostnaðurinn verða tekinn af einhverjum öðrum en ykkur. En menn eru nú samt vanastir við það, a. m. k. í sveitunum, að ef menn vilja fá einhvern nýjan hlut, eða ef menn taka sig saman um að hrinda af stað einhverjum framkvæmdum, að þurfa að leggja eitthvað á sig sjálfir, og það jafnvel þó um ríkisframkvæmdir sé að ræða. Og þó þeir menn kæmust í stj., sem mest hafa talað móti þessu frv., býst ég ekki við, að þeir gætu heldur látið framkvæma allt ókeypis, sem gera á fyrir fólkið.