06.05.1933
Neðri deild: 67. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 402 í C-deild Alþingistíðinda. (5014)

81. mál, sjúkrasjóð ríkisins

Pétur Ottesen [óyfirl.]:

Hv. frsm. fjvn. hélt ekki, að hætt myndi við, að ákvæði frv. myndu verða teygð út á víðara svið en verið hefði, þótt það yrði samþ. óbreytt, því að það væri bundið í frv., hvað undir þetta gæti komið. Það er rétt, að í frv. er tiltekið, í hvaða tilfellum megi veita styrk úr sjóðnum, en þetta er þó svo óákveðið, að því nær engin takmörk eru fyrir því, hvað hægt er að teygja þessi ákvæði. Í 4. lið 3. gr. stendur t. d., að styrkhæfir séu „örkumla menn, til að standast kostnað við útvegun nauðsynlegra gervilima, varanlegra umbúða, sjúkravagna o. s. frv.“ (IngB: Þetta er það sama og nú gildir). Já, en það er þó á valdi þingsins að kveða á um þetta í hvert skipti. Samkv. frv. á aftur á móti að leggja þetta allt í hendur heilbrigðisstjórnar.

Hv. frsm. sagði, að mikilsvert væri að koma öllum reipdrætti um þessar fjárveitingar út úr þinginu. Þessi röksemd hefir líka verið notuð til þess að koma því á, að sérstökum nefndum yrði falið að veita námsstyrki, en ekki þinginu. Þó úir og grúir af námsstyrkjum ár hvert í fjárl. Ber þá líka eitthvað nýrra við, ef þetta frv. útilokar allar fjárveitingar þingsins í þessu efni.