05.04.1933
Efri deild: 43. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 776 í B-deild Alþingistíðinda. (705)

19. mál, sjúkrahús og fl.

Magnús Torfason:

N. hefir ekkert verulegt haft við þetta frv. að athuga. Það virðist sæmilega úr garði gert og engin ákvæði í því, sem líklegt er, að geti orðið til baga.

Nokkrar brtt. hefir n. gert á þskj. 311. Fyrsta breytingin er aðeins orðabreyting. Er lagt til, að orðið „fyrirkomulagi“ falli niður, því að það virðist alveg óþarft.

En aftur á móti er við 6. gr. lítilsháttar efnisbreyting, þar sem sagt er, að ekki sé hægt að leysa sveitarfélögin undan þátttöku, nema þau telji sig ekki hafa nein not af fyrirtækinu. Okkur fannst þetta nokkuð strangt ákveðið, að sveitarfélög skuli aðeins vera undanþegin þessari þátttöku, ef þau hefðu ekki nein not af því. Töldum því réttara, að í staðinn fyrir orðið „nein“ komi: veruleg. Og ennfremur vegna þess, að eins og þetta frv. er gert, þá er það ekki víst, að meiri hl. manna í sveitarfélögum sé með því að taka þátt í slíkri stofnun, því að það eru hreppsnefndirnar, sem hafa ráðin.

En það eru ekki sveitarfélögin á þessum svæðum, sem eiga að standa að þessum sjúkrahúsum, þó að venjan hafi hingað til verið sú.

Þá er brtt. við 3. gr. frv. Hún er aðeins til skýringar. Orðalag greinarinnar var ekki fullkomlega skýrt, en ég vænti þess, að með þessari breyt. sé það skýrt, við hvað er átt, enda er það rétt hugsað í alla staði.

Óska ég svo, að þessar brtt. verði samþ. og frv. vísað til 3. umr. Þá býst ég við, að hinn eiginlegi frsm. muni gera frv. betri skil og tala nánar fyrir því.