06.05.1933
Neðri deild: 67. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 885 í B-deild Alþingistíðinda. (917)

5. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

Frsm. (Halldór Stefánsson):

Ég vísa til nál. á þskj. 551 um það, að n. mælir með, að frv. sé látið ganga fram, enda þótt hún sé ekki allskostar ánægð með einstök atriði þess.

Ég skal geta þess, sem menn hafa sjálfsagt tekið eftir, að aðeins 4 nm. hafa skrifað undir nál., og er það af því, að einn nm. var forfallaður sökum veikinda, og hefir hann því að sjálfsögðu óbundið atkv. um frv.

Annars þarf ég ekki að fara mörgum orðum um þetta frv. Það er að mestu leyti eins og frv., sem var samþ. af Alþingi í fyrra, en náði þá aðeins til þess líðandi árs, en hér er farið fram á framlengingu til eins árs.

Frv. var borið fram í Ed. og var samþ. þar óbreytt að mestu leyti, aðeins gerð sú breyt. á 7. tölul., að í staðinn fyrir ¼ af tekjum menningarsjóðs — eins og ákveðið var í fyrra — skuli nú aðeins 1/8 renna í ríkissjóð. Einnig var því bætt við, að sjóðnum sé skylt að kaupa náttúrufræðisafn Guðmundar Bárðarsonar eftir mati þriggja manna, er stj. tilnefnir.

Það, sem fjhn. hafði helzt að athuga við frv., var það, að nm. þótti ekki full ástæða til eins og nú er komið að samþ. 5. tölul. frv., sem er þess efnis að fresta framkvæmd 12. gr. 1. um breyt. á jarðræktarlögunum, en það er styrkur til garðræktar. Það er dálítið hjáleitt að fresta slíkri framkvæmd á sama tíma og verið er að reyna að efla landbúnað á allan hátt og gera hann sem fjölbreyttastan. N. þótti ekki heldur full ástæða til að draga undan svo mikið sem gert er í 7. tölul. frv., virtist jafnvel of langt gengið í því í fyrra.

En þótt n. sé ekki fyllilega ánægð með þessi 2 atriði, þá telur hún að svo komnu ekki ástæðu til að hefja ágreining um málið, en einstakir nm. hafa óbundnar hendur um breyt. á einstökum atriðum þess, ef brtt. koma fram.