18.11.1933
Neðri deild: 13. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 107 í C-deild Alþingistíðinda. (1025)

39. mál, ábúðarlög

Atvmrh. (Þorsteinn Briem):

Út af till. þeirri til breyt. á ábúðarlögunum, sem hér liggur fyrir, vil ég einungis taka það fram, að ég tel það ekki forsvaranlega meðferð á þessu máli, ef hv. landbn., sem væntanlega fær það til athugunar, leitar ekki umsagnar þeirra lánsstofnana, sem hér eiga sérstaklega hlut að máli, en það eru Búnaðarbankinn, Landsbankinn og e. t. v. Söfnunarsjóður Íslands. Það eru á þessu máli tvær hliðar. Annarsvegar er löggjöfinni skylt að vernda sem bezt hag leiguliðanna, sem hér er um að ræða, en hinsvegar verður löggjöfin og að viðurkenna þá skyldu sína, að gera þeim, sem jarðir eiga, sem auðveldast að fá lán. Þess vegna verður að gæta allrar varúðar í því efni að takmarka veðhæfni jarða, og finnst mér því ekki viðlit, að þingið afgreiði þetta mál án þess að leita rækilegrar umsagnar þeirra höfuðlánsstofnana, sem lána gegn fasteignaveði.

Að svo komnu máli sé ég ekki ástæðu til þess að taka fleira fram.