29.11.1933
Efri deild: 22. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 65 í D-deild Alþingistíðinda. (1141)

75. mál, sala innanlands á landbúnaðarafurðum

Eiríkur Einarsson:

Ég ætlaði að láta mér nægja að sýna till. fylgi mitt með því að greiða henni atkv., en nokkur þau orð, er hér hafa fallið, gáfu mér tilefni til að standa upp.

Eitt af því, sem hér hefir verið rætt, er 2. liður till., hvort leita beri umsagnar þeirra stofnana, sem þar eru nefndar. Sé ég ekki, að eftirsjón væri að þessum lið, því að ef ríkisstj. er falið að gera þetta, sem til er tekið, þá er auðvitað, að hún verður að afla sér sem beztra upplýsinga, og verður hún þá að fara til þessara stofnana.

En það, sem kom mér sérstaklega til þess að taka hér til máls, var þó hitt, að ekki hefir verið minnzt á það í sambandi við að gera bændum fært að fá endurgreiddan framleiðslukostnað sinn, hvað ríkisstj. þyrfti að gera í samgöngumálum landsins. Reykjavík hefir t. d. að upplandi mesta framleiðslusvæði landsins, Suðurlandsundirlendið. En í samgönguskortinum milli Reykjavíkur og Suðurlandsundirlendisins eru miklir örðugleikar fólgnir, og er þetta eitt meginmeinið, sem þarf að lækna.

Í sambandi við það, sem hér hefir verið talað um mjólkurbú, og þá sérstaklega mjólkurbú Eyfirðinga, skal ég geta þess, að ég efast ekki um, að rétt sé, að það sé í góðum höndum. En viðvíkjandi því, sem sagt var um skipulagsleysi mjólkurbúanna fyrir austan, má benda á, að stærsta mjólkurbúið þar, mjólkurbú Flóamanna, stendur í nánu sambandi við kaupfélög, sem eru í S. Í. S. Ég læt þessa aðeins getið.

Það var sorglegt, sem skeði í mjólkurbúamáli Sunnlendinga, þegar tvö mjólkurbú voru stofnuð í einu, svo að kalla hvort við hliðina á öðru. Þessi tvíburafæðing var ógæfa, og vil ég lýsa ábyrgð 5 því sem lengst frá mér. Áhrifin voru þar aðkomandi. Héruðin eiga eftir að kenna á afleiðingum þeirra framkvæmda.

Ég vil hvetja til þess, þegar ný mjólkurbú verða stofnuð, að þá sé ekki verið að „agitera“ fyrir þessu og þessu héraði og einhver skyndiáhrif látin ráða úrslitum, þar sem svo mikið er undir því komið, að heildarviðhorfsins sé gætt.