21.11.1933
Neðri deild: 15. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 82 í B-deild Alþingistíðinda. (133)

2. mál, kosningar til Alþingis

Halldór Stefánsson:

Ég hefi leyft mér að bera fram á þskj. 73 nokkrar brtt. við frv. það, sem hér er til umr., og mun ég ekki komast hjá að gera nokkra grein fyrir þeim. Mikill meiri hl. brtt. þessara eru orðabreyt., og mun ég þar fara fljótt yfir sögu, láta afdrif þeirra vera komin

undir tilfinningum hv. dm. fyrir íslenzku máli.

Fyrsta brtt. mín er við 5. gr. frv., og eru allir stafliðir hennar orðabreyt. einar, sem ég skal ekkert fara út í hér.

Önnur brtt. er við 6. gr. Þar er farið fram á að nema burt þau ákvæði gr., að samþykki yfirkjörstj. þurfi að koma til, ef skipta á kaupstað eða hreppi í kjördeildir. Brtt. þessi er byggð á því, að það virðist algerlega óeðlilegt að gera undirkjörstjórnir ómyndugar gagnvart yfirkjörstjórnum í þessu atriði, hvort þær telja nauðsynlegt að hafa eina eða fleiri kjördeildir í hreppnum. Ákvæði þetta eins og það er í frv. virðist því aðeins vera leifar af gamalli skriffinnsku, sem sjálfsagt sé að fella burt. Brtt. 2.b. viðkemur og þessari grein, og má heita, að hún sé engin efnisbreyt. Í frvgr. eins og hún er nú er svo ákveðið, að þegar tiltekin tala kjósenda í einhverjum hreppi óskar eftir að fá nokkurn hluta hreppsins í sérstaka kjördeild, þá eiga þeir kröfu á því, ef kjördeildir hreppsins eru færri en fjórar. En það er hvergi sagt, hvert þeir eigi að beina þessari kröfu sinni. En hér er svo tiltekið, að þeir skuli beina henni til viðkomandi sveitarstjórnar.

Þriðja brtt. er við 7. gr. Hún er í raun og veru ekki efnisbreyt. í frv.gr. er sagt, að kjörstjórnir við alþingiskosningar skuli vera þrennar: Landskjörstjórn, yfirkjörstjórnir og undirkjörstjórnir. Hér hefir ein kjörstjórnin gleymzt, sem sé utankjörfundakjörstjórn. Er því lagt til, að henni sé bætt sem 4. tölul. við greinina. Þetta er aðeins lagfæring á formi, en ekki efnisbreyt.

Þá er 4. brtt., sem er við 9. gr. Það er aðeins orðabreyt. í 2. málsgr. 9. gr. segir svo m. a.: „Að öðrum kosti skipar ráðherra oddvita, er sé kjósandi í kjördæminu“, o. s. frv. Á að gera þetta þar, sem sýslumaður eða bæjarfógeti er ekki heimilisfastur í kjördæminu. Það má segja, að þetta geti staðizt. En það er óneitanlega réttara orðalag og meira í samræmi við efni gr. að segja „annarsstaðar“ í stað „að öðrum kosti“.

Fimmta og sjöunda brtt. eru aðeins orðabreyt., sem þurfa ekki skýringar við.

Þá er 8. brtt., við 25. gr. í 25. gr. er svo ákveðið, að enginn kjósandi megi greiða atkv. nema í einu kjördæmi. Ég býst nú við, að hér sé líka meint, að hann megi heldur ekki greiða atkvæði nema í einni kjördeild, því að alveg eins getur komið fyrir, að maður standi á kjörskrám í 2 kjördeildum innan sama kjördæmis eins og hann getur staðið á kjörskrám í tveimur kjördæmum. Mér virðist því rétt, að það sé tekið fram í kosningalögunum, að hið sama gildi, að enginn megi frekar greiða atkv. nema í einni kjördeild, eins og enginn má greiða atkv. nema í einu kjördæmi við sömu kosningar til Alþingis.

Níunda brtt. er aðeins orðabreyt. Þá er 10. brtt., við 27. gr. í síðustu málsgr. 27. gr. frv. er svo tiltekið, að auk þess sem framburði einstaks frambjóðanda skuli fylgja skrifleg yfirlýsing hans sjálfs um það, hvaða stjórnmálaflokki hann fylgi, þá skuli og fylgja skrifleg yfirlýsing hlutaðeigandi flokksstj. um það, að hann sé í kjöri fyrir flokkinn. Samkv. þessu eru því sjálfir frambjóðendurnir og meðmælendur þeirra ekki teknir trúanlegir um það, hvaða flokksaðstöðu þeir hafi. Mér finnst þetta í fyllsta máta óviðkunnanlegt, þar sem líka hugsunin, sem liggur til grundvallar fyrir því, er sú, að koma hér á alræðisvaldi flokksstjórnanna yfir þjóðarheildinni og einstaklingunum. Ég legg því til, að þetta ákvæði um hina skriflegu yfirlýsingu flokksstjórnanna sé fellt burt úr greininni. Verði brtt. þessi felld, þá mun ég fylgja annari brtt., sem hér liggur fyrir á öðru þskj. og gengur í svipaða átt.

Þá er 11. brtt., við 28. gr. Hún er í fjórum liðum Stafl. a. og b. eru aðeins orðabreyt, og sömuleiðis stafl. c. En stafl. d. er efnisbreyt. í frv. er svo gert ráð fyrir, að þeir einir frambjóðendur eigi rétt á að koma til greina við landskjör og til uppbótarþingsæta, sem bjóði sig fram undir ákveðnu flokksmarki. Er þannig þeim frambjóðendum, sem ekki vilja láta merkja sig undir neitt af flokksmörkunum, ætlaður annar og minni réttur en flokksháðum frambjóðendum.

Ég geri nú ráð fyrir, að það komi ekki til með að hafa neina praktiska þýðingu, þó að þessu ákvæði verði breytt. En ég held því fram, að það beri að gera það

eigi að síður, því að það er í mesta máta óviðkunnanlegt, að lögin sjálf ætli kjósendum og frambjóðendum tvennskonar rétt. Ég leyfi mér því að leggja það til, að þeim frambjóðendum, sem ekki vilja játast undir neitt ákveðið flokksmark, sé í kosningalögunum ætlaður sami réttur og öðrum frambjóðendum.

Í 29. gr. frv. er svo ákveðið, að frambjóðandi, sem býður sig fram utan flokka, megi ekki vera á landslista, og getur því ekki komið til greina við úthlutun uppbótarþingsæta. Þetta vil ég leiðrétta með 12. brtt. minni, a-lið.

Þá eru 13., 14., 15., og fyrri liður 16. brtt. minnar orðabreyt., sem ég tel ekki ástæðu til að orðlengja um sérstaklega. Aftur er b-liður 16. brtt. afleiðing af því, sem ég hefi gert till. um áður. Í lögunum á öllum kjósendum að vera ætlaður sami réttur. Hér er því farið fram á orðabreyt. til samræmis við það.

Sautjánda brtt. er og orðabreyt., að í staðinn fyrir orðin „Listi utan flokka“ komi: „Listi óflokksháðra kjósenda“.

Þá er 18. brtt. Hún er við 113. gr. frv. og er í þremur stafl., a., b., og c. Brtt. þessi er töluverð efnisbreyt. Hún fjallar um það, hversu langt eigi að ganga í því að meta gild eða ógild atkv. frá kjósendum, þau, sem gölluð eru. Eins og vitanlegt er, þá hafa allir menn, sem náð hafa vissum aldri, jafnan rétt til þess að vera kjósendur. Þar á er enginn munur gerður. Það hefir stundum verið talað um það, að rétt væri, að menn stæðust ákveðið kunnáttupróf til þess að fá kosningarrétt. Nú vill svo til, að kosningarathöfnin sjálf er eða getur verið nokkurskonar próf fyrir kjósendur, og það virðist vera það minnsta og eðlilegasta próf, sem af þeim er hægt að heimta, að þeir hafi getað skilið eða lært þær einföldu reglur, sem um kosningarathöfnina gilda. Hafi þeir ekki getað það, þá eru þeir slíkir andlegir vanmetamenn, ég á við það, sem Danir kalla „Undermaalere“ að þeir eiga ekki að hafa kosningarrétt. Ég er því alveg á móti því ákvæði frv., að taka gilda atkvæðaseðla, þar sem margskonar frávík og afglöp eru leyfð frá hinni réttu aðferð. Brtt. mín er því í þá átt að flytja nokkur atriði úr 114. gr. frv. í 113. gr. þess, þar sem fram er tekið, hvað valdi ógildingu atkvæðis. Ég vil láta það varða ógildingu atkvæðis, ef merkt er aftan við nafn eða listabókstaf, þar sem fyrir er lagt í kosningalögunum, að merkja eigi framan við. Ég tel þann, sem getur ekki skilið eða munað jafneinfalt atriði, svo mikinn vanmetamann andlega, að atkvæði hans eigi að falla ógilt; hann hafi með vankunnáttu sinni afsalað sér kosningarréttinum sjálfur. Þá vil ég, að það varði og ógildingu, ef á utankjörstaðaseðli er ekki fullt, óbjagað nafn frambjóðandans. Geti kjósandi ekki munað fullt nafn hans og þurfi að hnjóta um það, þá lítur út fyrir, að það hafi ekki verið af eigin áhuga eða nægri greind, að hann gekk til kosninga. Þá legg ég og til, að það varði ógildingu atkvæðis, ef aðeins er kosinn einn frambjóðandi í tvímenningskjördæmi, og sömuleiðis, ef fleiri en einn eru kosnir í einmenningskjördæmi. Ákvæðin eru svona í núgildandi kosningalögum og eiga, að því er ég tel, að vera áfram í lögum, því að slík mistök sem þessi bera svo ljósan vott um skilningsleysi kjósanda, að hann á með því að hafa sjálfur tekið af sér réttinn til þess að hafa áhrif á kosningu. Hinsvegar vil ég alls ekki, að það bitni á kjósendum, þó að þeir séu illa skrifandi, eða séu skjálfhentir, svo að krossinn sé þeirra hluta vegna ljótur eða hlykkjóttur.

Þá geri ég till. um, að 115. gr. frv. falli niður. Sú gr. kveður svo á, að ef kjósanda hefir orðið það á að kjósa bæði frambjóðanda og landslista flokks, þá skuli seðillinn að vísu tekinn gildur og atkv. teljast greitt frambjóðandanum í kjördæminu, eða í Rvík lista kjördæmisins, en landslistinn skuli talinn ókosinn. Ég legg til, að þessi gr. sé felld niður vegna þess, að ég tel, að hún komi of nærri því stjskrfrv., sem fyrir liggur, og allir vita, að verður að lögum samhliða kosningalagafrv. í 1. gr. þessa stjskrfrv., staflið c., segir: „Heimilt er flokkum að hafa landslista í kjöri við almennar kosningar, enda greiði þá kjósandi atkv. annaðhvort frambjóðanda í kjördæmi eða landslista“. Það er greinilega tekið fram, að kjósandi á annaðhvort að kjósa frambjóðanda eða landslista. Ef hann kýs hvorttveggja, brýtur það í bága við stjskr., en þó er ætlazt til í kosningalagafrv., að leyfilegt sé að taka slíkan atkvæðisseðil gildan. Ég get hugsað mér, að flughálum lögfræðingum geti hér tekizt að finna einhverskonar smugu. En það er þá til lítils að setja skýlaus ákvæði í lög, ef hægt er að smjúga fram hjá þeim með lögkrókum, ef talið er, að það komi flokkshagsmunum betur.

21. brtt., við 128. gr., er að mestu leyti orðabreyt. og að nokkru þó afleiðing af þeim ákvæðum um jafnrétti kjósenda, sem ég hefi gert till. um. í 128. gr. frv. segir, að atkv., sem falla á frambjóðendur utan flokka, komi ekki til greina við úthlutun uppbótarþingsæta. Hér er þannig skýlaust tekið fram, að óháðum kjósendum er í frv. ætlaður minni réttur heldur en öðrum kjósendum landsins. Ég býst við, að það, sem haft verður á móti till. mínum um þetta efni, verði helzt það, að það sé óeðlilegt eða fáránlegt, ef utanflokkamönnum er veittur sami réttur til uppbótarsæta og öðrum. Að hér skuli sérstaklega tekið fram, að utanflokkakjósendur skuli ekki hafa þennan rétt, sýnir það, að ekki hefir verið álitið alveg sjálfsagt, að þeir hefðu hann ekki. Brtt. mín hnígur að því að taka hið gagnstæða fram á þessum stað, að flokkur óháðra kjósenda skuli hafa sama rétt til uppbótarþingsæta eins og nafngreindir stjórnmálaflokkar.

Síðasta brtt. mín, við 129. gr., er afleiðing af þessum till. mínum um jafnrétti kjósendanna, það er að niður falli 3. tölul., og þarf ekki að fara orðum um það frekar.

Það er þá um brtt. mínar í heild að segja, að meiri hl. þeirra er aðeins orðabreyt.; sumar snerta efnishlið frv. að engu leyti, en aðrar eru afleiðingar af þeim fáu efnisbreyt., sem ég legg til, að gerðar séu á frv. Ég skal svo að lokum rifja upp, hverjar þær efnisbreytingar eru. Það er þá fyrst, að flokksstjórnirnar þurfi ekki að stimpla sér kjósendur eða framboðslista til þess að þeir séu teknir gildir. Annað það, að allir kjósendur séu gerðir jafnréttháir fyrir sjálfum lögunum, þótt það hafi máske ekki mikla þýðingu í framkvæmd, að lögin sjálf ætli mönnum ekki tvennskonar rétt, eftir því hvort þeir eru í pólitískum flokki eða ekki. Þriðja er það, að niður falli 115. gr. frv., sem ég tel, að komi of nærri stjskr. Þá er það, að ekki þurfi samþykki yfirkjörstjórnar til þess að fjölga megi kjördeildum í hreppum. Og loks er það bann við því, að kjósendur megi greiða atkv. í tveimur kjördeildum innan sama kjördæmis.