18.11.1933
Efri deild: 13. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 195 í C-deild Alþingistíðinda. (1355)

38. mál, undanþága frá áfengislöggjöfinni

Guðrún Lárusdóttir:

Það er svo um þetta mál, að það mætti sjálfsagt lengja fundi í það óendanlega, því þetta er eitt af þeim málum, sem mönnum er mjög sárt um. Það er sannnefnt tilfinningamál fjölda manna, því að ekkert af þeim málum, sem eru á dagskrá meðal þjóðarinnar, kemur eins mikið við kjör hvers einstaks manns eins og einmitt þetta mál.

Í haust, þegar áfengismálið var til umr. í því formi, sem það var lagt fyrir þjóðina, til þess að henni gæfist kostur á að segja álit sitt um það, fóru fram umr. í útvarpinu af hendi bannmanna og andbanninga. Þá virtist mér málinu þannig haldið fram fyrir þjóðinni af andbanningum, að ekki væri um það að ræða, hvort ætti að gera undanþágu frá áfengislögunum, heldur einungis það, hvort þjóðin vildi lengur una við það slitur af bannlögum, sem hún ætti við að búa. Bannmenn héldu því fram, að þjóðin ætti að velja um það, hvort hún vildi meira vín inn í landið eða ekki. Annbanningar þvertóku fyrir þetta og sögðu, að um það væri alls ekki verið að tala, heldur það, hvort þjóðin vildi ekki algerlega afnema bannlögin sjálf. Ég man þetta vel, af því ég tók sjálf þátt í umr. En nú vildi ég segja það, að ef ræða sú, sem hv. 2. þm. Rang. hélt hér áðan um þetta mál, hefði verið flutt í útvarpinu og jafnskilmerkilega lagt fyrir þjóðina, hvað um væri að vera, þá hefðu orðið fleiri nei-in, því illa trúi ég því, að íslenzka þjóðin áliti, að hún hafi sérstaklega þörf fyrir meira vín, þar sem alltaf hefir verið stagazt á því, að allt væri fullt af víni, og það á þeim tímum, þegar stjórnarvöldin hafa orðið að banna ýmiskonar nauðsynjavarning, sem þjóðin getur tæplega verið án. En í þessu frv. virðist ég fá fullkomna sönnun fyrir því, að það hafi verið rétt, sem bannmenn héldu fram, að þjóðin ætti um það eitt að velja, hvort hún vildi fá meira vín inn í landið eða ekki, því það er tekið skýrt fram í frv., að bannlögin skuli að öllu leyti halda sér, með öllum sínum feikilega sterku refsiákvæðum, sem ég álít ekki eiga alllítinn þátt í því, hvað bannlögin hafa stundum reynzt illa. Menn kinoka sér við að benda kannske á bláfátækan barnamann, sem hefir orðið það á að brjóta bannlögin, ef til vill á smávægilegan hátt, vegna þess að hann á þá vísar háar sektir og refsingu.

Ég tel fullkomna ástæðu til að taka fullt tillit til þjóðarviljans, og það var einmitt þess vegna, sem ég greiddi atkv. með því, að þjóðin sjálf fengi að skera úr þessu máli, eins og hún hafði áður gert, þótt ég telji það ekki heppilega aðferð yfirleitt að láta þjóðina vasast í atkvgr. í hinum og þessum málum, sem ágreiningi valda. En það stóð sérstaklega á um þetta mál. Það hafði verið lagt fyrir þjóðina til þess að hún gæti sagt vilja sinn um það. Þess vegna þótti óhjákvæmilegt að lofa þjóðinni nú aftur að segja til um álit sitt. Hinsvegar get ég ekki skrifað undir það álit hv. 2. þm. Rang., að ég sem þm. hafi þar með skuldbundið mig til þess að greiða atkv. með hverskonar breyt., sem kynni fram að koma, eða breytt skoðun minni sem bindindis- og bannmaður eftir því, sem fram hefir komið við atkvgr. þjóðarinnar. Ég hygg, að hver þm. eigi að greiða atkv. eftir sinni eigin skoðun, en ekki annara manna. En það ber að taka fullt tillit til þjóðarviljans, og þegar við komum inn á það atriði, megum við ekki ganga fram hjá þeim 11.624, sem sögðu nei, þó sá þjóðarvilji sé í minni hl. Sá vilji hefir komið fram á ýmsan annan hátt. Fyrir nokkru var ég stödd á fundi, þar sem mættir voru fulltrúar frá ýmsum söfnuðum þessa lands. Þar var afgr. svo hljóðandi fundarsamþykkt:

„Fundurinn er því algerlega mótfallinn, að nokkur breyting verði gerð á áfengislöggjöfinni á þessu þingi, og leyfir sér að skora á ríkisstj. að birta almenningi nokkru fyrir næsta reglulegt Alþingi það vínsölufrv., sem hún kann að flytja“.

Hér er í rauninni ekki verið að greiða atkv. móti neinu, sem fram er komið, heldur að koma málinu í það horf, sem það ætti vitanlega að koma í frá ríkisstj. hálfu. Og ég get nú ekki samvizku minnar eða sannfæringar vegna greitt atkv. með þessu frv. Liggur mér í léttu rúmi, þótt einhverjir kunni að telja þetta brigðmælgi. Ég álít það ekki heppilegan starfsgrundvöll fyrir þm. að binda fyrir munn sér með sínu eigin atkv. Vér eigum ávallt að hafa samvizku og sannfæringu í verki með oss. Og sannfæring mín segir mér að greiða ekki atkv. með frv.

Það hefir nú verið talað mikið um þetta mál. Hv. 2. þm. Rang. minntist m. a. lítilsháttar á fjárhagshliðina á því. Nú vil ég spyrja hann sem sanngjarnan og góðan dreng og góðan Íslending: Hvað fáum við fyrir þessa peninga, sem innflutningur áfengis veitir í ríkissjóð? Hvað fá synir okkar og dætur og heimili með vaxandi vínnautn ? Ég held því fram, að lífið á til verðmæti, sem ekki verða metin til fjár. Og þarna myndi kastað á glæ verðmætum, sem ekki verða metin til fjár.

Hv. 3. þm. Reykv. var að varpa fram spádómum. Hann er bjartsýnn maður og gerði ekki ráð fyrir, að þetta myndi breyta nokkru. Það er auðvitað, að það verður enginn héraðsbrestur, eins og hann komst að orði, þótt hjörtum blæði til ólífis vegna böls þess, sem alla jafnan er fylgifiskur áfengisnautnar, eða þótt fátæk móðir gráti undan því böli. En hér hefir nú verið játað, að áfengisnautn myndi aukast, og því verður ekki neitað með neinum sanni, að jafnhliða muni bölið aukast. Reynslan hefir margsannað það, jafnt um fjölda og einstaklinga. Og sár einstaklingsins eru sár fjöldans, og þau verða ekki grædd nema með samtökum fjöldans. En e. t. v. þykir það ekki sæma að tala um slíkt í sölum Alþingis.

Áfengið hefir kvalið þjóðina lengi fyrr tímum. Ég man sjálf þá tíma, þegar þriggja pela flaska af brennivíni kostaði ekki nema 75 aura. Ég drep á þetta aðeins til fróðleiks, en ekki af því, að ég búist við hví, að menn vilji innleiða það aftur.

Ég held, að bezt væri að vera ekki að þrasa lengi um ágæti banns eða ókosti, heldur fara meðalveginn, taka til greina þjóðarviljann, en reyna þó að miðla málum svo, að báðir megi við una. Það getur fengizt með því að undirbúa rækilega endurskoðun áfengislaganna, með því að lagt yrði fram frv., er allir gætu kynnzt, áður en lengra er gengið í málinu. Það kemur þing eftir þetta þing, og þar verða nýir menn og e. t. v. víðsýnni, og munu þeir þá leiða málið til lykta.

Ég þekki vel, hve þetta mál er viðkvæmt og sárt, og ég skil ekki, að nokkrum þm. geti verið þægð í að gera það í því, sem miklum hluta þjóðarinnar er mótgerð í.