18.11.1933
Efri deild: 13. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 198 í C-deild Alþingistíðinda. (1356)

38. mál, undanþága frá áfengislöggjöfinni

Jón Jónsson:

Það kom dálítið flatt upp á mig, þegar ég sá þetta frv. Um það var mikið deilt í sumar, hvort heyja skyldi aukaþing eða ekki. T. d. hélt hv. þm. Str. því fram, að aukaþingið væri óþarft og að af því myndi leiða mikinn kostnað. Nefndi hann 200 þús. kr., og þótti ýmsum andstæðingum hans það býsn. Margir héldu því fram, að þingið myndi verða stutt og að ekki myndu þar tekin til meðferðar önnur mál en þau, sem stæðu í beinu sambandi við stjórnarskrárbreytinguna. En nú er svo að sjá, sem þetta muni ekki verða. Mér sýnist daglega velta yfir þingið till. um aukafjárútlát ríkissjóðs. Þá sýnist mér þetta frv. benda til þess, að þinginu sé ekki ætlað að verða sérstaklega stutt. Veit ég ekki, satt að segja, hvaða mál hægt væri að velja, sem eins væri vel til þess fallið að lengja þingið um hóf fram. Þetta mál hefir verið flutt þing eftir þing, og þó aldrei komizt til fyrir þá d., sem það var flutt í, vegna óþrjótandi ágreinings. En fylgjendum afnáms bannsins virðist hafa orðið svo brátt við úrslit þjóðaratkvæðagreiðslunnar, að þeir gátu ekki stillt sig um að grípa tækifærið til að færa þjóðinni blessun brennivínsins.

Ég skal ekki fjölyrða um þessa atkvgr. En ég verð þó að segja það, að hún verður að teljast nokkuð vafasöm. Fylgjendur afnámsins stæra sig af því, að hún hafi verið mjög glögg, þar sem 58% atkv. hafi verið með afnáminu. En við sjáum, að þátttakan í atkvgr. var mjög lítil, eins og eðlilegt er, þar sem hún fór fram á óheppilegum tíma og ekki komu nein önnur mál til atkv. um leið. Þó að gert sé gys að þeirri röksemd, að hríðarveður hafi verið þennan dag, þá er það nú samt svo. Veðrið var mjög slæmt. Atkvgr. sýnir, að tæplega 50% kjósenda hafa greitt atkv., og það sýnir aftur lítinn áhuga á breytingu.

Það kann að vera rétt hjá hv. 2. þm. Rang., að margir þeirra, sem heima sátu, séu í raun og veru fylgismenn afnámsins. En það sýnir þó ekki mikinn áhuga hjá þeim á breytingunni, er þeir sitja heima í þeim héruðum, þar sem skilyrði til að sækja atkvgr. eru annars góð. Annars er eðlilegast að ætla, að þeir leggi mesta kappið á sóknina, sem bannið vilja afnema.

Þá ber á það að líta, að af 27 kjördæmum eru 14, sem ekki vilja breytinguna, eða rúmur helmingur. Baggamuninn ríður eitt kjördæmi, sem sé Reykjavík. Meiri hluti kjördæmanna er á móti afnáminu, og t. d. allir Vestfirðir.

Nú gera andbanningar sér hægt um hönd og leggja til, að aðflutningsbann á sterkum drykkjum sé afnumið og það á þess að setja nokkrar frekari reglur um það. Mér fyndist t. d. ekki ósanngjarnt, að Vestfjarðakjálkinn, sem allur var á móti afnáminu, fengi að ákveða sjálfur, hvort hann vill hafa þar útsölu sterkra drykkja, því að sennilega mun eiga að setja slíka útsölu á Ísafirði. Sé ég ekki, að einu orði sé vikið að slíku í frv. Hafi það vakað fyrir flm., þá er það ekki nema gott. En þetta er víðar svona en á Vestfjarðakjálkanum. T. d. ætti Akureyrarkaupstaður að hafa sitt atkv. um þetta.

Þá er annað, sem er skylda þjóðfélagsins um leið og hleypt er þessum voða að þjóðinni, því að þetta er voði; við, sem komnir erum til ára, munum, hvernig var hér áður því er það rík skylda þjóðfélagsins að setja ströng ákvæði til þess að fyrirbyggja háskalega misnotkun þess áfengis, sem flutt verður inn í landið. Ég held t. d., að setja beri ákvæði, sem tryggja bindindisfræðslu í skólum landsins, að veita beri fé til bindindisstarfsemi o. fl. Því fer fjarri, að þörf sé á að flaustra málinu svo af, að menn gefi sér ekki tíma til að vanda löggjöfina. Því hefði ég getað skilið það, ef komið hefði fram þáltill. til stj. um að undirbúa slíkt í samráði við bindindisfélög fyrir næsta þing.

Hv. 3. þm. Reykv. hélt því fram, að þar sem málið hefði verið borið undir þjóðina, þá væri þm. skylt að fara þar eftir. En ég get ekki skrifað undir það. þjóðin getur breytt um þm., en það nær engri átt, að nokkur þm. greiði atkv. gegn hví, sem hann heldur, að sé bezt fyrir þjóðina. Þó má mikið bæta hér úr, ef sett eru nauðsynleg varúðarakvæði.

Ég er því þessu frv. mótfallinn, fyrst og fremst af því, að það tefur þingið að ástæðulausu, og í öðru lagi vegna þess, að skylt er að setja tryggingarákvæði, sem m. a. tryggi rétt þeirra, sem vilja vera á vínsins.

Mun ég hví hiklaust greiða atkv. á móti þessu, en hinsvegar get ég verið því fylgjandi, að stj. sé falið að undirbúa málið til næsta þings.