21.11.1933
Neðri deild: 15. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 121 í B-deild Alþingistíðinda. (144)

2. mál, kosningar til Alþingis

Halldór Stefánsson:

Mér kom það ekkert á óvart, þó að hv. stjskrn. gæti ekki fallizt á allar mínar till. til breyt. á frv. Hún hefir þó tekið vel í nokkrar þeirra og aðhyllzt þær. Yfir höfuð má segja, að n. hafi tekið sanngjarnlega í þær, þótt hún hinsvegar hafi ekki fallizt á þær allar.

Ég ætla að víkja stuttlega að þeim ástæðum, sem færðar hafa verið fram á móti till. mínum, þeim, sem teljast mega um efni frv.

Hv. n. gat ekki fallizt á þá till. mína, að hreppsnefnd þurfi ekki að leita samþykkis yfirkjörstjórna til þess að skipta hreppum í kjördeildir, né heldur til þess að samþ. kröfu 20 manna um slíkt. Það er augljóst mál, að það er fyrst og fremst mál hreppanna sjálfra, fremur en yfirkjörstjórnar, hvort þessi skipting er gerð eða ekki. Það er hreppurinn, sem ber allan kostnaðinn af því og fyrirhöfnina. og algerlega óréttmætt að gera hann ómyndugan um ákvörðun um slíkt, og ætti yfirkjörstjórn því ekkert að hafa um það að segja. Hv. 1. þm. S.-M. talaði um, að ágreiningur gæti orðið um þetta innanhrepps. Ég held, að hræðsla við slíkt sé ekki á miklum rökum byggð. Því aðeins kemur fram krafa um skiptingu í kjördeildir, að ástæður séu til þess fyrir hendi. Og sé það ekki ágreiningslaust, þá ræður meiri hl. eins og venja er til. Ég held, að ekkert sérstakt liggi til grundvallar fyrir ákvæðinu um þetta málskot til yfirkjörstjórnar, nema leifar af gömlum undirlægjuhætti við yfirvöld og trúin á einskisverða skriffinnsku.

Ég vil nú gera þá fyrirspurn til hv. 1. þm. S.-M., hvort eigi að ráða meiru, ef annaðhvort 20 kjósendur, sem búsettir eru innan sama hreppshluta, eða viðkomandi sveitarstjórn eða bæjarstjórn óska að fá hreppi skipt í kjördeildir, — ég vil spyrja hv. þm., hvor eigi þá að ráða meiru, yfirkjörstjórn eða sveitarstjórn og kjósendur sjálfir. Ég álít, að fullveldið í þessu efni eigi að vera í þeirra höndum, sem þetta kemur beint við, en ekki þeirra, sem það kemur ekkert við og á ekki að koma það við.

Till. mínum um, að ekki þurfi stimpil flokksstjórnar á frambjóðanda, hafa ekki að öllu leyti mætt óvinsamlegum undirtektum, hvorki hjá n., þótt hún hafi ekki fallizt á þær, né heldur hjá þm. þeim, sem hafa á þær minnzt. N. hefir sjálf, eða menn úr henni, borið fram till. sem einskonar miðlunartill. um þetta atriði, þótt hún að mínu áliti hafi þar gengið of skammt. Og á þskj. 86 hefir verið borin fram brtt., sem að efni gengur mjög í sömu átt, svo að ég skil það, þótt n. fallist ekki á till. þessa, eins og hún liggur fyrir. Þó er nokkur bilbugur á áliti hennar um réttmæti þessara ákvæða, og tel ég það vel farið. Ef mín till. um þetta verður felld, mun ég snúa mínu atkv.till. á þskj. 86.

Þá kem ég að 11. brtt. minni, við 28. gr. frv., um jafnrétti þeirra kjósenda og frambjóðenda, sem ekki tilheyra neinum viðurkenndum eða nafngreindum stjórnmálafl., við þá kjósendur og frambjóðendur, sem tilheyra slíkum flokkum. Hv. frsm. n. tvímenna nú á móti þessari till. minni. Hvorugur þeirra hefir, að því er virðist, nægilega næma réttlætistilfinningu til þess að fallast á, að réttur kjósenda og frambjóðenda í landinu sé einn og hinn sami. Hv. 1. þm. S.-M. leit svo á, að það væri ekki neina réttmætt straff á þá menn, sem ekki vildu ganga undir flokksmarkið, að þeir hefðu að þessu leyti minni réttindi en aðrir kjósendur, og í öðru lagi, að þessi till. kæmi í bága við anda stjskrfrv. Og víst er það andi þess frv., að setja flokkshyggju og flokkshagsmuni yfir þjóðarhagsmuni og þjóðarheill.

Loks færðu þessir hv. þm. fram þá ástæðu, að þessir utanflokkamenn ættu ekkert sameiginlegt og væru svo ósamstæðir, að þeir gætu ekki komið til greina við úthlutun uppbótarsæta. Og í sama strenginn tóku bæði hæstv. dómsmrh. og hv. þm. Snæf. Hv. þm. Snæf. hafði auðvirðileg orð um þá kjósendur, sem hefðu slíka aðstöðu. Hann líkti þeim við einskonar ruslakistu og sagði, að í þeim flokki gætu verið bæði kommúnistar og sterkíhaldssamir bændur. Ég hélt nú, að varla þyrfti að gera ráð fyrir því, að slíkir menn yrðu óflokksháðir. Kommúnistar kunna vel að skipa sér í flokk, og íhaldssömustu bændur mundu vitanlega lenda í íhaldssömustu deild Sjálfstfl., nazistadeildinni. Þessir flokkar báðir eiga það sameiginlegt að setja flokkshagsmunina ofar heill þjóðarinnar. En í viðjar flokksbandanna er nú, mér liggur við að segja á þessum síðustu og verstu tímum, verið að reyra landslýðinn. Brtt. mín er byggð á þeirri skoðun, að ekki beri að setja flokksræðið fram fyrir lýðræðið. Einmitt þau mein, sem mest þjaka ýmsum löndum nú. eru sprottin af því, hversu flokkshyggjan hefir komizt á hátt stig. Hún hefir yfirboðið lýðræðið og endað í einræði í ýmsum löndum. Ef vér göngum inn á sömu braut, mun það leiða til hins sama: einræðis í einhverri mynd. Hve fljótt það verður, er ekki unnt að segja. En fyrr eða síðar verður það, ef vér göngum inn á þessa óheillabraut. Hinsvegar má viðurkenna það, að lýðræðið sjálft á nokkurn þátt í þessum óförum. En ég vil þó alvarlega vara við því, að gengið sé á móti því fagnandi og gleypandi, sem brýtur niður þjóðræði landanna. Ef hér fer líkt og annarsstaðar, þá má búast við því, að þingræðið verði sinn eiginn böðull. En fyrir því vildi ég tefja og við því vara að ganga svo mjög fagnandi á móti því eins og nú er gert.

Þá treystir n. sér ekki að fallast á 18. brtt. mína, sem er um það, að meta ógilda þá kjörseðla, sem ágallar eru á. Hv. 1. þm. S.-M. vildi halda því fram, að það gæti ekki talizt neitt gáfnapróf, hvort kjörseðill væri rétt eða rangt merktur. Mér finnst það nú t. d. bera vott um litlar gáfur, þegar kross er settur aftan við nafn eða lista, þegar kosningal. segja skýrt til um það, að hann skuli setja framan við. Hv. þm. vildi helzt verja þessa skoðun sína, með því að benda á ritvillu svo sem Halldór (með einu l) fyrir Halldór. Ég á vitanlega ekki við slíkt. Það er ekkert sjálfskaparvíti, eða þarf ekki að vera, þótt menn séu misjafnlega slyngir í réttritun. En það mætti spyrja hv. n., hvort það á að varða ógildingu, ef skrifað er Halldór Jónsson eða Þorláksson í staðinn fyrir Halldór Stefánsson. — Það er álitið, að í einu kjördæmi hafi kjósendur farið nafnavillt nú við síðustu kosningar, þar sem um samnefni eiginnafns var að ræða. Hvernig er hægt að afsaka slíkt? Það er einmitt eðlilegt, að svona lagað gáfnapróf ráði um gildi kjörseðils, og eins það, er ég nefndi áðan, kross aftan í stað framan við nafn. Um stafvillur er öðru máli að gegna, eða rithátt, og mætti setja þetta skýrar fram. ef að öðru leyti væri fallizt á till.

Hv. þm. Snæf. talaði í þessu eða öðru sambandi um pólitíska ofsókn á hendur kjósendum, ef kjördagar væru ákveðnir 2 þar, sem erfitt er um kjörsókn. Ég held, að ástandið um það mundi naumast versna frá því, sem nú er. Sumstaðar er hrein og bein ofsókn á hendur þeim kjósendum, sem ekki vilja kjósa, eða hafa ekki skilyrði til að kjósa rétt. Í kaupstöðunum er þeim nú smalað nauðugum viljugum, eins og sauðum til slátrunar, og ferðalagið í bílum kostað fyrir þá. Það er kannske eðlilegt, að þeim, sem halda uppi slíkri fyrirhöfn, sé sárt um, ef allt erfiðið verður svo til ónýtis fyrir það, að kjósendurnir hafa ekki skilyrði til að kjósa svo formlega rétt sé frá gengið.

Þá kem ég að 115. gr. frv., sem ég hefi lagt til, að felld væri niður, þar sem ég tel, að hún komi í bága við ákvæði í stjskrfrv. því, sem væntanlega verður samþ. bráðlega. Þessu hefir að vísu verið andmælt. Hv. þm. Snæf. hefir komið með hárfínar, júridiskar skýringar, sem er að vonum, þar sem hann er lögfræðingur sjálfur. Einnig hefir hv. 1. þm. S.-M. tekið í sama streng. Ég býst nú við, að erfitt verði að sannfæra þá, sem ekki vilja láta sannfærast — og má að vísu máske með sama rétti snúa þessum orðum yfir á mig. En ég vil þá leggja mál mitt undir dóm þeirra manna, er lesa Alþt. Og þeim til glöggvunar skal ég taka umrædd atriði upp, svo þau standi hlið við hlið í Alþt. Umrætt ákvæði úr frv. til stjórnarskipunarl. er í 1. gr. c. og hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Heimilt er flokkum að hafa landslista í kjöri við almennar kosningar, enda greiði þá kjósendur atkvæði annaðhvort frambjóðanda í kjördæmi eða landslista“. Lengra er þetta ákvæði nú ekki eða flóknara. Hér er greinilega og ótvírætt fyrirskipað, að ekki megi gera nema eitt af tvennu: kjósa frambjóðendur eða landslista, hreint ekki hvorttveggja. En hvað segir svo 115. gr. kosningal.frv.? Hún hljóðar svo:

„Nú hefir kjósanda orðið það á (honum hefir þó orðið á!) að kjósa bæði frambjóðanda eða frambjóðendur eða lista flokks og jafnframt landslista hins sama flokks, og skal þá að vísu taka seðilinn gildan sem atkvæði greitt frambjóðanda eða frambjóðendum, eða í Reykjavík lista kjördæmisins, en landslistann skal þá telja ókosinn“.

Glöggari andstæður er nú varla hægt að setja fram í máli en hér er gert. Og þótt hv. frsm. komi fram með hárfínar lögskýringar til þess að komast fram hjá ótvíræðum ákvæðum stjskrfrv. og kunni með því að geta sannfært sjálfan sig um réttmæti þessa fráviks, þá getur hann þó aldrei sannfært þá, sem hafa óbrjálaða hugsun og heilbrigða skynsemi, sem ekki er bundin blindri flokkshyggju.