21.11.1933
Neðri deild: 15. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 136 í B-deild Alþingistíðinda. (151)

2. mál, kosningar til Alþingis

Halldór Stefánsson:

Það er aðeins stutt aths. Ég orðaði brtt. mína við 113. gr. á þá leið, að kjörseðla skyldi meta ógilda, ef á þeim væru gallar, sem sýndu, að kjósandinn hefði eigi skilið né getað lært þær einföldu reglur, sem settar eru um kosningarathöfnina. Þetta kallaði hv. 1. þm. S.-M. gáfnapróf, og viðhafði ég svo sama orð í svari mínu. Það notaði hv. þm. til að geta sagt, að það væri ekkert gáfnapróf, hvort kjósandinn hitti á að setja krossinn framan við nafn frambjóðandans eða setti það fyrir aftan: það gæti verið, að kjósandinn þekkti ekki ákvæði laganna um þetta. Ég tel standa alveg á sama, hvort það er fyrir hirðuleysi kjósandans um að kynna sér kosningareglurnar eða fyrir það, að hann geti ekki

lært þær, að kosningin fer öðruvísi úr hendi en vera á, og það eigi engu að varða í þessu sambandi. Þá sagði sami hv. þm., að ósanngjarnt væri að taka ekki gildan atkvæðaseðil, þar sem merkt væri bæði við frambjóðanda og landslista, því landslistinn fengi atkvæðið hvort sem væri. Þarna hefir hv. þm. bara hausavíxl á hlutunum og ályktar út frá því sem enn er óákveðið, sem sé að gölluðu seðlarnir séu fyrirfram teknir gildir. Þeir seðlar, sem gerðir eru ógildir, koma vitanlega hvorki landslista eða frambjóðanda að notum.

Ég ætla ekki að þræta frekar við hv. 1. þm. S.-M. né aðra, sem hafa andmælt mér, heldur vil ég leyfa mér að beina þeirri fyrirspurn til hæstv. forseta, hvort 115. gr. frv., sem ég geri till. um að fella niður, geti komið til atkvæða, hvort ekki verður að vísa henni frá vegna þess, að hún gangi of nærri stjskr. Ef hinsvegar hæstv. forseti ályktar svo, að þar sem stjskrbreyt. er ekki enn gengin í gildi, sé ekki hægt að taka þessa ástæðu til greina, þá vil ég bara spyrja hann um það, ef samþ. verður bæði stjskr. og 115. gr. kosningalagafrv. óbreytt, og ef það yrði nú álitið, að þetta kæmi í bága hvað við annað, hvort ætti þá að gilda, ákvæði stjskr. eða hið gagnstæða ákvæði kosningalaganna.