16.11.1933
Sameinað þing: 3. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 633 í D-deild Alþingistíðinda. (1803)

34. mál, vantraust á dómsmálaráðherra

Magnús Jónsson:

Ég heyrði það á hæstv. forseta, að hann var í þann veginn að stinga upp á, hvernig þessa till. skyldi ræða. Hinsvegar hefi ég lesið það í blöðunum, eins og ég veit, að aðrir hv. þm. hafa líka gert, að hæstv. stj. sé búin að segja af sér. Hefir hæstv. forsrh. sent konungi lausnarbeiðni sína fyrir stj., og ég geri ráð fyrir, að lausnin, sé fengin eða komi bráðlega. Mér finnst það nú stappa nærri því, að hæstv. forseti sé að stofna til skrípaleiks hér á Alþingi, ef fara á að ákveða umr. um till. um vantraust á ráðh., sem þegar er farinn frá. Þótt það sé ekki vani, að þm. blandi sér inn í það, hvernig forseti ákveður umr. um till., heldur gerist þetta venjulega hljóðalaust eftir uppástungu hæstv. forseta, óska ég þess að þessu sinni, að þetta sé borið undir þingheim, svo að ég geti með atkv. mínu haft áhrif í þá átt, að ekki verði farið að ákveða umr. um till. um vantraust á ráðh., sem þegar er farinn frá, og stofna til slíks skrípaleiks hér á Alþingi.