30.11.1933
Efri deild: 23. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 215 í B-deild Alþingistíðinda. (189)

2. mál, kosningar til Alþingis

Jón Jónsson:

Hv. 2. landsk. mælti á móti till. minni. Hann hélt því fram, að með því að gera kröfu til hærri tölu meðmælenda en í frv. er, sé verið að opna einhverjar dyr til kúgunar á kjósendum. Ég get ekki séð réttmæti þessara orða hans. Ef frambjóðendur geta kúgað 50 manns, þá ekki síður 24. Enda þarf þarna engin kúgun að koma til; enda þótt frambjóðendur gætu kúgað einstaka ósjálfstæða menn til þess að skrifa nöfn sín á meðmælendalista, þá er ekki þar með sagt, að kjósandi, þegar hann er orðinn einn í kjörklefa sínum, kjósi samkv. vilja frambjóðandans. En það er á annan hátt, sem verið er að opna leið til slíkrar kúgunar, og það er með því að leyfa kjósanda að setja merki við þann frambjóðanda, sem hann kýs, eða skrifa nafn í stað kross. Með því væri ef til vill hægt að kúga kjósendur.

Þá talaði hv. 2. landsk. um landslistann og mótmælti þeim orðum mínum, að á þinginu í fyrra hefði því verið haldið fram, að breyt. þær, sem ég vildi koma að, ættu heima í kosningal., en ekki í stjskr. sjálfri. Ég skal aðeins vitna í þingtíðindin frá því í fyrra, og vilji hv. þm. fletta þar upp, mun hann sjá, að þessari skoðun var haldið fram af bezta lögfræðingi d. En þá er eftir fyrir hv. 2. landsk. að sýna fram á, að þessu hafi verið mótmælt, og held ég, að það verði honum um megn. Ég man eftir því, að ég varð mjög sleginn af ræðu hv. 2. þm. S.-M., hve hrapallega hann gekk á móti hagsmunum sveitanna. En ég man ekki eftir því, að hann héldi því fram, að þetta atriði mætti ekki ákveða í kosningal. Og ég stend fast við það, að sá skilningur kom fram og virtist almennur, að þetta atriði ætti beinlínis heima í kosningal. Þá var minnzt á það, að þessi till. mín væri brot á samningunum, sem gerðir voru á milli flokka á síðasta þingi um afgreiðslu stjskr.frv. Hæstv. dómsmrh. hefir nú tekið af mér það ómak að sýna fram á, hve mjög þetta er fjarri sanni, og bent á það sláandi dæmi, að báðir samningamennirnir hafa greitt þessum breyt. atkv. sitt í Nd.

Fyrst ég stóð upp, þá vil ég víkja nokkrum orðum að hv. frsm. n. Hann taldi það lítið aðalsmerki á þeim, sem uppbótarþingsæti hlytu, að hafa fallið í kjördæmi. En þótt þeir hafi fallið í kjördæmi, þá er það þó síður en svo, að þeir þar með hafi fengið vantraust yfirlýst af sínum flokksmönnum, heldur þvert á móti. Ég skal taka sem dæmi, að síðastl. vor fékk frambjóðandi Sjálfstfl. í Norður-Ísafjarðarsýslu milli 400 og 500 atkv. Mér þætti mjög sanngjarnt, að slíkur frambjóðandi hlyti uppbótarþingsæti, svo að þessir mörgu kjósendur í Norður-Ísafjarðarsýslu væru látnir njóta réttlætis. Eins og nú er verða atkv. þeirra engum til gagns. Það teldi ég miklu nær en að leggja þessi völd í hendur fámennrar flokksstjórnar í Rvík.

Mér kom það undarlega fyrir sjónir, að hv. frsm. hélt því fram, að fyrirkomulag það, sem ég sting upp á, sé brot á stjskr. Ég fæ ekki betur séð en að með þessu sé hv. þm. að bera það á flokksbróður sinn, hæstv. dómsmrh., að hann sé að fremja stjórnarskrárbrot með því að fylgja þessari till, — og þá þykir mér þó skörin fara að færast upp í bekkinn.

Eina afleiðingin af því að fara mi að breyta frv. er sú, að það hrekst milli d. Þessar brtt. fengu 17 eða 18 atkv. í Nd., og eru allar líkur til þess, að þær verði einnig samþ. í Sþ. En töfin gæti lengt þingið um eina viku og kannske meira.