30.11.1933
Efri deild: 23. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 217 í B-deild Alþingistíðinda. (191)

2. mál, kosningar til Alþingis

Eiríkur Einarsson:

Það er aðeins fátt eitt, sem ég hefi við það að bæta, sem ég áður hefi sagt. Það hefir verið haft við orð hér, að viðvíkjandi veitingu uppbótarsætanna þyrfti að taka tillit til þess, að þau gætu dreifzt sem bezt út um hinar dreifðu byggðir landsins. Þetta verður ekki hægt með öðru en því, að jafnvel sé gætt réttar allra hinna gömlu, dreifðu kjördæma, eins og þau nú eru, án tillits til þess, hvort þau eru einmennings- eða tvímenningskjördæmi, en till. n. brýtur í bág við þetta, svo sem ég hefi áður skýrt. Það er eiginlega tilviljun, að búið skuli vera að skipta Húnavatns- og Ísafjarðarsýslum í tvö einmenningskjördæmi, en Skagafjarðar-, Eyjafjarðar- og Múlasýslur, Árnes- og Rangárvallasýslur enn óskipt tvímenningskjördæmi. Aðalatriðið er það, að tvímenningskjördæmunum sé tryggður sinn réttur til uppbótarþingsæta eins og önnur kjördæmi hafa áunnið með skiptingu sinni. Kosningaaðferðin ætti að vera þannig, að eins og Austur- og Vestur-Húnavatnssýsla geta fengið rétt til tveggja uppbótarþingsæta þm. af sama flokki, þá gæti t. d. Skagafjarðarsýsla einnig fengið það. En nú er þetta ekki hægt samkv. ákvæðum, sem komin eru inn í kosningal.frv., og er því enn brýnni nauðsyn að sjá um, að lengra sé ekki gengið, og á ég þar við, að möguleikinn til eins uppbótarsætis í tvímenningskjördæmi sé ekki skertur. Með till. n. er hann skertur, svo sem óbeint er játað af hv. frsm. hennar, þar sem hann getur um uppbótarmöguleika tvímenningskjördæmis, er hefir fengið mann kosinn. En hvað þá um slíka möguleika, ef enginn hefir náð kosningu? Þar kemur veilan fram, er ég vil með brtt. minni koma í veg fyrir, að verði komið inn í kosningalögin. Annars fannst mér hin hóflátlegu ummæli hv. frsm. gefa bendingu um, að till. mín muni ganga fram, og í trausti þess, að svo muni verða, get ég lokið máli mínu.