27.11.1933
Neðri deild: 20. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 335 í D-deild Alþingistíðinda. (1955)

19. mál, kaup á húsi og lóð góðtemplara í Reykjavík og húsbyggingarstyrkur

Frsm. meiri hl. (Tryggvi Þórhallsson):

Ég þarf ekki að segja nema örfá orð út af brtt. n. á þskj. 125.

Við fyrri umr. þessa máls kom fram sú aths., að ekki væri allskostar rétt að hafa í einu lagi kaupin á húsi og lóð góðtemplara og hitt, hvaða styrk Alþingi vildi veita reglunni til þess að koma upp góðu húsi hér í bænum. Fjvn. hefir fallizt á þetta og ber því nú fram till., þar sem þetta er sundurgreint. Hún leggur til, að húsið og lóðin verði keypt fyrir algengt söluverð hér í bæ, sem er 50% ofar fasteignamati. Húseignin er metin á 50 þús., svo að söluverð yrði 75 þús. kr. Jafnframt leggur n. til, að reglunni verði veittur 75 þús. króna styrkur til húsbyggingar. Það kom greinilega fram við fyrri hluta umr., að menn voru yfirleitt sammála um, að réttmætt væri að styrkja regluna í þessu augnamiði. Sumir vildu aðeins draga þessa styrkveitingu eitthvað á langinn, en ég sé ekki ástæðu til þess, þar sem tímarnir krefjast þess, að hafizt verði meira handa um alla bindindisstarfsemi en áður.

5 af 7 nm. hafa orðið á eitt sáttir um þessa till., og vænti ég þess, að hv. d. veiti henni einnig sitt samþykki.