08.12.1933
Efri deild: 29. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 293 í B-deild Alþingistíðinda. (264)

2. mál, kosningar til Alþingis

Jón Jónsson:

Ég verð að vísu að taka undir það með hv. 3. þm. Reykv., að nokkurt flaustursverk virðist á þessu máli nú í þinglokin; sérstaklega hefir mér ekki fremur en hv. þm. unnizt tími til að bera brtt. saman við frv. Ég fékk að vísu lánað eitt vélritað eintak handa okkur hæstv. forseta, en ég er tæpast við því búinn að ræða um þær. En það var eitt atriði í ræðu hv. frsm. n., 1. landsk., sem ég vil mótmæla, og það kröftuglega. Hann vildi halda því fram, að þrátt fyrir ákvæði kosningalaganna væri flokksstjórnum heimilt að bera fram raðaða lista, og að það væri einungis á valdi landskjörstjórnar að ákveða, hvort slíka lista ætti að taka gilda, og eiginlega að hún væri skyldug til þess. Ég fullyrði, að þetta er rangt. Ef kosningalögin verða staðfest í þeim búningi, sem þau nú eru í, þá á að fara eftir ákvæðum þeirra hvað landslista snertir. Það verður að ganga út frá því, að kosningalögin væru ekki samþ. á Alþingi og síðar staðfest, ef þau kæmu í bága við stjskr., og þess vegna verður tvímælalaust að hlíta úrskurði þeirra, þangað til eða meðan dómstóll hefir ekki úrskurðað, að þau færu í bága við stjskr., en ég er nú ekki svo lögfróður, að ég viti, hvernig það mál á að flytja. Annars býst ég ekki við, að nokkur sé á þessari fráleitu skoðun nema hv. 1. landsk.

Þá vildi ég gera fyrirspurn til n. um eitt atriði í brtt. Það er 2. brtt., við 32. gr., sem segir, að síðasti málsl. fyrri málsgr. gr. eigi að falla burt. Ég fæ ekki séð, að þessi málsl. 32. gr. komi nokkuð við þeim breyt., sem hv. Nd. gerði á frv. Væri gott, ef hv. n. vildi upplýsa þetta. Annars tel ég það nokkurt spursmál, hvort ekki væri ástæða til að fresta fundi til kl. 5. Mér skilst, að ef þetta er allt í lagi, þá muni ekki eftir þann frest taka langan tíma að afgreiða málið. Ég hefi ekki séð fundarboð í Sþ., en að vísu heyrt, að þar eigi að verða fundur kl. 5.