25.11.1933
Neðri deild: 19. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 313 í B-deild Alþingistíðinda. (295)

3. mál, þingsköp Alþingis

Tryggvi Þórhallsson:

Ég hygg, að það hefði verið miklu réttara fyrir allshn. að halda fast við þá ákvörðun, að leggja til, að frv. verði samþ. óbreytt. Þær brtt., sem hér liggja fyrir í frv. á þskj. 48, hafa fengið góðan undirbúning hjá milliþingan. Hún hefir athugað, að þau ákvæði, sem þar eru gerðar brtt. um, komi ekki í bága við annað í þingsköpunum. En nú hafa komið fram margar brtt. við frv., sem ekki hafa verið með sömu nákvæmni athugaðar í sambandi við þingsköpin. Við, sem höfum setið á þingi ár eftir ár í langan tíma, vitum það vel, að það er mjög mikið vandaverk að breyta þingsköpum Alþ. Og mér finnst koma fram sönnun þess í einni brtt. hv. 2. þm. N.-M., að það sé ekki heppilegt að bera fram fljótlega athugaðar till. um breyt. á þeim. í a-lið 2. brtt. hv. þm. standa þessi orð: „nema forseti eða þingdeild hafi tekið gild rök hans“ o. s. frv. Hér er ekki sagt, hvor þessara aðila eigi að ráða úrskurði um það, hvort rök þm. fyrir því að greiða ekki atkv. skuli tekin gild. En ég hygg, að alstaðar í gildandi þingsköpum sé það skýrt tekið fram, hver eigi að ráða þessu. Bendi ég á þetta sem dæmi þess, hve það er mikið vandaverk að hlaupa í að breyta þingsköpum Alþ. án þess að hafa nægilegan tíma til þess að athuga það, hvort breyt. rekast ekki á önnur ákvæði þingskapanna.

Þess vil ég ennfremur geta, að komið hefir fram frá n. brtt. um mál, sem verið hefir áður deilumál hér á Alþ., sem sé það, hvort ætti að hafa ræðustóla í þingsölunum. Till. um þetta lá fyrir Alþ. fyrir nokkrum árum. Þá lá einnig fyrir teikning af ræðustólnum. Mér varð það strax ljóst, þegar ég sá þessa teikningu, að það mundi vera alger skemmd á þessum sal, ef gengið væri frá því verki eins og á teikningunni var gert ráð fyrir.

Það, sem fram var borið viðvíkjandi þessu atriði, að of þröngt kunni að verða í þingsölum til þess að þm. geti talað úr sætum sínum, eru vitanlega engin rök, því að menn þurfa ekki meira pláss til að standa en að sitja. Þetta á jafnt við í báðum d.

Ég vildi óska þess, að n. fengi að sjá þessa teikningu, sem ég minntist á, og þá hygg ég, að hv. nm. mundu líka sannfærast um hið sama og ég í þessu efni. Ég vil því halda fast við þá till. allshn., sem hún upphaflega bar fram, að frv. verði samþ. óbreytt.