23.11.1933
Neðri deild: 17. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 374 í B-deild Alþingistíðinda. (456)

65. mál, fiskiveiðasamþykktir og lendingarsjóðir

Flm. (Pétur Ottesen):

Ástæðan til þess, að við hv. 1. þm. Reykv. flytjum þetta frv., er sú, að okkur þykir nauðsynlegt, að á þeim veiðistöðvum við Faxaflóa, þar sem fiskiveiðar eru stundaðar að vetrarlagi, sé svo um búið, að hægt sé að koma á samþykktum um það, að róa allir á sama tíma. Koma bátarnir þá allir á miðin á svipuðum tíma, og getur það hindrað, að hver leggi lóðir ofan í annan, en það veldur spellum miklum og tapi á veiðarfærum. Felst líka í þessu meiri trygging fyrir fiskimenn, er þeir sjá hver til annars og eiga hægra um að veita aðstoð þeim, er með þurfa. Í 1. frá 1917 eru heimildir fyrir því, að slíkar samþykktir séu gerðar fyrir hverja veiðistöð, en sýslunefndir einar hafa heimildir til að gera slíkar samþykktir, og getur oft verið erfiðleikum bundið að ná saman sýslunefndarfundi, ef gera þarf þesskonar samþykktir eða breyt. á þeim. Því fer frv. fram á, að hreppsnefndir geti gert bráðabirgðasamþykktir, sem síðan verði að lúta úrskurði sýslunefnda.

Annað atriði, sem taka ber tillit til, er það, að í Rvík rís nú upp vélbátaútgerð, og hefir verið mikið gert við höfnina hér í því skyni að bæta aðstöðu þessarar útgerðar. Er það því ekki síður hagur þeirra, er héðan róa, að slík samþykkt verði gerð, því að þeir sækja á sömu mið og menn úr verstöðvum þeim, er búast má við, að þessa samþykkt geri með sér.

Í 1. frá 1917 um fiskiveiðasamþykktir og lendingarsjóði er ekki nein heimild fyrir Rvík til að gera slíka samþykkt, og því höfum við tekið upp í þetta frv. heimild fyrir Rvíkurbæ til að gera slíka samþykkt. Nú er reyndar orðið áliðið þings, en þar sem þetta mál er mjög aðkallandi, svo að að haldi komi fyrir næstu vertíð, sem hefst um áramótin, vil ég mælast til þess við hv. d., að hún lofi málinu að ganga fram án þess að vísa því til nefndar. Frv. fellur beint inn í l., og höfum við notið í því efni leiðbeiningar skrifstofustjóra Alþingis, sem slíkum hlutum er kunnugur og hefir glöggt auga fyrir öllu hér að lútandi. Frá formshliðinni er því ekkert við frv. að athuga. En ef hv. d. kýs heldur að láta málið fara til sjútvn., þá mun ég ekki leggjast gegn því. Mun ég enga till. gera um það atriði.