25.11.1933
Neðri deild: 19. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 522 í B-deild Alþingistíðinda. (804)

70. mál, dráttarbraut í Reykjavík

Héðinn Valdimarsson:

Það er svo með þetta félag, að það virðist ætla að taka höndina alla, ef því er réttur einn fingur. Ég sé ekki, að það sé nein skuldbinding fyrir ríkissjóð að ganga í þessa ábyrgð, þó að hann hafi í upphafi ábyrgzt fjárhæð fyrir félagið. Hvað sem fyrri þing hafa gert hér að lútandi, er það engin skuldbinding fyrir þetta þing að gera það sama, þar sem það saman stendur af allt öðrum þm.

Það mun vera rétt, að eignirnar eru metnar 200 þús. kr. meiri en skuldir, en öllum er kunnugt um, að eignirnar voru ákaflega hátt metnar í sambandi við þau eigendaskipti, sem þar urðu á. En það hefir sýnt sig, að reksturinn ber sig ekki, og margir hafa komizt að raun um, að bezt sé að fara aðra leið í þessum málum. (ÓTh: Hverjir hafa komizt að raun um það?). Það eru margir menn, sem ég hefi talað við. Það, sem þingið gerði í upphafi, var aðeins að hjálpa til við tilraun, og ég álít, að hún hafi ekki sýnt sig svo, að þinginu beri að halda áfram á þeirri braut.