28.11.1933
Neðri deild: 21. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 525 í B-deild Alþingistíðinda. (812)

70. mál, dráttarbraut í Reykjavík

Eysteinn Jónsson:

Ég hefi leyft mér að flytja við þetta mál brtt. á þskj. 200, vegna þess, að eftir að 2. umr. var um garð gengin varð ég þess var af viðtali við kunnuga menn, viðskiptamenn Slippsins, að skipaeigendum væri ekki heimilt að ráðstafa eftir eigin vild vinnu og aðgerðum við skipin. En það er vitanlega hættulegt, að ríkið stuðli að nokkurri einokun á vinnu eða slíku, með því að ganga frá frv. eins og það er nú. En ég sé nú, að till. mín miðar í sömu átt og till. hv. 2. þm. Reykv., og gæti náttúrlega komið til mála, að önnurhvor væri tekin aftur. Fjárhagsleg áhætta ríkisins á að vera sem minnst, og fyrirtæki, sem ríkið styður, eiga fyrst og fremst að vera rekin með hagsmuni viðskiptamanna fyrir augum; þess vegna er ekki rétt, að önnur fyrirtæki verði slíks styrks aðnjótandi en samvinnufélög. Hlutverk dráttarbrautarinnar á ekki að vera annað en það, að draga skipin á land. Síðan á að bjóða út vinnuna við þau, og þar er dráttarbrautinni vitanlega hægt að gera tilboð, en hlutaðeigendur nota sér hagkvæmasta tilboðið. Til þess að þetta fyrirkomulag verði viðhaft eru till. okkar hv. 2. þm. Reykv. fram komnar.