20.11.1934
Neðri deild: 41. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 835 í B-deild Alþingistíðinda. (1033)

22. mál, verkamannabústaðir

Ásgeir Ásgeirsson:

Það var beint hér til mín fyrirspurn viðvíkjandi þeim fánum, sem dregnir hafa verið upp við reisugildi verkamannabústaðanna nýverið. Ég get ekki tekið það sem neina sönnun fyrir því, að félagið sé pólitískt, þó að einhverjir tilteknir fánar hafi verið dregnir upp við þetta reisugildi. Mér virðist það eðlilegast, að tekið sé tillit til þeirra verkamanna, sem byggt hefir verið fyrir, um það, með hvaða fánum skuli flagga, og þá fyrst, þegar verkamanni, sem á part af byggingunni, er neitað um að draga sérstakan fána upp, sem hann óskar eftir að flagga með við hátíðleg tækifæri, teldi ég um pólitíska misbeitingu að ræða. Ef verkamenn vilja flagga með rauðum flöggum með þremur örvum, þá sé ég ekki ástæðu fyrir stjórn fyrirtækisins að neita þeim um það, en hinsvegar þætti mér bezt við eiga, að allir flögguðu með íslenzka fánanum og að hann yrði meira notaður en nú er.

Mín afstaða til þessa máls er ákveðin af því, að ég er sannfærður um, að núv. byggingarfélag fyrir Reykjavík er ekki pólitískt. Og það hafa engar sannanir komið fram frá því að þetta mál var síðast rætt hér í d., sem benda til annars. Þar sem ég veit, að félagið er ópólitískt og að öllum er heimilt að ganga í það, sem þess óska, og félagið ræður sjálft, hvaða stjórn það kýs, þá get ég ekki tekið tillit til þeirra manna, sem ekki vilja vera í byggingarfélagi, þar sem hv. 2. þm. Reykv. er formaður. Við þessa menn vildi ég segja, að það er einmitt þessum þm. mest að þakka allra einstakra manna, að þið eigið kost á að byggja bústaði sem þessa. Á undanförnum þingum hafa jafnaðarmenn haft forustu um það, að fá þessa hjálp úr ríkissjóði og bæjarsjóðum, og afleiðingin af því er svo sú, að það ber mest á þeim í stjórn félagsskaparins, a. m. k. í upphafi, meira en þeim, sem hafa veitt málinu andstöðu. Þegar frá liður breytist þetta, og hv. 2. þm. Reykv. hefir ekki neinn sérstakan rétt til þess að vera alltaf formaður félagsins. Það fer eingöngu eftir vilja félagsmanna. Það jafnrétti, sem félagsmenn hafa á þann hátt, nægir mér hvað þetta snertir og mín afstaða er óbreytt frá því, sem verið hefir.