20.11.1934
Neðri deild: 41. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 844 í B-deild Alþingistíðinda. (1043)

22. mál, verkamannabústaðir

Jón Pálmason [óyfirl.]:

Hv. 9. landsk. gaf mér tilefni til að segja nokkur orð. Hann talaði mjög hógværlega, og ég mun leitast við að svara í sama tón. Hann byrjaði ræðu sína með því að tala um ýmsar tegundir frelsis, sem betra væri að hafa ekki. Ég held, að ef um mannlegt frelsi er að ræða, sé ekkert til, sem ekki er betra að hafa heldur en bundnar hendur. Það er rétt, að til er frelsi, sem ekki kemur mönnum að gagni, atvinnulausum manni er ekki gagn að atvinnufrelsi, og ekki bóndanum, sem ekki hefir ofan í sig eða sína. Hv. þm. sagði í sambandi við þetta mál, að hér væri ekki um að ræða neina afarkosti, heldur hjálp til manna, sem fengju lán eða styrk til að byggja yfir sig. En nú er þess að gæta, að hjálpin, er einstaklingar njóta, er ekki veitt á réttan hátt, ef takmarkið er um leið pólitískt frelsi manna eða athafnafrelsi. Það hefir komið í ljós og látið meira á sér bera á þessu þingi en nokkru sinni fyrr, að gengið er inn á þá braut að nota ríkisvaldið til að kúga menn inn á aðrar brautir en þeim eru geðfelldar. Það er vitaður hlutur, að hér eru boðin glæsileg kjör, sem eðlilegt er að sem flestir vilji verða aðnjótandi, en ég dæmi það hart, þegar sú leið er farin að ætla um leið og menn geta notið glæsilegra kjara að kúga þá undir vissa pólitíska stofnun. Þetta er of langt gengið og er álíka óeðlilegt og þegar í sambandi við kjötlögin var bannað að stofna ný samvinnufélög nema með leyfi verðlagsnefndar. Eitt dæmið enn er um vinnumiðlunina; þar er líka gengið of langt, þegar ríkisvaldið ætlar að koma í veg fyrir, að menn fái að njóta frelsisins. Þessi stefna lætur ákaflega mikið á sér bera hjá skoðanabræðrum hv. 9. landsk. og samstarfsmönnum þeirra hér á þinginu. Það er auðséð, að nota á út í yztu æsar þá hjálp, sem ríkið býður bágstöddum einstaklingum eða stéttum til pólitískrar kúgunar, sem er mörgum að eðlilegum hætti ógeðfellt. Það lýsir sér því fullur hugur þessara flokka til félagslegrar kúgunar og að binda alla sem fastast í félagslegum skorðum á næstu tímum. Ég fel þetta ákaflega hættulegt fyrirbrigði eins og nú standa sakir.