31.10.1934
Neðri deild: 24. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 956 í B-deild Alþingistíðinda. (1187)

26. mál, vinnumiðlun

Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson) [óyfirl.]:

Ég skal ekki ræða hér um innræti Sjálfstæðisflokksins eða líkurnar fyrir því, að hann nái meiri hl. við næstu almennar þingkosningar, því það kemur málinu ekki við. Hv. þm. Snæf. sagði, að ég hefði hraðlesið brtt. hans og hv. 8. landsk. En ég býst við, að þetta eigi betur við hann sjálfan. Hann sagði, að með brtt. á þskj. 222 væri ætlazt til þess, að vinnumiðlunarskrifstofa ríkisins úthlutaði þeirri vinnu, sem ríkið leggur fram styrk til. En þetta er rangt. Í till. stendur, að vinnumiðlunarskrifstofa ríkisins eigi að gera till. til ráðningaskrifstofu kaupstaðanna um fyrirkomulagið á úthlutun atvinnubótavinnu þeirrar, sem ríkið leggur fé til. Hennar vald er aðeins að gera till. Það dugir ekki að vefja þetta í málskrúði, því þetta er greinilega orðað í brtt., og án efa gert með fullri athugun.

Ég vil benda á, að í 7. gr. brtt. 3. tölul. segir „að ráðningarskrifstofur kaupstaðanna eigi að sjá um úthlutun þeirrar vinnu, sem kostuð er af bæjarsjóðum, svo og annari vinnu, sem þeim kann að vera falið að úthluta sbr. 2. gr., 1. tölul.“. Og þ. á m. er sú vinna, sem vinnumiðlunarskrifstofa ríkisins gerir till. um. En því fer fjarri, að ráðningarskrifstofum kaupstaðanna sé skylt að fara eftir þeim till. Eins og ég sagði áður, þá er alveg óþarft að hafa tvo aðila.

Hv. 8. landsk. vék að því, að þetta væri ekki kostnaðarauki. En það er misskilningur hjá honum, ef hann heldur, að tvær skrifstofur kosti ekki meira en ein. Það þarf þá bæði meira starfsfólk og meira húsnæði, svo að kostnaðurinn hlýtur að verða meiri. En þetta er auðvitað ekki aðalatriðið, heldur hitt, að það eru engar líkur til þess, að tvær skrifstofur geri meira gagn heldur en ein. Að með frv. sé framið lýðræðisbrot, hefir verið marghrakið, og ég nenni því ekki að endurtaka það hér. Ég þarf svo ekki að taka fleira fram í sambandi við þetta mál.