15.10.1934
Neðri deild: 10. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1113 í B-deild Alþingistíðinda. (1475)

35. mál, Kreppulánasjóður

Jón Pálmason:

Eins og hv. frsm. gat um, hefi ég og tveir aðrir nm. skrifað undir nál. með fyrirvara. Sá fyrirvari tekur ekki til þess, eins og frsm. gat um, að við séum mótfallnir þessu máli, því að n. er sammála um, að þessi breyt. sé til bóta, þegar tekið er tillit til þeirra lánskjara, sem hér um ræðir. Hinsvegar álítum við, þessir þrír nm., sem erum meiri hl. n., að það hafi verið með öllu óþarft að gefa út bráðabirgðal. um þetta efni. Þau eru undirskrifuð 14. ág., en Alþ. átti að koma saman 1. okt., og við teljum, að í þeim efnum, þegar ekki beri nauðsyn til að gefa út bráðabirgðal., þá sé verið að óvirða Alþ. með því að gera slíkt rétt áður en það kemur saman. Í þessu tilfelli má athuga það, að einmitt sú stofnun, sem þetta frv. nær til, hefir að mjög miklu leyti frestað sinni starfsemi frá því í ág. og til septemberloka, og þess vegna hefir útgáfa þessara bráðabirgðal. ekki komið að miklu haldi.

Ég vildi aðeins taka þetta fram til þess að skýra í hverju það liggur, að ég sem nm. hefi skrifað undir nál. með fyrirvara.