13.11.1934
Efri deild: 37. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1495 í B-deild Alþingistíðinda. (1581)

31. mál, sala mjólkur og rjóma

Magnús Jónsson [óyfirl.]:

Ég þykist sjá æðimiklar fylkingar síga hér saman í þessu máli, og má gera ráð fyrir vopnagný miklum. En ég leyfði mér, þegar málið hafði verið til 1. umr., að bera fram nokkrar brtt. við það, og ég hefi í hvorugu nál. né heldur í framsöguræðum meiri hl. og minni hl. orðið var við, að vikið hafi verið að þeim einu orði. Þessar brtt. eru þó allvíðtækar, og ég þykist vita, að það, hvað lítill gaumur þeim er gefinn, stafi af því, að n.hlutarnir þykist hafa æðimiklu liði á að skipa hér til þess að brjóta till. mínar niður. En það stendur nú svo á, að bak við þessar till. standa þeir, sem þetta mál á algerlega að lifa á, allur þorri manna hér í Rvík. Mér er sagt, að hér standi allmiklar deilur um það yfir eitthvað 1/3 af landinu, hverjir skuli fá að eta upp þetta hræ, sem kallað er Rvík. Þeir austanfjalls vilja útiloka Borgfirðinga með því að skapa þar sérstakt verðjöfnunarsvæði utan um Borgarnes, en Borgfirðingar standa þar á móti. Þannig berst nærri þriðjungur landsmanna um Rvíkurmarkaðinn, en hvað Reykvíkingar segja sjálfir, það halda hv. þm. að geri ekkert til né frá. Það þarf ekki einu sinni að víkja í nál.till., sem fara fram á að spara mjólkurframleiðendum innan lögsagnarumdæmis Rvíkur um 200 þús. kr. án þess að gera öðrum hlutaðeigendum nokkurn skaða. Það er nú samt svo, að til þess að framleiða þessu mjólk hafa verið ræktaðir 500 ha. af landi, sem sumt var mjög erfitt til ræktunar og allt mjög kostnaðarsamt. Á þessu landi hafa verið byggð býli og útihús og í það lögð hundruð þúsunda kr. Þetta eru svo mikil verðmæti, að Reykvíkingar láta ekki þegjandi leggja þau í rústir, það mega hv. þm. vita, hvað svo sem þeir skikka og skipa hér á hinu háa Alþingi. En það er bersýnilegt, að með miklum hluta þessu frv. er stefnt að því einu að drepa niður þennan búskap Reykvíkinga. Og það er gert af því það er talin ósvífni, ef Reykvíkingar reyna sjálfir að framleiða sínar neyzluvörur; þeir mega ekki framfylgja þeirri stefnu, sem annars er alstaðar ráðandi í heiminum, að búa sem mest að sínu, vegna þess að það kynni að svipta einhverja hér í kring atvinnu, sem hafa ætlað sér að lifa á Reykjavíkurmarkaðinum. Hv. þm. geta vel reynt, hvernig þetta gengur, en þeir mega vita það, að slík verðmæti, sem hér er um að ræða, verða aldrei eyðilögð; það verður engum látið haldast uppi. Í brtt. mínum felast tvær breyt., sem farið er fram á að gera á frv., og ég skal taka það fram strax, að ég geri mikinn mun á því, hvað mikla áherzlu ég legg á, að þær nái fram að ganga. — Fyrri breyt. er við 2. gr. og fer fram á, að Reykvíkingar séu yfir leitt undanþegnir verðjöfnunargjaldi. Mér finnst í sjálfu sér eðlilegt að líta svo á, að þegar talað er um Rvíkurmarkað í þessu sambandi, þá sé átt við markað fyrir aðflutta mjólk og það sé aðeins hann, sem þingið hefir leyfi til að skipta sér af. Það, sem framleitt er innan bæjarins, á að vera undanskilið. En ég get þó sagt það, að þótt mjólkurframleiðendur hér ættu að greiða verðjöfnunargjald af þeirri mjólk, sem ekki er sannanlegu framleidd af heyi af ræktuðu landi innan lögsagnarumdæmisins, þá væri sá skattur ekki svo mjög tilfinnanlegur, eitthvað um 20 þús. kr. Það má þó færa þessum skatti það til málsbóta, að hann á að nota til þess að rétta þeim hjálparhönd, sem eiga við erfiðleika vegna skipulagsins að búa, en ekki að henda honum í sjóinn. Þessar ráðstafanir verða vafalaust til þess, að minna berst á markaðinn af mjólk, og er því engin fjarstæða að láta mjólkurframleiðendur í Rvík greiða nokkurn verðjöfnunarskatt, — mér finnst það bara ósanngjarnt. Ég hefi flutt brtt. um þetta efni; hún er við 2. gr. og fer fram á, að orðin „á ræktuðu landi“, í 1. málsl. síðari málsgr. falli niður, — og með b-1ið þessarar sömu brtt., sem líka var við 2. gr., verður síðari málsl. þessarar gr. svo hljóðandi:

„Undanþegin verðjöfnunargjaldi er mjólk, sem framleidd er innan sama kaupstaðar og kauptúns, sem hún er seld i, enda sé mjólkin seld til neytenda milliliðalaust“.

Það er að segja, að þeir, sem framleiða mjólk innan lögsagnarumdæmis kaupstaðarins, skuli sitja að markaðinum þar, óhindraðir af löggjöfinni. Þetta er ekki nema fyllsta sanngirni. Ég legg þó ekki eins mikla áherzlu á þessar brtt og síðari brtt. mínar.

Þá eru brtt. við á. gr. Í þeim fer ég fram á leyfi fyrir mjólkurframleiðendur innan lögsagnarumdæmis kaupstaðarins til að selja mjólk sína milliliðalaust og undanþiggja hana gerilsneyðingarskyldunni. Nú mæla l. svo fyrir, að þessari mjólk skuli blandað saman við aðkomumjólkina, og allt selt í gegnum eina sölumiðstöð. Þarna er verið að leggja á þessa mjólk, engum til hagsbóta, stóra gjaldaliði. Í stað þess að selja mjólkina nýja og ferska á nú að glundra henni saman við gamla mjólk, og í stað þess að selja hana beint til neytendanna, er nú lögboðinn dýr milliliður. Þessir aukaskattar nema hátt á annað hundr. þús. kr. á mjólkurframleiðendur í Rvík einni, og af honum hefir enginn lifandi maður það minnsta gagn, nema þá óbeinlínis þannig, að tilgangurinn væri sá, að drepa þennan búskap alveg niður. Ég talaði nokkuð um það við 1. umr., að ég sæi ekki ástæðu til að rengja þann sannfæringartón, sem heyrðist úr stjórnarstólunum um framgang þessa ákvæðis. Ég veit það, ef stjórnarliðið heldur saman, getur það kveðið upp þennan dauðadóm yfir búskap Reykvíkinga, en þeir hafa ekki séð fyrir endann á afleiðingunum.

Aðrar brtt. mínar eru annaðhvort beint eða óbeint leiðréttingar á frv., vegna þess sem áður hefir verið tekið fram; d-liður II. brtt. gerir ráð fyrir nýrri gr., svo hljóðandi:

„Á ári hverju skal fara fram læknisskoðun á öllum kúm innan kaupstaða og kauptúna, og er óheimilt að selja ógerilsneydda mjólk úr öðrum kúm en þeim, sem eru heilbrigðar. Með reglugerð skal mæla fyrir um hreinlæti og hollustu þeirrar mjólkur, sem seld er beint til neytenda án gerilsneyðingar.“

Þetta stendur í sambandi við undanþágu þessarar mjólkur frá gerilsneyðingarskyldunni, sem kemur af hinum brtt. mínum við 5. gr. — Ég hefi ennfremur lagt til, að 1. málsgr. 3. gr. falli niður. Þar stendur: „Skylt er mjólkurbúum, sem fengið hafa einkaleyfi til þess að starfrækja mjólkurbúðir, að sjá um, að ætíð sé nóg neyzlumjólk til sölu á þeim stöðum“.

Þetta er bara eins og hvert annað raus, og á ekki við, að það standi í l. Hver á að koma fram ábyrgð á hendur mjólkurbúunum í þessu efni? Eiga þau að skapa kýr til þess að hafa nóga mjólk, ef þær, sem fyrir eru, hrökkva ekki til? Nei, þetta er eins og hvert annað hjal. Mér skildist á ræðu hv. frsm. meiri hl. n., að hann vildi skipta mönnum í flokka, eftir því hvað mikinn rétt þeir ættu að hafa í þessu máli, og væru Reykvíkingar í þeim flokknum, sem minnstan réttinn hefðu. Það skín í gegnum fjandskapinn til búskapar Reykvíkinga, og tilætlunin sú, að neyða mjólkurframleiðendurna í lögsagnarumdæminu til þess að hætta. Það á að stuðla að því, að þessi lönd, sem nú er búið að rækta upp með miklum erfiðismunum, verði aftur að grjótholtum og fúamýrum. — Næst réttlægstur var svo Thor Jensen. Hann hefir framið það ógurlega brot að koma upp svo stóru búi, að það framleiðir á við 8o meðalbændur! Hugsa sér allt það atvinnuleysi, sem af því stafar! En heldur hv. frsm., að það auki ekki á atvinnuleysið, ef lagður er í rústir búskapur allra þeirra bænda, sem mjólkurframleiðslu stunda í Reykjavík? — Hv. þm. sagði, að Jón Þorláksson hefði viljað leggja járnbraut austur yfir fjall, til þess að hægara yrði um mjólkurflutninga til Rvíkur. — Þá var engin mjólkurframleiðsla í Rvík eða nágranni hennar. Þá voru sveitirnar fyrir austan með sínum góðu ræktunarskilyrðum það eiginlega uppland Rvíkur með mjólkurframleiðslu og annað. Nú er öllu þessu breytt, samgöngur orðnar góðar með bílum austur yfir fjall og minni þörf á járnbraut. Og í kringum Rvík er búið að rækta svo mikið land, að þar er framleidd allt að því nóg mjólk til að fullnægja þörfum bæjarins. En nú, þegar þetta ágæta uppland er komið kringum Rvík. fer hv. þm. að þykja þörf á járnbraut, sem flytti mjólk austan úr sveitum hingað til bæjarins.

Þetta mál er nú ekki komið lengra en til 2. umr. í fyrri d., og á enn langa leið fyrir höndum til endanlegrar samþ. Og hvernig sem farið verður með þessar brtt. mínar, þykir mér ótrúlegt, að þingið taki á sig þá ábyrgð að samþ. annað eins tilræði við atvinnurekstur bæjarbúa eins og í frv. felst. — Og þó að hv. Alþýðuflokksmenn samþ. þetta til Nd., þá standa þeir sig ekki við að samþ. út úr þinginu svona stórkostlegar álögur á atvinnurekstur Rvíkurbúa, sem engan annan tilgang getur haft en þann, að gefa þessum búskap inn svo stóra pillu, að hann lifi það ekki ef. (JJ: Þeir eru skattfrjálsir). Nei, hv. þm. hefir ekki lesið 1., ef hann heldur, að þessir framleiðendur séu skattfrjálsir. Það er lögð á þá gerilsneyðingarskylda og skylda til þess að selja mjólk sína gegnum sölumiðstöð. Þarna er um 2 millj. lítra af mjólk að ræða, og á hvern lítra leggst 8—9 au. aukakostnaður, og getur þá hv. þm. sjálfur reiknað út, hverjar álögur þetta muni verða. — Ein af röksemdunum fyrir því, að öll mjólk skuli gerilsneydd, er sú að gerilsneyðingin verði miklu ódýrari þegar um svo mikið magn sé að ræða. Nú sem stendur er gerilsneyðingarkostnaðurinn langminnstur á Akureyri, og er þar þó ekki um líkt því eins mikla mjólk að ræða og flutt er til Rvíkur, — svo að sú röksemd virðist ekki hafa við mikið að styðjast. Sýnilegt er, að með góðum aðferðum má færa kostnaðinn af gerilsneyðingu mikið niður, svo að óþarfi er að drepa mjólkurframleiðslu Reykvíkinga þess vegna. — Eins og nú er, vinna þessir menn sjálfir að því að koma mjólkinni til neytenda, en það á nú að fara að kosta 8—9 au. á hvern lítra. Yfirleitt er ábúð á þessum litlu skikum mjög óstöðug, og gengur illa að láta reksturinn borga sig. Þessar nýju álögur yrðu því vafalaust rothöggið á þennan búskap. Hv. frsm. minni hl. talaði um, að sanngirni þyrfti að vera á báða bóga í þessu máli. Ég er honum alveg samdóma um það atriði, og einmitt það eru sterkustu rökin, sem ég hefi með því, að frv. verði samþ. með mínum brtt.