09.10.1934
Efri deild: 6. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1184 í B-deild Alþingistíðinda. (1606)

15. mál, gjaldeyrisverslun o.fl.

Magnús Jónsson:

Ég skal ekki lengja mikið þessar umr. Mér fannst helzt á hæstv. ráðh., svona með leyfi að segja, að hann botnaði heldur lítið í þessu máli öllu saman. Hann var eitthvað að tala um það, að innflutninghöftin væru til þess að jafna kaupgetuna innanlands. Hann sagði, að sumir hefðu hana mikla og vildu kaupa dýra vöru, sem aðrir gætu ekki keypt, en með höftunum væri kaupgetan jöfnuð. En það er viðurkennt, að innflutningshöftin vinna ekki að þessu. Vegna þessara hafta verða menn að vera án vörunnar, eða að kaupa aðra vöru en þeir helzt vildu kaupa. Það er enginn kostur út af fyrir sig. En nú skilst mér, að eigi að snúa málinu við og að menn megi ekki kaupa frá þeim löndum, sem hentugast er að kaupa, heldur bara frá þeim löndum, sem er óhentugra að kaupa. Spánverjar hafa ekki heimtað annað en það, að þær hömlur, sem við setjum á vöruinnflutning, væru ekki látnar gilda gagnvart þeim. Ef innflutningshömlurnar væru ekki, þá mundu þeir ekki gera neinar kröfur um, að við keyptum af þeim, og væri mönnum þá frjálst að kaupa á hentugasta markaði, en hinsvegar er Spánverjum hjálpað mikið til þess að koma sínum vörum út, ef mönnum er bannað að verzla, við aðrar þjóðir.

Ég sé ekki, að það hafist annað upp úr þessu en að menn verði að kaupa vöruna miklu dýrari frá Spáni heldur en ef þeir keyptu hana beint. Segjum t. d., að menn kaupi ameríska bíla, sem settir eru saman í verksmiðjum á Spáni, - mér er sagt, að þeir séu miklu dýrari að fá þá þaðan en ef þeir væru keyptir beint. Það þykir nokkuð harkaleg ráðstöfun að lækna svona mein með gengisfalli, og ég er alveg á móti slíkri ráðstöfun fyrr en boginn brestur og ekki er annað ráð fyrir hendi. Í raun og veru er þetta ekki annað en gengisfall, því að í stað þess, að kaupgetan fái eðlilega framrás, þá verða menn að kaupa vörurnar fyrir hærra verð, og það er í rauninni ekki annað en fall á peningunum.

Mér skildist á hæstv. ráðh., að þegar hann er búinn að gera bölvun með því að hækka vöruverðið, þá ættu menn að ganga í neytendafélög til þess að vernda sig gegn þessari ófreskju, sem hann hefir vakið upp.

Mér þætti gaman að vita, hvað syngi í blöðum þessarar hæstv. stj., ef stofnuð væru neytendafélög hér í Rvík til þess að lækka verð á kjöti og mjólk. Þá held ég, að syngi í tálknunum á hæstv. forsrh., úr því að ekki má einu sinni tala við íþróttamenn um hollustu kjöts án þess að það verði gert að pólitísku númeri hér á hæstv. Alþingi.

Ég held, að það sé ekki vert að vera að burðast með þessi viðskiptahöft, svo ekki þurfi að vera að verjast þeim með svona samtökum. Það er nóg, að það séu viðskiptastríð á milli þjóða, þó að ekki eigi að koma á viðskiptastríði innan okkar litla lands, milli framleiðenda annarsvegar og neytenda hinsvegar.

Ég held það hafi svo ekki verið fleira, sem ég þurfti að athuga við ræðu hæstv. ráðh. Ég vildi aðeins, að þetta frv. færi ekki til 2. umr. öðru vísi en ég lýsti minni óbreyttu skoðun á innflutningshöftum. - Ég tel líklegt að þetta mál fari til fjhn., og hefi ég þá tækifæri til að segja mitt álit á þessu máli, því ég á sæti í þeirri nefnd.