17.11.1934
Efri deild: 41. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1202 í B-deild Alþingistíðinda. (1623)

15. mál, gjaldeyrisverslun o.fl.

Frsm. minni hl. (Magnús Jónsson)[óyfirl.]:

Hæstv. ráðh. kom nú inn á það, sem ég kalla bara „agitation“, en enga skýringu. Hvað því viðvíkur, að ég telji ekkert annað ráð til þess að bæta gjaldeyrisjöfnuðinn en að reka sveltipólitík, þ. e. a. s. að draga úr kaupgetunni, þá er það alveg augljóst, að hann getur ekkert annað gert sjálfur, ekki nokkurn skapaðan hlut. Hann hefir ekki leyfi til þess að hefta innflutning hingað frá öllum löndum. En við skulum segja, að hann hefði leyfi til þess og að við gætum beint kaupgetunni inn á við og aukið hana. Hvaða afleiðingu mundi það hafa? Það mundi bara hækka verð á öllu innanlands að sama skapi, og við yrðum engu nær. Það mundu fleiri krónur ganga manna á milli, og kaupgjald mundi hækka og annað slíkt. Það hefir engin önnur áhrif en þessi, ef settir eru peningar af stað á þennan hátt. Það kemur bara fram í hækkuðu verðlagi innanlands, og engu öðru. Þá álít ég, að það sé miklu heilbrigðara að sjá til þess að kaupgetan minnki innanlands á þann hátt, sem verður landinu að mestu gagni, þ. e. a. s., ef hindra þarf innflutninginn, að gera það þá með hækkuðum tollum á vöruna, svo að minna verði keypt. Það er hægt að draga úr kaupum á erlendum vörum, en ríkissjóður á hinn bóginn fái eins miklar tekjur og áður, og standi sig þá betur við að lækka skuldir utanlands og minnka ósýnilegu greiðslurnar, en vegna þeirra er erfiðast fyrir okkur að hafa greiðslu jöfnuð.

Ég vil svo ítreka spurningu hv. 1. þm. Skagf. Það er fróðlegt að fá að heyra það, hve fljótt hæstv. ráðh. heldur, að hann geti bætt greiðslujöfnuðinn, og þannig ástandið út á víð, með þessum ráðstöfunum.