18.12.1934
Neðri deild: 63. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1658 í B-deild Alþingistíðinda. (1716)

31. mál, sala mjólkur og rjóma

Guðbrandur Ísberg [óyfirl.]:

Það eru aðeins örfá orð. Vil ég þá fyrst víkja að brtt. landbn. á þskj. 881. Það er rétt, að ég tel þær ekki fara eins langt og ég hefði óskað, en tel þær þó til bóta, að einni undantekinni. Það er misskilningur, að ég vilji fallast á a-lið 2. brtt. við 5. gr., að breyta orðunum „heimilt skal þeim“ í „heimilt skal þó mjólkursölunefnd að leyfa þeim“. Þetta hefi ég ekki getað fallizt á. Ég hygg, að í því efni sé mér nægilegt að vísa til orða minna við 2. umr.

Viðvíkjandi brtt. okkar hv. þm. A.-Húnv. á þskj. 871, vil ég segja það, að ég legg megináherzluna á, að tekin sé upp aftur heimild til undanþágu fyrir framleiðendur, sem selja mjólk beint, að draga megi frá 1800 lítra fyrir neyzlumjólk heimilisins. Ég álít þetta svo sjálfsagt, að þó að það verði kannske drepið nú, þá mun ég láta það verða mitt fyrsta verk á næsta þingi að taka þær brtt. upp aftur. Ég skil ekki, hvernig þeim mönnum er farið, sem vilja leyfa mönnum að selja beint, en setja svo ákvæði, sem geri þeim skylt að greiða verðjöfnunargjald af sinni eigi neyzlumjólk, sem allir aðrir sleppa við að greiða. Það er líkast því, eins og sagt er, að ræningjar hafi haft það, að sleppa mönnum úr varðhaldi, láta þá hlaupa nokkurn spöl og skjóta þá svo niður. Það, að segja mönnum, að þeir megi selja beint, en setja svo ákvæði, sem fyrirbyggja það, það er svo fráleitt, að mig furðar á því, að nokkur skynsamur maður skuli geta leyft sér að ganga inn á það. Það hefir verið margtekið fram, að þeir geti farið í samsöluna, en nú er sagt, að þeir megi selja beint, og svo á að taka það af þeim. Mig undraði ekki, þó að þeir, sem vilja samþ. þetta nú, sæju sig fljótt til neydda að leiðrétta þetta.