07.12.1934
Neðri deild: 53. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1207 í B-deild Alþingistíðinda. (1735)

15. mál, gjaldeyrisverslun o.fl.

Frsm. (Ásgeir Ásgeirsson):

Ég leyfi mér að leggja fyrst fram skrifl. brtt. um ákvæði aftan við 3. gr. frv., og er hún svo hljóðandi: „Kostnaður við nefndina greiðist að hálfu úr ríkissjóði og einum fjórða af hvorum bankanna“, - og er það sama fyrirkomulag og verið hefir.

Hv. frsm minni hl. kvaðst ekki vita til, að slík innflutningshöft væru í öðrum löndum. Ég vil upplýsa hann um það, að það er m. a. eitt land, sem hann kannast við, sem hefir sams konar lög, og það er Danmörk. Hann segir, að það hafi allt reynzt rétt, sem hann hafi haldið fram, en það er nú svo, að síðastl. þrjú ár hafa innflutningshöft og gjaldeyrishömlur verið settar í flestum löndum álfunnar. Það er ekki af því, að allar þessar þjóðir vilji búa við höft, heldur hafa þær verið nauðbeygðar til þess. Hann vildi kalla það blekkingu, að það væri nauðsynlegt að safna ekki fyrir skuldum. Ef hér er um blekkingu að ræða, þá er hún komin til mín frá forstjóra stjórnarskrifstofunnar um utanríkismál í London. Hann sagði, að við skyldum óttast það mest, ef söfnuðust fyrir kröfur, sem aðrar þjóðir gengju í að innheimta eftir hinni opinberu leið, en við þyrftum ekki að óttast það, þó við þyrftum að takmarka innflutning. Vitanlega er þessi hætta til, því margir hafa, sem betur fer, það lánstraust, að þeir geta fengið vörur að láni, þó óvíst sé, hvenær greitt verður. Ef þeim er treyst, þá vilja sumir leggja á hættu, hvenær þeir fá gjaldeyrisleyfi, í þeirri von, að það verði þó einhverntíma. Hv. þm. falaði um, að innflutningshöftin sköpuðu þau vandræði, að þá flyttist ekkert inn af sumum vörutegundum, en af öðrum söfnuðust fyrir allt of miklar birgðir. Þetta á kannske við eldra ástandið, þegar innflutningshöftin náðu ekki til nema 10% af vörum þeim, sem fluttust til landsins. Þegar höftin náðu ekki yfir nema svona lítinn hluta, þá hefir það kannske valdið vankvæðum. Nú þarf eftir þessum l. gjaldeyris- og innflutningsleyfi fyrir allar vörur, og má þá fyrirbyggja þessi mistök. Ég gerði um síðustu áramót tilraun til þess að fá bráðabirgðal. með samþykki allra þingflokka um það, að gjaldeyris- og innflutningshöftin næðu til allra vörutegunda, en það mistókst, og þess vegna hafa kannske meiri skuldir safnazt þetta ár en gott er. - Ég sé svo ekki ástæðu til að fara um þetta fleiri orðum. Það eitt, að bankarnir sjá um gjaldeyrisverzlunina og þeir telja þessi l. nauðsynleg, ætti að nægja til að sýna, að það er ekki að ástæðulausu, að þetta frv. er fram komið.