01.11.1934
Neðri deild: 25. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1257 í B-deild Alþingistíðinda. (1839)

5. mál, útflutningsgjald

Guðbrandur Ísberg:

Mér fannst hæstv. fjmrh. hafa misskilið till. mína áðan. Ég legg til, að útflutningsgjaldið af ísl. afurðum verði yfirleitt fært niður úr 1½% í 1%, en auk þess verði greitt ½% af útfluttum sjávarafurðum, sem gangi til strandgæzlu. Þetta er þannig hugsað, að þó útflutningsgjaldið verði fellt niður, þá standi þetta ½% eftir sem áður sem varanlegt gjald og gangi til strandgæzlunnar. Það er því ekki rétt hjá hæstv. fjmrh., að það eigi alltaf að taka 1/3 af útflutningsgjaldinu til strandgæzlunnar, heldur er þessi ½% sérstakur og ákveðinn gjaldliður.

Hv. þm. Mýr. heldur því fram, að hann hafi verið með því í fyrra að fella niður útflutningsgjald af landbúnaðarafurðum. Hv. þm. hefir sýnilega samvizkubit. (BÁ: Þetta er ekki rétt). Hv. þm. er með þessu nú þrátt fyrir það, að ástandið hefir alls ekki breytzt til hins verra fyrir bændur. Þá höfðum við verðið 1932 til að miða við, en nú verðið frá 1933, sem er þó miklu betra. Auk þess er, eins og ég benti á áðan, komið inn á þá braut, að jafna verðið á kjötinu með kjötsölul. Með þessu fæst hækkað verð, vonandi að nokkrum mun, á útflutningskjötinu, og er það tekið af þeim, sem við sjóinn búa og ekki framleiða. Nú þegar tvísýnt er um, hvort atvinnuvegurinn, landbúnaður eða sjávarútvegur, stendur hallara fæti, er erfitt að verja þá ráðstöfun, að samtímis því, sem útflutningsgjaldið er algerlega fellt niður af landbúnaðinum, sé það látið haldast óbreytt á sjávarafurðum, samhliða því, sem þeir menn, er að þeim standa, eru skattlagðir. Þetta ósamræmi finnst mér, að hv. þm. ættu að líta á og athuga betur en gert hefir verið.

Það var virðingarvert, að í ræðu hv. þm. Mýr. kom fram, að hann var til með að láta landbúnaðinn greiða eitthvert gjald, en ekki sem útflutningsgjald, heldur á annan hátt, t. d. af fasteignum. Ég skal ekki segja nema þetta væri hægt, en mér finnst það óþarflega langt sótt og erfitt í vöfum. Ég álít, að það þurfi að stefna að því af afnema allt útflutningsgjald, nema þá til stuðnings innlendum iðnaði.

Hæstv. ráðh. fannst ósamræmi í brtt. frá mér og frv. því, sem ég er meðflm. að. En ég var búinn að bera brtt. fram nokkrum dögum áður en ég vissi um frv. Er nú hvorttveggja, að ég geri mér litlar vonir um, að brtt. mín verði samþ., en nóg ráð til úrbóta, ef svo skyldi fara, og eins hitt, að ekki virðist blása byrlega fyrir frv. um skuldaskilasjóð útgerðarmanna, þar sem mikið er liðið á þing og mörg stór mál fyrr komin fram, en bæði hæstv. stj. og hv. sjútvn., tekið því heldur kuldalega. Ég verð því að halda mér við þessa brtt. að svo komnu, þar til útséð er um, hvort hún verður samþ.

Út af skrifl. brtt. við 2. gr. frv., þá get ég ekki séð neina frambærilega ástæðu fyrir því, að síldarmjöl sé ekki í sama flokki og fiskimjöl og aðrar sjávarafurðir. Það gæti verið nokkur ástæða, ef vinnsla síldarmjölsins væri einhver sérstakur gróðavegur, en svo er ekki. Sá atvinnurekstur mun berjast í bökkum. Þetta horfði nokkuð öðruvísi við, meðan það var að mestu í höndum útlendinga. En nú eru aðeins 2 síldarverksmiðjurnar eign útlendinga, og framleiðsla, þeirra ekki nema lítið brot af heildarframleiðslunni, og vonandi ekki langt þangað til hún færist öll á ísl. hendur. Vona ég að hv. þm. viðurkenni, að stefna beri að því að fella alveg niður útflutningsgjald, ef það er ekki nauðsynlegt til að vernda innlendan iðnað. A. m. k. verður að samræma það.

Ég man ekki hvort ég tók fram, að brtt. okkar fjórmenninganna á þskj. 89 er borin fram einnig vegna sjómanna. Við höfðum þar tvö sjónarmið, að vernda innlendan iðnað, en þrengja þó ekki um of kosti sjómanna.