16.11.1934
Neðri deild: 38. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1336 í B-deild Alþingistíðinda. (1920)

33. mál, skipulagsnefnd atvinnumála

Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson) [óyfirl.]:

Ég verð að segja, að mér finnst meira um stóryrðin en rökin hjá hv. andmælendum þessa frv.

Ég get fullvissað hv. þm. V.-Húnv. um það, að það breytir ekki á nokkurn veg afstöðu íslenzkra bænda til nefndarinnar né heldur því, hvort vel eða illa hefir tekizt skipun manna í n., þó að hann fullyrði og endurtaki oft, að með skipun Steingríms á Hólum sé bændastéttinni íslenzku greitt hnefahögg í andlitið. Ég þekki talsvert til íslenzkra bænda og hygg, að mikill meiri hl. bænda telji Steingrím vel fallinn til þessa starfa.

Út af till. hv. þm. V.-Ísf. og ummælum nokkrum um það, að mér sem atvmrh. hafi illa farizt með því að skipa ekki sjálfstæðismenn í n., þá skal ég lesa þau orð, sem féllu frá mér við 1. umr., þar sem þau hafa verið færð til verri vegar bæði í ræðu og rituðu máli. Með leyfi hæstv. forseta:

„Ef marka má orð hv. þm. Snæf., eru nú einhver veðrabrigði í Sjálfstæðisfl., því að hv. þm. skýrir frá því, eins og ég veik að áður, að Sjálfstæðisfl. vilji gjarnan taka þátt í störfum skipulagsn., og af því, að ég er gæfur og friðsamur maður, vil ég fyrir mitt leyti stuðla að því, að það verði athugað af n. þeirri, sem væntanlega fær þetta mál til meðferðar, hvaða möguleikar eru á, að þetta megi verða. Eins og ég tók fram, hafði ég skilið það svo af ræðum sjálfstæðismanna fyrir kosningarnar og skrifum flokksblaðanna, að Sjálfstfl. vildi ekki taka þátt í þessu starfi, en sé það svo, að flokkurinn óski þess nú, myndi ég fyrir mitt leyti vilja leggja til, að það verði athugað í n., hvort hægt er að ganga til móts við óskir flokksins í þessu efni“.

Annað og meira sagði ég ekki en þetta. En ég skal gera nokkru fyllri grein fyrir, hvers vegna sjálfstæðismenn voru ekki skipaðir í n. þegar í upphafi. Það var af því, að einmitt þetta atriði í 4 ára áætlun flokksins, að skipa n. sérfróðra manna til að gera till. til bóta á skipulagi þjóðarbúsins, sætti mestum mótmælum hjá Sjálfstæðisfl. Blöð hans og ræðumenn á fundum andmæltu þessu ekki eingöngu sem endemis firru, heldur beint sem háska fyrir þjóðina, — líkt og nú, þegar mælskan kemst á hærra stig í ræðum þeirra. Það var því ekki ástæða til að ætla, að sjálfstæðismenn mundu óska eftir neinu samstarfi um það, sem átti að vinna. Eftir að ég sagði þessi orð við 1. umr., hefir engin ósk komið til mín um það, að menn úr Sjálfstæðisfl. yrðu skipaðir í n. Og ég verð að segja, að af þeim umræðum af hálfu sjálfstæðismanna, sem hér hafa farið fram, hefir ekki aukizt trú mín á, að þeir vildu vinnu með hollum huga að lausn þeirra verkefna, sem n. eru ætluð. Ég sé því ekki ástæðu til að greiða till. hv. þm. V.-Ísf. atkv., og ég mun greiða atkv. gegn henni.

Til viðbótar skal ég taka það fram, að eftir því, sem ég þekki bezt til, þá er það alstaðar svo í útlöndum, þar sem n. hafa verið skipaðar til svipaðs verkefnis, að þær eru ekki þingkosnar, heldur beinlínis skipaðar af stjórninni, einmitt til þess að tryggja, að milli slíkra nefnda og þeirrar stjórnar, sem fer með völdin í landinu, geti tekizt sem nánust samvinna. Enda er næsta eðlilegt, að svo hljóti að vera.

Út af ummælum, sem féllu hjá hv. 2. landsk. í sambandi við þann voða, sem hann taldi á ferðum vegna þess, hve sá hópur, sem hann kallaði „harkalið“ háskólans, væri fjölmennur, hefir borizt frá formanni og ritara Félags róttækra háskólastúdenta beiðni um að lesa upp eftirfarandi yfirlýsingu frá þeim:

„Í tilefni af ummælum Magnúsar Torfasonar alþm. á Alþingi í kvöld vill stjórn „Félags róttækra háskólastúdenta“ taka þetta fram: Í Félagi róttækra háskólastúdenta eru menn úr öllum flokkum nema Sjálfstæðisflokknum, og tilgangur félagsins er að berjast gegn fasisma og íhaldi“.

Þessi yfirlýsing frá formanni og ritara þessa félags sýnir a. m. k., að þeir vilja ekki fallast á, að kommúnistar ráði einir saman. En ég ímynda mér, að með „harkaliði“ hafi hann átt við kommúnista og nazista. Get svo látið útrætt um þetta.

Þá verð ég í sambandi við ummæli — eða réttara sagt svigurmæli — hjá hv. þm. Snæf. og hv. 8. landsk. um fjarverandi þm., hv. 2. þm. Reykv., að taka það fram, að þau eru firra ein og fjarstæða. Þeir fullyrtu hér fyrir fjölda áheyrenda, að þessi hv. þm. hefði gengið um og hótað og ógnað öðrum þm. til að greiða atkv. á annan veg en hann hafði ætlað sér. En hvað segir sá, sem á að hafa orðið fyrir þessari árás? Ekki hefir hann verið aðspurður um sannleika málsins. (GÞ: Það heyrðist, hvað þm. sagði). Ég veit ekki, hvað vel þessi hv. þm. kann að leggja við hlustirnar, en þess eru ekki fá dæmi, að honum hefir misheyrzt.

Þá vil ég víkja að bjargráðum Sjálfstæðisfl. sem hv. 8. landsk. drap á. Hann fullvissaði þingheim um, að umhyggja hans fyrir sjávarútveginum væri geysimikil. Nefndi hann tvö mál, sem ég drap á í minni ræðu, frv. um skuldaskilasjóð og frv. um fiskveiðasjóð, og náttúrlega frv. þeirra um fiskiráð. Ég vil þá aðeins endurtaka það, sem ég sagði áðan og hv. þm. bar ekki á móti—, að mjög sorgleg gleymska — að ég noti ekki stærra orð — hefir hent þessa áhugasömu menn, þegar þeir leggja til að gera ráðstafanir, sem kosta ríkið eina milljón kr. á ári, en nefna ekki einu orði, hvaðan tekjur eigi að koma til framkvæmdar þessum ráðstöfunum. Honum láðist að geta þess, hvernig ríkissjóður ætti að fá tekjur til að leggja fram þessa einu milljón. Er ástæða til að ætla, að þarna sé ekki eins mikil umhyggja á ferðum og hv. þm. vill vera láta, sérstaklega þar sem hv. 1. flm. að frv. um skuldaskilasjóð flytur samtímis annað frv., þar sem lagt er til, að sama fé sé ráðstafað á annan hátt. Getur ekki verið um mikla umhyggju að ræða hjá þessum hv. flm. Auðvitað þýðir ekki að flytja frv. um hjálp til handa einni stétt eða annari, ef ekki er um leið sýnt fram á, hvernig fjárins skuli aflað.

Ég skal ekki vera margorður um fiskiráðið. Slík stofnun hefði aldrei haft vald til að gera nokkurt gagn, eins og frv. var. Að tilhlutun minni hefir verið lagt fram annað frv. sama efnis, sem frá mínu sjónarmiði er talsvert betra.

Hv. 8. landsk. sagði, að undanfarið hefði flokkur farið með völd, sem studdur hafi verið af okkur jafnaðarmönnum. Hv. þm. veit, að við höfum aldrei átt mann í stj. fyrr en nú, og að síðan 1931 höfum við verið í beinni andstöðu við stj. Og síðasti atvmrh. var Magnús Guðmundsson, flokksmaður hv. þm., en samflokksmaður hv. þm. V.-Húnv. fór þá með landbúnaðarmál. (GÞ: Ég talaði um árið 1927). Við vorum ekki heldur í stj. þá, þó að við værum hlutlausir gagnvart stj.

Þá er þetta ægilega vald, sem sumir segja, að n. sé fengið í hendur. Þetta vald á að vera svo ægilegt, að menn séu hundeltir sem glæpamenn, ef þeir ekki tjái n. öll sín leyndarmál. Allar þessar ógnir eru tómur hugarburður, sem ég veit, að þessum hv. þm. dettur ekki í hug að trúa sjálfum. Það vald, sem þessari n. á að gefa, er ekki meira en vald það, sem ýmsar n. hafa nú þegar til að krefjast skýrslna o. fl., eins og t. d. skattan. Og hér eiga, eins og þar, að liggja víti við, ef menn gefa ranga skýrslu eða ljúga til. Við nánari athugun sést, að ekki er minnsti voði á ferðum, einkum þegar þess er gætt, að í 2. gr. frv. er það tekið fram, að menn séu bundnir þagnarskyldu, eins og t. d. skattan.menn. N. hefir ekkert framkvæmdarvald. Hún á að koma með till. til lagasetningar, er síðar verða lagðar fyrir Alþ., sem ræður svo úrslitum málanna. Það er því ekki annað en hugarburður, að þótt ákveðinn flokkur eigi ekki menn í n., þá sé honum hætta búin. Ef n. heldur, að einhversstaðar sé úrbótar þörf, þá verða till, hennar athugaðar á þingi af öllum flokkum jafnt.

Hv. 8. landsk. sagði, að ekki stoðaði að neita því, að n. ætti að vinna að þjóðnýtingu. Ég segi fyrir mig, að ég hefi hvorki játað þessu né neitað. Hver n.maður gerir sjálfsagt það, sem hann álítur bezt og réttast. En ég hefi ekki dregið dul á það, að ef ráðstafanir n. eiga að geta ráðið bót á því, sem ábótavant er, þá hljóta þær að beinast í þá átt, að afskipti hins opinbera af öllum atvinnurekstri verði meiri en áður. Hvort menn vilja kalla þetta þjóðnýtingu eða eitthvað annað, liggur mér í léttu rúmi. Ég hefi sýnt fram á það áður, að þjóðnýting er víðtækari en ríkisrekstur og að ríkisrekstur þarf ekki alltaf að heyra undir þjóðnýtingu.