27.10.1934
Neðri deild: 21. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1693 í B-deild Alþingistíðinda. (2162)

43. mál, prestssetur í Grundarþingaprestakalli

Frsm. minni hl. (Garðar Þorsteinsson):

Ég get bent á það, að í Ed. kom fram brtt. við frv., sem fór í þá átt að fella seinni málsgr. aftan af 1. gr. Þessi brtt. var felld með miklum atkvæðamun. Jafnaðarmenn hafa það eins og kunnugt er, á stefnuskrá sinni, að ríkið eignist sem flestar jarðir, og sumir í Framsfl., sem hreinskilnir eru og viðurkenna, að þeir standi nærri þeim, eru þessu fylgjandi. En þó greiddi meiri hl. framsóknarmanna í Ed. atkv. á móti þessari till.

Hv. 1. landsk. var hissa á því, að ábúandinn skyldi vilja kaupa jörðina, þar sem hann ætti kost á að leigja hana fyrir það afgjald, sem ég gat um. Ég get skilið, að hann sé hissa á því. En ég get hinsvegar vel skilið, að maður, sem búið hefir þarna í tvö ár, hafi áhuga á að eignast þessa jörð. Maðurinn er duglegur og sæmilega stæður. Jörðin er að vissu leyti erfið, en annars mikil og góð jörð, og í hans höndum verður væntanlega vel frá öllu gengið.

Ég vil ekki fara inn á það principmál, sem hér liggur fyrir milli jafnaðarmanna og sjálfstæðismanna. En ég vil benda á það, að jarðir eru yfirleitt betur setnar af eigendum en leiguliðum.

Þá má benda á fskj. með frv. frá Jóni Helgasyni biskupi, sem telur heppilegt, að jörðin verði seld, enda getur ríkið ekki haft neinna hagsmuna að gæta með því að halda í eignarréttinn á þessari jörð.