03.11.1934
Efri deild: 29. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1763 í B-deild Alþingistíðinda. (2320)

44. mál, kosningar í málefnum sveita og kaupstaða

Jón Auðunn Jónsson:

Ég verð að segja, að mér þykir frv. þetta næsta undarlegt, eða a. m. k. meðferð þess æðikynlegt. Ég óskaði, að það væri borið undir bæjarstj. á Ísafirði, sem á að hafa getið tilefnið til, að það er fram komið, en því var neitað.

Í nál. er enginn rökstuðningur fyrir frv., og þá var hann heldur ekki að finna í ræðu hv. frsm. Ef framfylgja ætti ákvæðum frv. þessa, þá held ég, að oft yrði uppkosning til bæjarstjórna. Það þyrfti ekki annað en að mál komi fyrir í bæjarstj., sem bæjarstjóri væri á móti, og hann felldi úr gildi samþykkt bæjarstj. og bæri ágreininginn undir úrskurð stjórnarráðsins, eins og hann hefir leyfi til. Hann væri þá kominn í minnihlutaaðstöðu og ætti því að segja af sér og kosningar að fara fram þar til meiri hl. fengist. Þannig gæti því verið kosið í bæjarstjórn á 2—3 mán. fresti. Eins og kunnugt er, þá er þannig ástatt á Ísafirði nú, að bæjarstjórinn hefir sagt af sér og annar maður hefir verið settur til þess að gegna embættinu um 3 mán. skeið, en eðlilegast hefði verið að auglýsa stöðuna og sjá, hvort bæjarstjórnin hefði ekki getað komið sér saman um val á bæjarstjóra.

Þá finnst mér það í öðru lagi vera óvenjulegt að taka völdin af bæjarstjórnunum um það, hvort aukakosningar skuli fara fram eða ekki, eins og gert er í frv., og leggja það algerlega á vald ráðh. Annars er það svo, að þetta mál gæti gefið mér sem fyrrv. bæjarstjóra á Ísafirði tilefni til að gefa almenna skýrslu um framferði bæjarstj. á Ísafirði, en þar sem ég hefi kært nokkra fyrrv. bæjarfulltrúa fyrir stjórnarráðinu, sem hefir úrslitavald í þessum málum, mun ég ekki gera það.

Þegar bæjarstj. neitaði mér um fararleyfi til þings, voru aðeins 4 bæjarfulltrúarnir, sem greiddu atkv. með því, einn sat hjá, en 4 greiddu atkv. á móti. Var því hér ekki um meiri hl. að ræða. Ástæðan fyrir neituninni var talin sú, að ég hefði unnið á móti hagsmunum verkalýðsins á Ísafirði í einu máli. Ég vil því leyfa mér að skýra frá, hver ástæðan var. Þegar allt var í kaldakoli á Ísafirði vegna atvinnuleysis o. fl., var borin fram till. af kommúnistum um að stytta vinnudaginn í opinberri vinnu, atvinnubóta- og bæjarvinnu, sem aðallega var grjótupptekt og þess háttar, en greiða samt sama dagkaup. Vinnudagur var færður niður í 8 stundir, en dagkaup óbreytt 12 kr. á dag, en tímakaup í þessari vinnu hækkað úr kr. 1,20, sem það er í allri annari vinnu, upp í kr. 1,50 í þessari meira og minna vandræðavinnu. Ég beitti mér á móti þessari till., því ég taldi hana til skaða bæði fyrir verkamenn og vinnuveitendur, sem líka hefir orðið raunin á, því að þessi breyt. hefir orðið til þess að auka töluvert á atvinnuleysið á Ísafirði, því að nú hafa ýmsir verkamenn þar dregið sig til baka og ekki viljað vinna fyrir kr. 1,20 að ýmiskonar framleiðsluvinnu, en heimtað atvinnubótavinnu, sem greidd er með kr. 1 50 á vinnustund, þrátt fyrir það, þó að afkast hennar sé sem kunnugt er oft mjög lítils virði. Þannig fengust ekki menn á haldfæraskipin á Ísaf. á liðnu sumri, þrátt fyrir mikið atvinnuleysi.

Till. sú, sem hér liggur fyrir í frv.formi, var borin undir bæjarstj. á Ísafirði og rædd á þeim sama fundi, sem ég tilkynnti bæjarstj., að ég segði starfi mínu lausu, og yrði að fara úr bænum fyrir 1. okt. til þingsetu, og eftir því sem ég man bezt, mun hún hafa verið felld þar. Eigi að setja slík lög sem þessi, þá finnst mér, að allshn. sé beinlínis skylt að leita álits bæjarstjórnanna, þar sem lögin koma til með að snerta þær svo mjög. Það allra minnsta, sem hægt var að gera í slíku máli sem þessu var þó það, að leita umsagnar bæjarstj. á Ísafirði, sem sérstaks aðila í þessu máli, og ennfremur að setja inn í frv. ákvæði um það, að bæjarstjórnirnar gætu lagt fyrir ráðh. óskir um að kjósa upp, svo það verði ekki gert gagnstætt þeirra vilja. Annars er ekkert undarlegt, þó að misbrestur verði stundum á kosningu bæjarstjóranna, þegar jafnaðarmenn eru búnir að taka þann sjálfsagða rétt af borgurunum að fá að kjósa bæjarstjórana með beinni kosningu, og ég held, að eina ráðið til þess að losna úr því öngþveiti, sem þetta mál er komið í, verði það, að taka upp beina kosningu á bæjarstjórum í kaupstöðum.