19.11.1934
Efri deild: 42. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1799 í B-deild Alþingistíðinda. (2460)

56. mál, hlunnindi fyrir ný iðn- og iðjufyrirtæki

Magnús Jónsson:

Ég ætla ekki að andmæla þessu frv. Mér finnst það vera réttmætt og skynsamlegt að styðja að því, að ný fyrirtæki séu sett á fót. Það er bersýnilegt, að þótt þetta virðist vera eftirgjöf, þá getur verið, að stofnað sé til mikilla tekna með því að styðja að því, að þessum fyrirtækjum sé komið á legg. Mér finnst þó sá hængur vera á þessu, að eingöngu fyrsta fyrirtækinu í hverri iðngrein er ætlað að verða aðnjótandi þessara hlunninda. Ég skil ekki vel þá orsök, sem liggur því til grundvallar, að ekki má veita þessi hlunnindi nema fyrsta fyrirtækinu. Þetta verður vitanlega til þess að útiloka samkeppni, og það getur farið svo, að í raun og veru sé ekki rétt að hlaða undir óeðlilega samkeppni. Þegar eitthvert fyrirtæki er sett á fót, sigla önnur samskonar í kjölfarið. Það er oft heilbrigt, að fleiri en eitt fyrirtæki séu í hverri grein. Segjum t. d., að ekki væri byrjaður smjörlíkisiðnaður í landinu. Þá fengi fyrsta smjörlíkisgerðin, sem stofnuð yrði, þessi hlunnindi. Það væri engin skynsamleg ástæða til þess að banna öðrum smjörlíkisgerðum á öðrum stöðum á landinu að verða þessarar ívilnunar aðnjótandi. Sama máli gegnir um beinamjölsverksmiðju, síldarverksmiðju o. fl. Ég tek þessi fyrirtæki sem dæmi. Ég vil svo leyfa mér að skjóta því til n., hvort ekki sé ástæða til þess að breyta frv. að þessu leyti við 3. umr., því að þetta er galli á frv. Væri æskilegt að orða þetta þannig, að það væri undir mati komið, hvort heilbrigt þætti að veita fyrirtækjum í sömu grein sömu hlunnindi.