11.12.1934
Efri deild: 58. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1962 í B-deild Alþingistíðinda. (2598)

124. mál, hlutafjárframlag fyrir h/f Skallagrím í Borgarnesi

Jón Auðunn Jónsson:

Ég hefi leyft mér að koma fram með brtt. við frv. þetta um hlutafjárframlag og ríkisábyrgð fyrir h/f Skallagrím í Borgarnesi, í þá átt, að Ísfirðingum verði sýnd álíka hjálp. Öllum, sem til þekkja, er kunnugt, að til samgöngubóta í Ísafjarðarsýslu er ekki nema ein leið, og það er sjórinn. Hingað til hefir ríkið styrkt að nokkru þessar samgöngur N-Ísfirðinga, en ávallt þannig, að það hefir verið of lítið til þess, að rekstur þeirra skipa, sem til þessa hafa verið höfð, hafi getað borið sig. Ísfirðingar sáu það fyrir löngu, að eina leiðin til þess að ráða bót á samgöngunum var að stofna til samtaka um skipakaup til þessara ferða. Og þegar á árinu 1884 er samþ. í sýslunefnd N.-Ísafjarðarsýslu og V.-Ísafjarðarsýslu að leggja fram fé í þessu skyni og fá bát til ferðanna. Úr þessu varð þó ekki, heldur tók Ásgeirsverzlun á Ísafirði að sér að útvega bát og annast ferðirnar með sýslusjóðsstyrk, og síðan nokkrum ríkisstyrk. Hinn litli gufubátur, sem fenginn var, reyndist ónógur til ferðanna, og þá var það, að Pétur Bjarnason, kaupm. á Ísafirði, keypti ca. 60 tonna gufubát vel útbúinn til farþega- og mannflutninga, og hélt uppi ferðunum um mörg ár, þangað til báturinn strandaði. Síðan hafa verið hin mestu vandræði með þessar samgöngur. Á stríðsárunum fékkst enginn til þess að taka ferðirnar að sér, og varð bæjarstj. Ísafjarðar og sýslun. N.-Ísafjarðarsýslu því að ráðast í bátakaup á óhentugum tíma. Var keyptur fiskibátur, þá nýsmíðaður, fyrir rúmar 70 þús. kr., þó ekki væri hann nema 40 tonn að stærð. Báturinn var í alla staði óhentugur, og þó haldið úti án þess að mikið tap yrði af. En þegar báturinn svo fórst, var hann ekki vátryggður nema fyrir 36 þús. kr., og beið Djúpbátsfélagið þá mikinn hnekki. Óhentugri farkostur var keyptur, og þótt hann væri 50 tonn að stærð, þá var ekkert hæfilegt rúm í honum til farþegaflutnings; að öðru leyti var hann sæmilegur flutningsbátur. Síðan hefir allt verið í mestu vandræðum. Bæjarsjóður, sýslan og einstakir menn höfðu lagt fram um 70 þús. kr. til hinna fyrri bátakaupa, og á síðastl. ári var allt hlutaféð tapað og félagið orðið gjaldþrota. Menn hafa séð, að fólksflutningar hafa að miklu leyti farið framhjá þessum farkosti, sem verið hefir undanfarin ár, vegna þess hve lítið og óþægilegt rúm var í bátnum fyrir farþega, sem þó er nauðsynlegt, þar sem vegalengdir eru þarna miklar og fólkið þarf oftast að vera um borð í skipinu þetta frá 10—14 klst., og oft heilan sólarhring eða meira. Það er varla von, að allur þorri manna, sízt þeirra, sem eru sjóveikir, sæti slíkum skipakosti. Enda hefir reynslan orðið sú, að menn hafa heldur keypt sér farkost til þess að komast beint. Á þessu hefir útgerðin tapað óhemju miklu, óhætt að segja allt að helmingi af því, sem hún annars myndi hafa haft í farþegagjöldum. — Það er öllum þeim ljóst, sem líta á landakortið, að þarna er um miklar vegalengdir að ræða, en hinsvegar hvergi vegarspotti vel fær, nema frá Ísafirði út í Hnífsdal og fram í fjörðinn. Þótt menn vildu ferðast á hestum, þá eru vegalengdirnar það miklar, að úr innstu fjörðunum eru stífar 2 dagleiðir fyrir lausríðandi mann til Ísafjarðar. Fólksflutningar verða að fara fram á sjó. Annað er ekki hægt. Ísafjarðars. hefir ekki gagn af þeim strandferðum, sem haldið er uppi af ríkissjóðs hálfu kringum landið. Það eru aðeins nokkrar viðkomur í Bolungavík, sem strandferðaskipin hafa, en ekki annarsstaðar í sýslunni. Eimskipafélag Íslands fær nokkurn styrk til þess að annast viðkomur á smáhöfnunum, en það kemur ekki heldur N.Ísfirðingum að gagni. Það er ekki hægt fyrir skip Eimskipafélagsins að verða að liði í þessari sýslu, enda ekki reynt, og þótt reynt væri, þá alveg gagnslaust. Allar póstsamgöngur fara fram á sjó, og þær ferðir innan N.-Ísafjarðarsýslu og til Súgandafjarðar eru á þessu ári 107 talsins. Héraðið er þríklofið: Djúpið, Jökulfirðirnir og svo Austur- og Vesturstrandirnar. Ferðirnar þurfa því að vera æðimargar, því að einungis verður farið á einn þessara staða í hverri ferð. Síðastl. ár hygg ég, að ferðirnar muni hafa verið yfir 200. — Ég hefi lítillega athugað, hvað farið hefir til samgöngubóta til annara héraða. Strandferðirnar munu koma 15 sýslum að notum: Vestmannaeyjum, AusturSkaftafellssýslu, Suður-Múlasýslu, Norður-Múlasýslu, Norður-Þingeyjarsýslu, Suður-Þingeyjarsýslu, Eyjafjarðarsýslu, Skagafjarðarsýslu, Austur-Húnavatnssýslu, Vestur-Húnavatnssýslu, Strandasýslu, Vestur-Ísafjarðarsýslu, Barðastrandarsýslu, Dalasýslu og Snæfellsnessýslu. Kostnaður við strandferðirnar hefir að jafnaði verið undanfarin ár 360 þús. kr. að meðaltali á ári. Það eru 24 þús. kr. á hverja þessara sýslna. Eimskipafélagið heldur uppi ferðum til allra þessara sömu sýslna nema Dalasýslu, og þó lítið til Austurlandsins, en aftur aðallega til Norðurlands og Breiðafjarðar og V.-Ísafjarðarsýslu. Styrkur til þessara ferða er um 200 þús. kr. Ef því er deilt niður á 14 sýslurnar, koma 14 þús. kr. á hverja. — Flóabátaferðir, sem styrktar eru vegna þessara sýslna, sem hér um ræðir, að Vestmannaeyjum undanskildum, njóta 36 þús. kr. styrks, eða tæpl. 3 þús. kr. á hverja sýslu. Til samans nema þessar upphæðir 41 þús. kr. á ári til samgangna á sjó, sem hver þessara sýslna fær, en eins og ég áðan gat um, hefir N.-Ísafjarðarsýsla þessara ferða engin not, hvorki strandferðanna eða Eimskipafélagsskipanna. Vegafé til þessara sýslna hefir verið 380 þús. kr. undanfarin ár, eða að meðaltali 24 þús. kr. á ári á hverja sýslu. Undanfarin ár hefir því verið veitt 65 þús. kr. til hverrar þessara sýslna, sem ég nefndi, en til Ísafjarðarsýslu hafa undanfarin ár aðeins verið veittar 19 þús. kr. til þess að halda samgöngunum uppi og póstferðunum. Ég hefi í þessari skrá ekki tekið tillit til þess kostnaðar, sem varið er til póstferða í öðrum sýslum en N.-Ísafjarðarsýslu. Og nú eru póstferðirnar svo dýrar, að fyrir stríð varð að veita 10 þús. kr. til póstgangna á sjó í Norður-Ísafjarðarsýslu. Hér er því ekki aðeins um styrk til samgöngubóta að ræða, heldur líka til póstferða, sem hvort sem er er skyldugt að halda uppi. Afkoma þessa héraðs veltur algerlega á því, hvort samgöngurnar eru í lagi eða ekki. Þar eru engar aðrar samgöngur mögulegar en þessar samgöngur á sjó. Undir þeim er það algerlega komið, hvort íbúar þessa héraðs geta haldið framleiðslustarfsemi sinni áfram og lifað á svipaðan hátt og hingað til. Það væri sannast að segja meira en lítið misrétti, ef Ísafjarðarsýsla ætti ekki að fá nema 10 (póstferðastyrkur 10 þús. kr.) þús. kr. til samgöngubóta, þegar aðrar sýslur hafa fengið 63 þús. kr. að meðaltali í sama skyni. Frá Norður-Ísafjarðarsýslu berast ríkissjóði tekjur, sem eru a. m. k. í hlutfalli við fólksfjölda, ef miðað er við aðrar sýslur, og mun hún vera þriðja fólksflesta sýslan á landinu. Suður-Þingeyjarsýsla og Suður-Múlasýsla einar eru fólksfleiri. — Það, sem sýslun. fer hér fram á, er það, að ríkissjóður leggi fram allt að 30 þús. kr. til hlutafjárkaupa í bátnum, og má það greiðast á 5—10 árum. Búið er að safna loforðum hjá bæjarsjóði Ísafjarðarkaupstaðar, sýslun. Norður-Ísafjarðarsýslu og einstökum hreppum, sem nema rúmlega 30 þús. kr. Og vafalaust fæst meira fé á þann hátt, ef sjáanlegt er, að hægt verður að leggja í kaup á sæmilegum farkosti. Nú sem stendur eru einstakir menn, sem tapað hafa fé sínu í gamla fyrirtækinu, tregir að leggja fé fram á ný, nema ríkissjóður sjái sér fært að hlaupa þarna undir bagga. Það má fullyrða, að án þess verði ekki hægt að halda þarna uppi stöðugum samgöngum, sem nálgist það að geta nefnzt viðunandi. Á síðastl. ári gafst Djúpbátsfélagið upp, sem þessar ferðir hafði með höndum, en bæjarsjóður Ísafjarðar og sýslun. Norður-Ísafjarðarsýslu höfðu tekið á sig miklar ábyrgðir fyrir félagið, auk þess, sem lagt hafði verið fram úr þessum sjóðum sem hlutafé, þegar Djúpbátsfélagið var stofnað. Og talsvert af þessum skuldum er enn ógreitt. Þegar svo var komið, að félagið varð að gefa sig upp, var báturinn seldur. Sýslun. reyndi þá að fá menn til að taka að sér ferðirnar. Það tókst að fá mann til þess að taka að sér ferðirnar fram að nýári, um þriggja mánaða tíma, en eftir áramótin 1933—1934 fékkst enginn. Ríkisstj. varð þá að hlaupa undir bagga, og sendi hún þá vitaskipið Hermóð vestur og annaðist hann póstferðir og að litlu leyti aðrar ferðir um tveggja mánaða skeið, eða þar til sýslun. gat fengið mann til þess að halda ferðunum uppi það sem eftir var yfirstandandi árs. En farkostir þeir, sem þessi maður hefir yfir að ráða, voru ákaflega lélegir. Þar er ekkert farþegapláss, og aðeins lítið pláss ætlað skipshöfninni, en þar verða þó farþegarnir að hrúgast, ef nokkuð er að veðri. Sýslun. eða sú n. frá sýslun., sem með þetta hefir að gera, hefir orðið að halda neyðarsamningunum við þennan mann, af því að enginn annar fæst til þess að halda ferðunum uppi. Og ógerningur er að láta ferðirnar falla niður með öllu. Nú er komið svo, að menn eru farnir að forðast að ferðast með póstskipinu, og leigja sér heldur báta til að skjótast með milli hafna, þegar sæmilegt er í sjó. Því hefir verið haldið fram af ókunnugum, að betra væri að hafa bátana tvo, annan, sem flytti fólk og vörur um Djúpið, og hinn, er stunda ætti ferðirnar til norðurhreppanna. Slíkt fyrirkomulag teldi ég algerlega óhæft. Á slíkum leiðum sem þessum er ekki hægt að koma fyrir öryggi og þægindum farþegum til handa í bátum, sem ekki eru nema 20—30 tonn. Þetta yrði líka miklu dýrara en að hafa einn góðan bát. Og það, sem vakir fyrir sýslun. og öðrum forgöngumönnum þessa máls, er að fá góðan innanflóabát, með sæmil. farþegarúmi, og auk þess lítinn bát, sem flutt gæti afurðir þeirra bænda, sem mjólk geta selt til Ísafjarðar, á markaðinn þar. Sá bátur gæti farið til mjólkurframleiðenda þá daga, sem póstbáturinn fer ekki og nauðsyn er á slíkum flutningum. Það hefir borizt í tal í samgmn., að ríkissjóður afhenti Djúpbátsfélaginu eða sýslun. Norður-Ísafjarðarsýslu vitaskipið Hermóð til þessara ferða. Ég hefi talað við hæstv. ráðh. um þetta og heyrðist ekki í honum, að neitt væri ákveðið í þessu efni. Og ég fullyrði, að úthald slíks skips yrði algert ofurefli þessum aðilum, þó að ríkisstyrkurinn yrði aukinn upp í 24 þús. kr. á ári. Eftir að þetta kom til orða, hélt n. sú úr sýslun., sem með þetta mál fer, fund, og það var einróma álit hennar, að hún sjái sér ekki fært að taka á sig ábyrgð á rekstri slíks skips. Og hvað verður þá, eigi þessar ferðir að leggjast niður? Nú er ekki annað að sjá en svo verði, því samningur sýslun. við mann þann, er hefir ferðirnar á hendi nú, er útrunninn 15. janúar. Og fyrirsjáanlegt er, að enginn sá, er ráð hefir á sæmilegum farkosti, fæst til þessara ferða, meðfram vegna þess, að styrkur frá ríkissjóði er mjög lágur, þegar tekið er tillit til þeirra krafna, sem gerðar eru um póstferðirnar. Að því verður að gæta, hve miklar vegalengdir þarna er um að ræða. Strandlengja þessarar sýslu er lengri en nokkurrar annarar sýslu á landinu.

Ég hefi getað fallizt á það, að sá styrkur, sem hér er farið fram á til Skallagríms í Borgarnesi, verði veittur. Ég tel, að það sé heppilegri stefna, að ríkissjóður styrki héruð til að eignast sæmilega farkosti, en að láta allt drasla svo sem nú er. Og nú er það vitanlegt, að með sæmilegum farkosti yrðu mannflutningar margfalt meiri en með þeim lélegu. Meðan gufubáturinn Tóti hafði þessa flutninga á Djúpinu, voru tekjur af farþegaflutn. 12 þús. kr. á ári, eftir því sem eigendur þess báts hafa tjáð mér. Og fyrst eftir að Djúpbátsfélagið var stofnað, og hafði Braga í förum, urðu tekjurnar af mannflutningum ekki nema 10 þús. kr., enda var sá farkostur lélegri. Nú á síðari árum hefir þessi tekjustofn farið jafnvel niður í 8000 kr. þetta er ekki af því, að minna sé ferðazt nú en áður; ég fullyrði, að meira er ferðazt og þörf fyrir meiri fólksflutninga en áður var, eins í þessu héraði sem öðrum. En fólk sneiðir hjá lélegum farkostum, — ég er sannfærður um það, að tekjur af fólksflutningum þarna gætu farið upp í 13—18 þús. kr., ef gott skip fengist til ferðanna. Það hafa drifið að Alþ. skeyti frá hreppsn. og sýslun. í Norður- og Vestur-Ísafjarðarsýslu um þetta mál. V.-Ísafjarðarsýsla hefir auðvitað minni not af bátnum en N.-Ísafjarðarsýsla, en þó mundi nú vestursýslan hafa talsverð not af þessu skipi, eins og það er áformað. Allir vita, að þarna er ekki um bílvegasamgöngur að ræða, og allir flutningar erfiðir og dýrir. Enda hefir færzt í það horf, að íbúar Vestur-Ísafjarðarsýslu hafa sótt mikið af verzlun sinni til Ísafjarðar, einkum eftir að teknar voru upp reglubundnar ferðir til Vestur-Ísafjarðarsýslu með Djúpbátnum. Það er því ljóst, að einnig þessi sýsla getur haft mikinn hag af góðum farkosti við Djúpið.

Ég ætla ekki að gylla þetta mál fyrir hv. þdm. með loforðum um það, að þetta fé mundi koma aftur með vöxtum í ríkissjóð. Reynslan hefir sýnt, að á þessum rekstri verður oftast tap. Enda er þess varla að vænta, þar sem samgöngur eru svo erfiðar sem vestur þar. En þessar framkvæmdir eru ómissandi fyrir sýsluna; 4000 íbúar hennar krefjast þessarar aðstoðar, og það er ekki hægt með rökum að neita þeim um það. Ég verð að segja, að mér fyndist Ísafjarðarsýsla illa afskipt, ef hún getur ekki fengið aðstoð til þess að afla sér sæmilegs farkosts til þess að halda uppi nauðsynlegustu ferðum.