29.11.1934
Sameinað þing: 16. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 203 í B-deild Alþingistíðinda. (267)

1. mál, fjárlög 1935

Frsm. minni hl. (Magnús Guðmundsson):

Ég ætla, að ég þurfi ekki að tala langt mál út af klofningi fjvn. í meiri og minni hluta. Ég fór nokkuð út í það í eldhúsumræðu minni, að skýra ástæðurnar fyrir því, að n. skiptist og að minni hl. skilar nú sérstöku áliti, en eitt atriði fór ég ekki út í við þá umr., og gerði ég það með vilja, en það atriði var önnur aðalástæðan fyrir því, áður. Vegna bréfa, sem farið hafa á milli um þetta efni, hefir n. sett þá klausu við þessa fjárveitingu, að hún sé bundin því skilyrði, að félagið haldi uppi strandferðum í sama stíl og það hefir gert. En síðan till. voru prentaðar hefir n. borizt bréf frá forstjóra félagsins, þar sem þessu skilyrði er mótmælt. N. hefir ekki unnizt tími til að hafa fund síðan, en ef búið er að gera áætlanir um ekki minni strandferðir hjá félaginu en verið hafa undanfarið, sýnist ekki þörf á að hafa þessa klausu, og liggur þetta til athugunar til 3. umr.

40. og 41. brtt. fjalla um hafnargerðir, og er lagt til, að sá liður hækki samtals um 30000 kr., þar sem lagt er til, að Húsavík og Sauðárkrókur fái sömu upphæð hvort eins og Akranesi er ætluð.

Um bryggjugerðir og lendingarbætur verð ég að segja, að það er sá liður, sem verst er að eiga við af öllu fyrir fjvn. Til þeirra framkvæmda er ætlað í frv. 15000 kr., og hefir n. hækkað það upp í 35000 kr., en slík upphæð hrekkur náttúrlega ekki neitt, ef ætti að nálgast nokkuð það, sem beðið er um. Til þess veitti ekki af a. m. k. 200000 kr. Það hafa komið fram beiðnir um slík fjárframlög frá milli 20 og 30 stöðum, og nema þau samtals h. u. b. 400000 kr.

43. brtt. er um 2500 kr. framlag til sjóvarnargarðs á Flateyri. Þessi liður þarf ekki annarar skýringar en þeirrar, að hér er verk, sem hafið er og komið nokkuð áleiðis og sjálfsagt að halda áfram, til þess að ekki eyðileggist það, sem þegar hefir verið gert.

Ég hefi nú lokið máli mínu að mestu, en til glöggvunar fyrir þá, sem ekki hafa tekið saman hækkunar- og lækkunartill. n. við þennan kafla fjárl., vil ég gera yfirlit yfir þessar breytingar. Niðurstaðan af þessum brtt., að tekjuhækkunartill. — 244000 kr. — fráteknum, verður þá þessi:

n. klofnaði, og hún var sú, að minni hl. komst að því, að till. þær, sem lagðar voru fram í n., voru bornar undir flokksfundi stjórnarflokkanna áður en þær komu til atkv. í n. Þetta þótti okkur ákaflega óviðkunnanlegt og töldum, að þeim till., sem við bárum fyrir brjósti, væri gert svo lágt undir höfði, að við það væri ekki unandi. Við töldum, að þær till. mundu ekki þannig reifaðar á þeim fundum af okkar andstæðingum, að við það væri unandi, eins og nú standa sakir.

Hv. frsm. meiri hl. n. var hógvær og rólegur í ræðu sinni, og mun ég að því taka mér hans dæmi til fyrirmyndar. Hvort eitthvað kann að hvessa við umr. um síðari hlutann, skal ég ekkert um segja, ég skal ekki fortaka, að svo geti farið. Ég skal taka fram, að till. nefndarhlutanna eru margar sameiginlegar, bæði hjá meiri og minni hl., og tel ég enga ástæðu til að fara að ræða þær, heldur mun ég snúa mér að þeim till. meiri hl., sem við teljum ekki nægilega sterk rök fyrir.

Það er þá fyrst 9. brtt., sem ég veit ekki, hvort allur minni hl. er mótfallinn, en ég veit um þrjá nm. a. m. k. Þessi brtt. er um að færa niður um 5000 kr. kostnað við skrifstofu ríkisféhirðis. Við teljum þá till. beinlínis brot á þeirri reglu, sem annars er tilætlunin að fylgja, sem sé að áætla ekki minna en ætla má, að óhjákvæmilegur kostnaður verði. Þessi kostnaður var árið 1933 yfir 33000 kr. Þá sé ég ekki, að það sé hægt að færa þennan kostnað niður í 30000 kr. nú, því ekki verður séð, að þessi kostnaður sé lægri nú en árið 1933. Þá var ekki talið hægt að hafa þennan kostnað lægri, þó n. álíti, að það sé hægt nú, enda færði hv. frsm. meiri hl. n. engin rök að því, að það væri hægt. Ég held, að það sé ekki hægt að fækka um mann í þessari skrifstofu, eins og hann áleit, og styðst það álit mitt við reynslu undanfarinna ára. Breyting sú, er varð á þessari skrifstofu á yfirstandandi ári, var ekki önnur en sú, að Jón Halldórsson fór af skrifstofunni, en annar maður var tekinn í staðinn, og þó hann vinni ekki starf ríkisféhirðis, heldur annað starf í skrifstofunni, þá skiptir það ekki máli. Hér er um óhjákvæmilegan kostnað að ræða, sem verður að greiða. Þó þessi brtt. meiri hl. n. verði samþ., þá er það aðeins hækkun á pappírnum, sem ekki mun koma fram á LR. á sínum tíma.

Þá er það brtt. meiri hl. um að láta fangana á Litla-Hrauni vinna á Reykjatorfunni, þegar ekki sé um arðbæra vinnu að ræða heima við hælið. Ég vil fyrst koma með því alm. aths., hvort ekki væri þá réttara að láta fangana alltaf vinna á Reykjum, því um arðbæra vinnu fyrir fangana hefir ekki verið að ræða að Litla-Hrauni, síðan hælið var stofnað. Ekkert, sem hælið hefir tekið sér fyrir hendur hingað til, hefir gefið ágóða. Ef þessi till. á að þýða eitthvað, þá skilst mér, að það eigi að vera það, að fangarnir eigi að vinna á Reykjatorfunni fyrir ekki neitt, því að ef þeir eiga að vinna þar fyrir kaup, þá er það ekkert annað en það, sem forstöðumaður hælisins hefir fulla heimild til að láta þá gera. Ég lít því á þessa till. eins og hvert annað fálm út í loftið, og ekkert annað. Hún spillir kannske ekki, en gerir heldur ekkert gott.

Þá er hér brtt. nr. 17, um styrk til tveggja lækna eða læknakandídata til að nema geðveikrafræði erlendis. Ég varð ekki var við, að nein till. frá landlækni lægi fyrir fjvn. um þetta efni, en n. mun hafa tekið þetta upp eftir beiðni formanns síns, og vita allir, að tilgangur hennar er að reyna að fá hæfa menn í stað Helga Tómassonar, sem hv. þm. S.-Þ. umfram allt vill koma burtu frá Kleppi, af ástæðum, sem alþjóð eru kunnar. Undir þetta getur minni hl. ekki tekið og er því mótfallinn þessari till.

Svo get ég, eins og hv. frsm. meiri hl., tekið 18., 19. og 20. brtt. í einu. Þær eru um að færa niður ýms fjárframlög til Nýja-Klepps. Ég lít svo á, að þetta sé alls ekki viðeigandi af n. hálfu, af sömu ástæðum og ég nefndi um ríkisféhirðiskostnaðinn, og þarf ekki að skýra það nánar. En ég þykist vita, að meiri hl. n. hefir gert það eftir beiðni formanns sín að færa þetta niður, því að það er vitað, að hann er lítill vinur yfirlæknisins á Nýja-Kleppi, og þykir honum kannske einhver fróun, að þetta sé fært niður. Það er ekki hægt annað en brosa að þessu, eins og t. d. að ætla ekki nema 1500 kr. til lyfja og sáraumbúða, því að vitanlega verður borgað eins og þarf, og er þetta því ekki annað en að svíkja sjálfan sig.

Ummæli hv. frsm. meiri hl. um, að kostnaðurinn við Nýja-Klepp hafi hækkað frá því, sem áætlað var í síðustu fjárl., eru rétt. En þessi hækkun er eðlileg, af því að sjúklingum fjölgaði þar mikið, en annars er þessi hækkun ekki nærri því eins mikil og við landsspítalann, og finnst mér, að hv. frsm. meiri hl. hefði átt að upplýsa það. En þessa till. lít ég á sem lítilfjörlegan títuprjón í yfirlækninn, sem honum gerir ekkert til, en er kannske til fróunar hv. form. fjvn., sem hefir ánægju af slíkum smátítuprjónsstungum.

Þá vil ég nefna með örfáum orðum 13. brtt., viðvíkjandi landhelgisgæzlunni. Minni hl. n. er fyllilega samþ. henni, en ég finn ástæðu til þess að nefna hana með fáeinum orðum, af því að það hefir verið mjög fundið að því, að ég dró úr landhelgisgæzlunni á minni stjórnartíð, af því að ekki var veitt nægilega mikið fé til þess að halda henni uppi jafnmikilli og áður var. En það getur ekki annað en glatt mig, að nú hefir hv. meiri hl. n. gengið inn á þessa skoðun, og leggur nú til að draga enn meira úr landhelgisgæzlunni. Ég held, að það bezta, sem hægt er að gera í þessu ofni, sé að selja varðskipið Þór. Ég geri ráð fyrir, að það muni vera auðvelt, því að lítið þarf að breyta honum til þess að gera hann að togara. Það væri æskilegt, að þetta skip væri notað til fiskveiða, en ekki lagt upp, eins og ég geri ráð fyrir, að annars mundi verða gert. En það álít ég hæpið, sem hv. meiri hl. n. leggur til, að láta Þór ganga og taka að sér flutninga til vitanna, því að þá verður að leggja upp vitaskipinu, en ég er hræddur um, að flutningar með Þór mundu verða talsvert dýrari fyrir vitana heldur en með vitabátnum. Annars er minni hl. n. samþykkur því, að ef eitt skip er haft við landhelgisgæzlu, þá sé það bezta og yngsta skipið, Ægir. Og svo verður hitt skipið látið vera sérstaklega við gæzlu við Vestmannaeyjar og annarsstaðar þar, sem mest er þörf á gæzlu að staðaldri.

Svo kem ég að vegunum, 38. brtt. á þskj. 508 er um að fella niður lögákveðið gjald til malbikunar á þjóðvegum. Það er eins og hv. frsm. meiri hl. fjvn. sagði, að það geta verið deildar meiningar um, hvort það er rétt eða ekki. Ég var í vafa og greiddi ekki atkv. um það í n. Því verður þó ekki neitað, að það er sanngirni, sem mælir með því, að þessari upphæð verði skipt á milli sýslna, því að vegamálastjóri gerir ráð fyrir, að hún muni ekki verða notuð á árinu 1935, heldur geymd, til þess að hægt verði að taka fyrir stærra svæði í einu til að malbika. En ef þessi till. verður samþ., má ekki gleyma því, að með því er í raun og veru verið að safna skuld, sem vegirnir eiga síðar að fá greidda, því að það var samningur á sínum tíma út af lögum um skatt á benzíni, að hluti af honum færi til þessa, og þann samning er ekki rétt að rjúfa. Í því að taka þessa fjárveitingu burt og skipta henni á milli ýmissa landshluta er fólgin sú hækkun á vegafénu, sem hér liggur fyrir, ef frá eru teknar þær 50 þús. til Sogsvegarins, sem hæstv. ríkisstj. hefði átt að taka upp í fjárlagafrv. sitt, því að það var vitanlegt, að til þeirra gjalda mundi koma á árinu 1935.

Ég hefi áður tekið það fram við þessa umr., að mér fyndust skiptin á vegafénu ekki sanngjörn, og til þess að rökstyðja það dálítið ætla ég að sýna, hvernig þessu fé er skipt eftir till. vegamálastjóra, eftir till. stj. og eftir till. fjvn. Því er þannig skipt :

Í Gullbringu- og Kjósarsýslu: Eftir till. vegamálastj. 25 þús. kr., eftir till. stj. 10 þús. kr., eftir till. fjvn. 10 þús. kr.

Í Borgarfjarðarsýslu: Eftir till. vegamálastj. 5 þús. kr., eftir till. stj. ekkert, eftir till. fjvn. 5 þús. kr.

Í Mýrasýslu: Eftir till. vegamálastj. 16 þús. kr., eftir till. stj. 6 þús., eftir till. fjvn. 6 þús. kr.

Í Snæfellsnes- og Hnappadalssýslum: Eftir till. vegamálastj. 19 þús. kr., eftir till. stj. 5 þús. kr., eftir till. fjvn. 10 þús. kr.

Í Dalasýslu: Eftir till. vegamálastj. 14 þús. kr., eftir till. stj. ekkert, eftir till. fjvn. 5 þús. kr.

Í Barðastrandarsýslu: Eftir till. vegamálastj. 4 þús. kr., eftir till. stj. 4 þús. kr., eftir till. fjvn. 10 þús. kr.

Í Vestur-Ísafjarðarsýslu: Ekkert ætlað af neinum þessara aðila, og er það eina sýslan, sem svo er ástatt um.

Í Norður-Ísafjarðarsýslu: Eftir till. vegamálastj. 3 þús. kr., en hvorki hjá stj. né fjvn. áætlað neitt.

Í Strandasýslu: Eftir till. vegamálastj. 3 þús. kr., eftir till. stj. 5 þús. kr., eftir till. fjvn. 11 þús. kr.

Í Vestur-Húnavatnssýslu: Eftir till. vegamálastj. 10 þús. kr., eftir till. stj. 6 þús. kr., eftir till. fjvn. 6 þús. kr.

Í Austur-Húnavatnssýslu: Eftir till. vegamálastj. 20 þús. kr., eftir till. stj. 10 þús. kr., eftir till. fjvn. ekkert.

Í Skagafjarðarsýslu: Eftir till. vegamálastj. 30 þús. kr., eftir till. stj. 25 þús. kr., eftir till. fjvn. 25 þús. kr.

Í Eyjafjarðarsýslu: Eftir till. vegamálastj. 10 þús. kr., eftir till. stj. 6 þús. kr., eftir till. fjvn. 21 þús. kr.

Í Suður-Þingeyjarsýslu: Eftir till. vegamálastj. 15 þús. kr., eftir till. stj. 10 þús. kr., eftir till. fjvn. 10 þús.

Í Norður-Þingeyjarsýslu: Eftir till. vegamálastj. 7 þús. kr., eftir till. stj. 12 þús. kr., eftir till. fjvn. 15 þús. kr.

Í Norður-Múlasýslu: Eftir till. vegamálastj. 9 þús. kr., eftir till. stj. 31 þús. kr., eftir till. fjvn. 31 þús. kr.

Í Suður-Múlasýslu: Eftir till. vegamálastj. 5 þús. kr., eftir till. stj. 20 þús. kr., eftir till. fjvn. 35 þús. kr.

Í Austur-Skaftafellssýslu: Eftir till. vegamálastj. 5 þús. kr., eftir till. stj. 5 þús. kr., eftir till. fjvn. 10 þús. kr.

Í Vestur-Skaftafellssýslu: Eftir till. vegamálastj. 20 þús. kr., eftir till. stj. 12 þús. kr., eftir till. fjvn. 12 þús. kr.

Í Rangárvallasýslu: Eftir till. vegamálastj. 35 þús. kr., eftir till. stj. 7 þús. kr., eftir till. fjvn. 10500 kr.

Í Árnessýslu: Eftir till. vegamálastj. 10 þús. kr., eftir till. stj. 4 þús. kr., eftir till. fjvn. 15 þús. kr.

Þar með tek ég ekki fjárveitingu til Sogsvegarins, sem er 50 þús. kr., af því að ég skoða hann ekki gerðan vegna sýslunnar sjálfrar, heldur vegna Sogsvirkjunarinnar.

Fjárveitingu til Fjarðarheiðarvegarins taldi ég ekki með Norður-Múlasýslu, af því að ég skoða þann veg sem veg fyrir Seyðisfjarðarkaupstað. Sama er að segja um Holtavörðuheiðarveginn, að ég hefi ekki talið hann til neins kjördæmis, af því að hann er á milli Norður- og Suðurlands. En til Holtavörðuheiðarvegarins hefir vegamálastj. áætlað 70 þús. kr., stj. 60 þús. kr., en fjvn. færði það aftur upp í 10 þús. kr.

Ef maður nú lítur á þessa skiptingu, rekur maður sig fyrst á, að till. vegamálastj. er umturnað miklu meira en nokkru sinni fyrr. Vegamálastj. lagði til, að veitt yrði til vega 350 þús. kr., en fjvn. um 380 þús. kr., svo að það hefði ekki þurft annað, ef till. vegamálastj. hafa verið sanngjarnar, en að bæta við þær þessum mismun, sem er 30 þús. kr. Það er sérstaklega áberandi, hversu mikið er hækkað frá till. vegamálastjóra framlagið til Norður-Þingeyjarsýslu, Norður-Múlasýslu og Suður-Múlasýslu, og það kveður svo rammt að þessu að því er við kemur framlaginu til Suður-Múlasýslu, að það er sjöfaldað frá því, sem er í till. vegamálastjóra, svo að ekki er hægt að segja annað en hæstv. fjmrh. hafi hugsað nokkurnveginn vel fyrir sínu kjördæmi, og gæti manni dottið í hug, að það væri minni tregða hjá honum að greiða fé í sitt kjördæmi heldur en til annara. Mjög áberandi er einnig með fjárveitinguna í Norður-Múlasýslu. Eftir till. vegamálastj. átti hún að vera 9 þús. kr., en bæði hæstv. stj. og meiri hl. fjvn. leggja til, að hún verði 31 þús. kr. Þetta er mjög mikill munur, og svo er einnig í Norður-Þingeyjarsýslu, þó að ekki sé alveg eins.

Ég hefi haldið, að vegamálastjóri væri sá maður, sem er kunnugastur þessum málum á landinu yfirleitt, og þar sem hann er sá embættismaður, sem á að gera till. um skiptingu á þessu fé, þá langar mig til að heyra, hvers vegna hæstv. stj. og meiri hl. fjvn. hefir vikið svo mjög frá till. hans í þessu efni. Það kann að vera, að þessir aðilar þykist geta fundið einhverja fullnægjandi ástæðu fyrir þessu, en ég hygg, að það sé ekki hægt, heldur sé hér um skipti að ræða eftir vinfengi hæstv. stj. sumpart við sjálfa sig og sumpart við aðra, því að það er áberandi, hversu ríflegar er skipt niður í kjördæmi stuðningsmanna stj. heldur en andstæðinga hennar.

Það er mjög áberandi, svo ég taki eitt lítið dæmi úr einu kjördæmi stjórnarandstæðinga, Rangárvallasýslu, að þar lagði vegamálastj. til, að veittar yrðu 35 þús. kr., en stj. ekki nema 7 þús. kr. M. ö. o., það er snúið við hlutfallinu milli till. í Suður-Múlasýslu, svo að manni getur ekki annað en dottið í hug, að hér sé hlutdrægni á bak við. Ég skal ekki að svo komnu máli ræða frekar um vegina; ég bíð eftir því, hvaða svör ég fæ, bæði frá hæstv. ríkisstj. og frsm. meiri hl., en áskil mér rétt til þess að koma að þessu síðar.

Ég kem þá að till. okkar minnihl.manna við þennan kafla. Þær eru fáar, ekki nema þrjár. Er sú fyrsta um að færa niður fjárframlag, sem ætlað er til nýrra símalína, úr 120 þús. kr. niður í 85 þús. kr. Okkar ástæður fyrir þessu eru þær, að það, sem þarf til símabygginga, er að langmestu leyti aðkeypt útlent efni. Það eru að vísu dálítil vinnulaun, en þau eru hverfandi lítil í samanburði við kaup á erlendu efni. Við þykjumst því vera í fullu samræmi við stefnu hæstv. ríkisstj. í þessu efni með því að stinga upp á þessu, og hefi ég gaman af að heyra, hvað hún segir um þessa till. Reyndar er ég búinn að heyra það frá hæstv. fjmrh., að allar till. okkar minnihl.manna ættu að fara í pappírskörfuna. Skiptingin á þessum 85 þús. kr., sem við leggjum til, að veittar verði, álítum við, að eigi að vera sú, að taka fjórar efstu línurnar, sem landssímastjóri leggur til, að verði lagðar á árinu 1935. Hann gerði till. um ýmsar smálínur og lét það uppi við fjvn., að hann áliti, að þær ætti að taka í þeirri röð, sem þær eru samkv. hans till. Höfum við farið eftir því og ætlumst til, að byggður verði fjölsími milli Rvíkur og Borgarness, sem áætlað er, að kosti 25 þús. kr., og mun hann vera mjög nauðsynlegur. Svo er firðtalstöð á Ísafirði og á Austfjörðum, sem kosta 15 þús. kr., Fnjóskadalslína á 20 þús. kr. og lína frá Sandeyri um Grunnavík til Hesteyrar á 25 þús. kr. Þetta eru samtals 85 þús. kr., og viljum við fylgja till. landssímastjóra um að taka þessar línur fyrstar. Ef þessi till. væri samþ., væru sparaðar 35 þús. kr., og ég er ekki í vafa um það, að ef ómögulega má spara þær, þá væri nær að veita þetta fé til bryggjugerða og lendingarbóta, því að það er eins og hv. frsm. meiri hl. tók fram, að það er ekki eins mikil eftirspurn eftir neinu og því, því að víða á landinu er útgerðinni stór bagi að því að hafa ekki bryggjur eða öruggar lendingar, og ég er sannfærður um það, að ólíkt meira gagn yrði að þessu fé, ef það væri sett í lendingarbætur, heldur en ef það væri sett í síma, því að sem betur fer er síminn kominn svo víða, að ekki er nema tiltölulega lítið, sem eftir er að leggja, og ef maður lítur á skrána, sem n. fékk frá landssímastjóra, þá er þetta auðsær hlutur. Svo er annað með þessar lendingarbætur, að þó að allmikið þurfi til þeirra að kaupa af útlendu efni, þá hygg ég, að það sé talsvert minna heldur en til síma, og talsvert meira þar af leiðandi, sem fer til greiðslu á innlendu verkakaupi. Annars skal ég geta þess, að ekki voru, meðan við minnihl.-mennirnir unnum í n., greidd atkv. um þetta, en því var hvað eftir annað hreyft að fá atkvgr. en því var frestað eins og svo mörgu öðru, og ég gæti trúað, að ef n. ætti að fara í gegnum allt, sem hún hefir ekki ennþá tekið ákvörðun um, kunni að koma fram nokkuð margar till. við 3. umr., og kannske að hún dragist líka nokkuð.

Þá er önnur brtt. um að framlag til sjúkrahúss á Reyðarfirði falli burt. Það eru 10 þús. kr. Ástæðan fyrir þessu er sú, að það var upplýst, m. a. af landlækni, að engar líkur væru til, að sjúkrahús yrði byggt á þessum stað, og þá sé ég ekki, hverskonar þrái það er, að vilja endilega hafa þessa fjárveitingu í fjárl. Ég get hugsað mér, að hæstv. fjmrh. hafi viljað punta upp á fjárveitingarnar til síns kjördæmis með þessu, en hann um það, en minni hl. n. sá ekki ástæðu til að láta standa í fjárl. fjárveitingu, sem ekki eru líkur til, að verði notuð. (Fjmrh.: Hvað ætli hv. þm. geti sagt um, hvað verði notað eða ekki?). Ég tilfæri hér það, sem landlæknir sagði í n. um þetta, og er þess fullviss, að hann veit betur um þetta en hæstv. ráðh., sem tók fram í. En ég skil, að hann vill láta þessa fjárveitingu standa til þess að punta upp á fjárveitingarnar til Suður-Múlasýslu, en mér finnst þær líta áður svo laglega út, að hann þurfi ekki þessa fjöður í hattinn; hann hefir skammtað sjálfum sér svo ríflega, að mér finnst hann ætti að geta séð af þessum litla baunaspón, sem þarna er.

Þá er það þriðja till. viðvíkjandi strandferðum, sem ríkissjóður heldur uppi, um að lækka kostnaðinn við þær um 80 þús. kr., og er þó gengið út frá, að kostnaðurinn verði talsvert meiri en var á árinu 1933, því að ef ég man rétt, þá var hann árið 1933 285 þús. kr. Þessi 35 þús. kr. hækkun frá því, sem notað var 1933, finnst mér nægilega mikil, sérstaklega með tilliti til þess, að það er upplýst af framkvæmdarstjóra Skipaútgerðar ríkisins, Pálma Loftssyni, að ef bæði skipin væru allt árið í ferðum, drægju þau hvort frá öðru, vegna þess, að ekki er nægilegt fyrir tvö skip að flytja nema haust og vor. Og væri því skynsamlegra að láta ekki nema annað þeirra vera í förum hinn tíma ársins, því að séu þau tvö, tvöfaldast kostnaðurinn.

Ég geri ráð fyrir, að því verði haldið fram, að þessar strandferðir þurfi að vera tíðar vegna Austfjarða, og ég skal ekki neita því, að þeir þurfi samband við höfuðstaðinn, enda vil ég, að þessum ferðum verði hagað þannig, að þær verði tíðar þangað. En maður má ekki heldur vera blindur fyrir því, að nú eru Austfirðir komnir í vegasamband við aðra landshluta. Ég er ekki í vafa um, að fólk fer mikið að fara landleiðina milli Austfjarða og Rvíkur, og við það minnkar þörfin fyrir farþegaflutning á sjó yfir sumarið. Þetta hefir sýnt sig að því er Norðurland snertir. Þann tíma árs, sem bílfært er norður, eru mjög litlir farþegaflutningar á sjó milli Rvíkur og Skagafjarðar og Húnavatnssýsla. Fólkið vill heldur fara með bílum en skipum, því það tekur styttri tíma og er ódýrara, auk þess sem sjóveikin fælir marga frá því að fara sjóleiðis, þegar annars er kostur. Ég man oft eftir því, að sagt hefir verið hér á þingi, að þjóðvegur Austfirðinga væri sjórinn, og með því bent á, að samgöngur við Austfirði yrðu að vera sjóleiðis, en ekki á landi. En þegar nú er svo komið, að Austfirðir eru komnir í samband við þjóðvegakerfi landsins, og auk þess er veitt þangað mikið fé til vegagerða, þá finnst mér, að Austfirðingar megi ekki bæði heimta samgöngur á landi í sama mæli og aðrir hafa og svo einnig sérstakar samgöngur á sjó.

Fleiri eru svo ekki till. minni hl. við þennan kafla fjárlfrv., þær eru langflestar við hinn kaflann og koma því ekki til meðferðar nú.

Ég ætla að fylgja því fordæmi hv. frsm. meiri hl., að ræða ekki um brtt. einstakra þm. fyrr en talað hefir verið fyrir þeim. Það vekur strax athygli, þegar maður lítur yfir þær till., að alls engin brtt. er flutt af stuðningsmönnum hæstv. stj., ekki ein einasta. Til þess geta legið tvær ástæður. Önnur sú, að búið sé svo að uppfylla allar kröfur þeirra, er stj. styðja, að enginn þeirra óski neins frekar. Liggur nærri að halda, að svo sé. Þó efast ég mjög um það, því lengi tekur sjórinn við, eins og þar stendur, og ég trúi því varla, að allir flokksmenn stj. séu orðnir svo fleytifullir úr ríkissjóði, að enginn geti tekið á móti svolitlu meiru. Einmitt sú hugsun leiðir mig inn á það, hvort ekki geti hugsazt, að þeir hafi verið dálítið bundnir af flokkunum í þessu efni. Ég verð að segja það eins og er, hafandi nokkur kynni af frjálsræðinu innan núv. stjórnarflokka, að ég er ekki frá því, að handjárnin kunni að hafa verið dálítið notuð í þessu tilfelli. Það gæti hugsazt, að hv. stuðningsmenn stj. hafi verið kúgaðir til þess að vera í bindindi um að bera fram brtt. við þessa umr.

En hver er afleiðingin af því, þegar svo er í pottinn búið, að stjórnarflokkarnir taka ákvörðun um það á sameiginlegum fundi, að ekkert skuli verða samþ. nema það, sem meiri hl. þeirra mælir með, og að engin till. megi koma fram nema þær, sem meiri hl. flokksfundanna mælir með? Afleiðingin verður vitanlega sú, að rúmlega einn fjórði hluti þingsins getur alveg ráðið, hvað kemst fram og hvað ekki. Þetta er spegilmynd af því lýðræði, sem stjórnarflokkarnir fylgja. Þeir þykjast vilja hafa lýðræðið í heiðri, en þetta er eitthvert greinilegasta dæmi um minnihlutavald, sem hægt er að finna og á ekkert skylt við lýðræði. (JJ: En sparnað?). Við hv. frsm. meiri hl. skulum nú tala um það þegar þar kemur. Ég veit, að ákveðið er í okkar stjskr. og þingsköpum, að þm. eigi að greiða atkv. eftir sannfæringu sinni, en ekki eftir því, hvað meiri hl. á einhverjum flokksfundi segir, og ef því ákvæði er fylgt, getur vel verið, að till., sem felld er af meiri hl. á fundi stjórnarflokkanna, yrði samþ. með glansandi meiri hl. í Sþ. Enginn sparnaður þarf því að verða af þessu. En ég skil vel, að það, sem hér liggur á bak við, er það, að stjórnarflokkarnir vilja einir öllu ráða og skeyta ekkert um, þó þeir brjóti á bak aftur allt lýðræði í landinu og geri það að engu.

Þetta, sem ég hefi sagt hér nú, er bara til þess að bregða upp þeirri skrípamynd af þingræði, sem hér kemur fram, og ljósmynd af flokkseinræði stjórnarflokkanna. Ég tel svo ekki, að ég þurfi í bili að hafa mitt mál lengra, en ég verð vitanlega að taka til máls aftur, þegar mælt hefir verið fyrir till. einstakra hv. þm. og þegar ég hefi heyrt andmæli hv. stjórnarhluta n.