15.12.1934
Neðri deild: 60. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2259 í B-deild Alþingistíðinda. (2893)

106. mál, vélgæsla á mótorskipum

Emil Jónsson:

Ég vildi segja nokkur orð áður en atkvgr. færi fram, til þess að gera grein fyrir atkv. mínu. Þegar þetta mál var hér til umr. í d. áður, greiddi ég atkv. á móti því, að réttindi vélgæzlumanna væru aukin svo, sem frv. fór þá fram á. Þá var það svo, að hver, sem hafði stundað vélgæzlu við 50—150 hestafla vél í 36 mánuði, gat án nokkurra annara skilorða fengið að fara með 400 hestafla vél. Nú hefir þessu verið breytt svo í hv. Ed., að áður en þessi réttindi fáist, skuli viðkomandi hafa gengið undir próf, sem fara á fram samkv. reglugerð, sem atvmrh. gefur. Þetta tel ég næga tryggingu fyrir því, að ekki fái aðrir þessa réttarbót en þeir, sem hana eiga skilið, og get ég því greitt atkv. með frv. eins og það nú er orðið.

Um gufuvélstjóra gilda nú þær reglur, að hann þarf að hafa stundað nám í smiðju í 3 ár, og gengið í 2 ár í Vélstjóraskólann, miðað við gufuvélar. Og þeir hafa fengið viðurkenningu fyrir því, að þeir séu vel starfshæfir við þær vélar, þegar þeir koma úr skólanum. En nú eru gufuvélar og mótorvélar mismunandi hlutir, og þó að maður sé góður gufvélstjóri, þá er ekki þar með sagt að hann sé góður mótoristi. En margir góðir mótoristar hafa náð mikilli leikni í sínum fræðum, þó að þeir hafi ekki átt kost á skólamenntun. Ég vil, að slíkum mönnum sé leyft að ganga undir próf og sanna kunnáttu sína, og njóta síðan hlunninda samkv. henni. Það er með mótora eins og flestar stórar vélar, að mikil ábyrgð hvílir á mönnum þeim, sem með þær fara, t. d. oft mörg mannslíf. Það er því þýðingarmikið, að þeir séu öruggir í starfi sínu og fróðir um það. — En réttindi eiga menn að fá, ef kunnáttan er nóg til að standast prófið, sem gert er ráð fyrir í frv., hvort sem sú kunnátta er fengin í skólum eða með öðrum hætti. Ég mun því fylgja frv. í þess núv. mynd.