30.11.1934
Sameinað þing: 17. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 297 í B-deild Alþingistíðinda. (301)

1. mál, fjárlög 1935

Ásgeir Ásgeirsson [óyfirl.]:

Ég flyt eina till. við þennan part fjárl., og hún er um það, að dýrtíðaruppbót embættismanna fái að halda sér næsta ár sama og verið hefir á yfirstandandi ári. Till. fjvn. gengur út á það, að dýrtíðaruppbótin hverfi hjá embættismönnum á launum, sem eru fyrir ofan 4600 kr., eða að dýrtíðaruppbót og laun nemi aldrei meiru samtals en þessari fjárhæð, nema launin ein út af fyrir sig séu hærri. Auk þess flytur n. till. um það, að stj. framkvæmi nokkrar launalækkanir á þeim embættismönnum, sem eru utan launal. Nú skal ég geta þess, að það er mikill munur á launum þeirra starfsmanna, sem eru undir launal., og þeirra, sem eru utan launal. Þetta er eðlilegt, og ástæðan er sú, að þær stöður, sem eru utan launal., eru allar nýrri og þess vegna miklu meira tillit tekið til þess, þegar þau laun voru ákveðin, hvað nú er orðið dýrara að lifa. Nú hafa laun þeirra, sem eru undir launal., og hinna, sem taka laun sín utan launal., lækkað mikið á síðasta ári. Þó hafa laun launalagamanna lækkað miklu meira en hinna.

Ég get getið þess, að 1928 fengu þeir menn, sem voru undir launal., 40% dýrtíðaruppbót. Hún var greidd 1928—1931. En árið 1931 var hún lækkuð á hvorumtveggja, en lækkunin hefir verið sú, að þeir, sem eru undir launal., eru nú komnir úr 40% dýrtíðaruppbót niður í 15%, en þeir, sem hafa starfað utan launal., hafa aðeins fengið eina lækkun á sínum launum. Hún var framkvæmd 1932 í ársbyrjun, og þá lækkuðu laun þeirra um 15%. Síðan hafa laun þeirra ekki lækkað, þó að dýrtíðaruppbót annara starfsmanna hafi lækkað að miklum mun. Það er því bert, að það er bæði munur á því, hversu mikið hafa lækkað laun þeirra, sem eru undir launal. og utan þeirra, og eins hvað stofnlaun hvorratveggja hafa verið og eru misjöfn.

Ef ætti að lækka laun starfsmanna ríkisins, ætti að gera það svo, að koma á samræmi í launakjörum þeirra, og þyrfti þá að lækka þó nokkuð laun þeirra, sem eru utan launal., áður en kæmi að launalagamönnum. Mín till. byggist á því, að ef eigi að lækka laun starfsmanna ríkisins, þá mætti helzt lækka á utanlaunalagamönnum, til samræmis við laun hinna, sem hafa laun samkv. launal., en þegar svo langt er komið, þá er ókleift að lækka laun hvorratveggja svo að nokkru nemi úr því. Mín till. kemur því í staðinn fyrir fyrri till. fjvn., en þar fyrir mætti samþ. síðari till. um þá, sem starfa utan launal., en þó skal ég geta þess, að þeir munu sízt ofhaldnir, svo að ég mun líka greiða atkv. á móti þeirri till.

Þeir, sem þiggja laun samkv. launal., eru engir hálaunaðir. Hæstir eru hæstaréttardómarar, um 10000 kr. á ári. Mun flestum bera saman um það, að sízt séu laun þeirra of há, enda munu þau vera helmingi lægri en samskonar starfsmenn hafa hjá nágrannaþjóðunum. Og þegar þess er gætt, að þeir hafa ekki leyfi til að vinna fyrir sér með öðru móti, þá munu þeirra laun sízt of há. Aðrir starfsmenn hafa hæst 8000 og svo 7000 og 6000 og niður í 5000, og þeir mega ekkert af sínum launum missa, og svo má vitanlega benda á menn, sem hafa ennþá lægri laun. En það er sama, hvernig þjóðskipulaginu er fyrir komið, þá verður alltaf munur á launum manna, og hann hlýtur alltaf að stafa af því, að menn þurfa misjafnan undirbúning og lærdómstíma undir sitt starf, og það verða alltaf gerðar mismunandi kröfur til lifnaðarhátta og framkomu manna, eftir því hvaða starfi þeir gegna. Það mundi ekki þykja hlýða í okkar landi, að hæstaréttardómarar gengu eins klæddir að dómsstörfum eins og verkamenn til vinnu sinnar, og fleira mætti þar benda á. Launamunur þarf að vera, og launamunur verður aldrei jafnaður að fullu, en þar fyrir má ákveða vissar reglur um það, hve mikil þurftarlaun manna í hverri stétt þurfi að vera, og þau verða jafnan mismunandi. En ef menn viðurkenna það, að enginn þeirra, sem taka laun eftir launal., beri meira úr býtum en nauðsynleg þurftarlaun, þá er engin sanngirni að taka af þeim þá dýrtíðaruppbót, sem þeir fá nú. Þegar um er að ræða skattaálagningu og launalækkun, þá ber fyrst og fremst að taka tillit til þess, hvað viðkomandi menn verða að hafa mikil laun, til þess að þeir geti staðið í stöðu sinni eftir þeim kröfum, sem gerðar eru á hverjum tíma.

Um sama leyti og þessi till. var gerð, barst hingað erindi frá háskólakennurum Íslands, þar sem þeir ræða að vísu ekki um laun án dýrtíðaruppbótar, heldur að laun þeirra með dýrtíðaruppbót séu algerlega óviðunandi. Þessi umsókn háskólakennaranna um launahækkun er fullkomlega rökstudd. Ég skal ekki fara lengra út í þeirra umsókn, en það hefir líka komið til þingsins frá menntaskólakennurunum umsókn um launahækkun, en hún er skrifuð svo seint, að þeim var kunnugt um lækkunina á dýrtíðaruppbótinni, eða að hún yrði strikuð út að fullu. Þessi umsókn er þess vegna m. a. miðuð við að sýna fram á, að ókleift yrði að standast þá lækkun, sem yrði á launum þeirra, ef dýrtíðaruppbótin yrði felld niður. Með leyfi hæstv. forseta vil ég lesa upp nokkurn kafla úr erindi þeirra. Þar segir svo:

„Það er óhætt að segja, að enginn kennari við skólann, sem ekki hefir getað aflað sér verulegra aukatekna, hefir komizt hjá því að safna skuldum nú hin síðari árin. Þetta ætti strax að verða ljóst af því, að hæst launuðu kennarar menntaskólans eftir launalögunum hafa nú á mánuði hverjum 445 kr. sér til lífsviðurværis, og ef tillagan um burtfellingu dýrtíðaruppbótarinnar verður að lögum, eiga þeir að hafa 387.50 kr. á mánuði frá næsta nýári. Þetta eru sem sagt laun yfirkennara skólans, aðrir fá minna, allt niður í 306 kr. á mánuði. Nú er það að vísu augljóst, að þessi laun eru svo lág, að það er alls ekki hægt að lifa af þeim á þann hátt, sem þjóðfélagið í rauninni heimtar af oss. En hitt er þó engu betra, að með þessum launakjörum er oss, kennurum skólans, sýnd sú lítilsvirðing, sem hart er undir að búa, þar sem þó mun talið, að vér gegnum mikilvægu starfi, er vér þykjumst færir um að gegna og kostað hefir langan undirbúning og mikið fé.

Þótt nú launakjör vor séu bágborin í samanburði við kjör annara starfsmanna ríkisins, bæði þeirra, er taka laun sín samkv. launalögum, og hinna, sem utan launalaganna eru, þá verða þau þó enn verri í samanburði við launakjör bankamanna og starfsmanna bæjarfélagsins. Bæjarfélagið greiðir starfsmönnum sínum 40% í ofanálag á laun þeirra án tillits til nokkurrar vísitölu, en dýrtíðaruppbót vor hefir aðeins verið 15% hin síðari árin og á nú að falla burt.

Af þessu, sem nú hefir verið sagt, vonum vér, að hinu háa Alþingi megi skiljast, að ekki megi koma til mála að spilla launakjörum vorum. Vér lítum svo á, að eigi séu nein frambærileg rök til þess, að vér eigum að búa við miklu verri kjör en aðrir starfsmenn þjóðfélagsins í sambærilegum stöðum, og enn miklu verri launakjör en starfsbræður vorir í nágrannalöndunum, og það þrátt fyrir það, að ástæður vorar, sem flestir höfum orðið að stunda nám í útlöndum árum saman, eru að ýmsu leyti erfiðari en þeirra og dýrara að lifa hér en í löndum þeim, sem nefnd voru“.

Það þarf ekki að lesa meira af þessari umsókn kennara menntaskólans. Laun þeirra eru óbærileg eins og þau eru, og ef þau lækka frá því, sem nú er, þá er þeim sýnd lítilsvirðing og þeim gert illmögulegt að gegna sínu starfi vegna þeirra miklu aukastarfa, sem þeir yrðu að leita sér til þess að geta séð fjölskyldum sínum farborða. Það væri því mesta harðneskja af þinginu að framkvæma slíka launalækkun.

1932 var þegar gerður munur á dýrtíðaruppbót þeirra, sem höfðu hærri og lægri laun, en nú er það svo, að þeir, sem hafa laun fyrir neðan 3000 kr., fá 25% dýrtíðaruppbót, en hinir 15%. En nú á að gera muninn ennþá meiri, svo mikinn, að það á að greiða þeim lægra launuðu 25%, en þeim, sem hafa laun yfir 5000 kr., enga dýrtíðaruppbót. Þetta er ranglæti og misrétti. Þá mundu t. d. kennarar og skólastjórar ekki fá hærri laun en t. d. matsveinar á togurum. Það eru að vísu virðulegar stöður, en útheimta þó ekki nærri því eins mikinn undirbúning og þekkingu og verður að heimta af kennurum.

Nú er það að vísu sagt, að þessir starfsmenn ríkisins verði að taka þátt í hinum vondu tímum, sem yfir standa, og verði því að lækka laun sín eins og þeir, sem stunda framleiðsluna. En þetta er það, sem þeir nú gera, því að þeir fá nú minna fyrir sitt starf en þeir fengu áður, því að sannleikurinn er sá, að laun þeirra hafa lækkað stórlega. 1920 var dýrtíðaruppbótin 120%, 1925 lækkaði hún niður í 67%, 1928 niður í 40%, en sú uppbót stóð í 4 ár; nú er dýrtíðaruppbótin á hærri laun 15%. Þetta gerir vitanlega það að verkum, að þeir, sem þiggja laun samkv. launal., hafa nú miklu minna að bíta og brenna en áður. Nú er svo komið, að dýrtíðaruppbótin á hærri laun er ekki nema rúmlega 1/10 af því, sem hún var fyrir 12 árum, og eftir þeirri reglu, sem fylgt hefir verið, þá er hún um 1/6 á lágu launin, miðað við það, sem áður var. Þessi lækkun er miklu meiri en lækkun innlendra matvæla á innlendum markaði. Og nú 1934 er dýrtíðaruppbótin 20% af sömu verðhæð. Á þessu sést, að embættismenn hér á landi berjast enn mjög í bökkum, og bera jafnvel öllu þyngri byrðar kreppunnar en þeir, sem orðið hafa fyrir verðlækkun afurðanna. Á fyrsta ári kreppunnar, 1931, gekk sú alda yfir heiminn, og náði einnig nokkru fylgi hér á landi, að ráðið til þess að koma jafnvægi á, væri að lækka laun manna. Þessi aðferð reyndist svo, t. d. í Bandaríkjunum og Þýzkalandi, að atvinnuleysi jókst um helming frá því, sem áður var. Árangurinn varð því sá, að menn hér í álfu og Norður-Ameríku eru fallnir frá þessari launalækkunar-pólitík. Ný stefna hefir aftur rutt sér til rúms. Nýr sannleikur, sem við þurfum að fara að viðurkenna á okkar landi, að höfuðatriðið til þess að viðhalda heilbrigðu atvinnulífi sé að varðveita kaupgetuna. Þetta er ný stefna, sem ekki hefir verið gætt hér sem skyldi. Þó virðist mér ekki örgrannt, að örlað hafi fyrir henni hjá hæstv. stjórn, enda þótt sá gamli tónn sé ennþá svo mjög ríkjandi meðal helztu stuðningsmanna hennar, sumra a. m. k., að þeir hafa borið fram andstæðar tillögur. Gamli hugsunarhátturinn, að há laun séu bölvun fyrir þjóðfélagið, er að hverfa og á að hverfa fyrir hinum nýja sannleika, að há laun skapi kaupmátt. Innanlandsmarkaðurinn byggist á því, að kaupstaðirnir séu stórir, og að þeir, sem í þeim búa, hafi getu til þess að kaupa hina innlendu framleiðslu. Þegar verið er að gera ráðstafanir til þess, eins og nú, að hækka verðlag á landbúnaðarafurðum, verður jafnframt að sjá um, að einhverjir séu til þess að kaupa þær. Kaupmáttur þeirra, sem í kaupstöðunum búa, verður að aukast að sama skapi, svo að þeir geti keypt hina innlendu framleiðslu. Í þessu sambandi er vert að geta þess, að síðan fyrir 1930, eða öll kreppuárin, hafa laun verkamanna aldrei lækkað. Þau hafa staðið í stað öll þessi ár. Ég held því, að allir, sem vilja líta á þessi mál með sanngirni, hljóti að sjá, að það er ekki hægt að lækka laun embættismanna, eins og nú er málum komið, þar sem líka dýrtíðaruppbótin er ekki nema 1/10 hluti af því, sem hún var áður, og ekki nema 1/5 partur af hækkun afurðaverðsins frá því 1914.

Hvað snertir þessar umræddu brtt. á þskj. 582, 2. b—c., þá hygg ég, að þær séu sprottnar af þeirri „agitation“ sem gekk yfir landið 1930—'31—'32, að dýrtíðaruppbót gæti ekki átt sér stað, og að laun öll yrðu að lækka. Eigi að vera samræmi í afgreiðslu mála hér á Alþingi, þá verður einnig að sjá um það, að þeir, sem í kaupstöðunum búa, jafnt embættismenn sem aðrir, hafi kaupgetu til þess að halda uppi verðlagi afurðanna. Till. mín er því í samræmi við hina nýju stefnu, sem hér virðist vera farið að brydda á, þó lítið sé. Hún munar ekki miklu fyrir hag ríkissjóðs, en hún munar töluverðu fyrir hag þeirra starfsmanna, sem lækkunin annars myndi lenda á.

Þó að horfið verði að því ráði að lækka laun þeirra starfsmanna, sem taka laun sín utan launalaga, þá verður aldrei lækkað meira við þá en í samræmi við hina, sem taka laun samkv. launalögum. — Læt ég svo útrætt um þetta mál, og vænti þess, að hv. alþm. hendi ekki sú heimska, að skilja ekki, að það er lífsnauðsyn, til þess að halda uppi afurðaverðinu, að varðveita kaupgetu þeirra, sem afurðirnar eiga að kaupa.