30.11.1934
Sameinað þing: 17. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 308 í B-deild Alþingistíðinda. (305)

1. mál, fjárlög 1935

Frsm. meiri hl. (Jónas Jónsson) [óyfirl.]:

Það er nú um það bil sólarhringur síðan ég talaði hér í gærkveldi, og margt hefir verið sagt um fjárl. á þeim tíma, en ég mun ekki eyða miklum tíma til þess, heldur snúa mér að hv. frsm. minni hl., sem talaði ýtarlega um málið frá sjónarmiði Sjálfstfl. Það kom fram hjá þessum hv. þm. sá misskilningur, að fjárstyrkur til rafveitunnar á Hallormsstað væri sambærilegur við rekstrarstyrk húsmæðraskólanna. Þessi styrkur er settur í fjárl. sem einföld fjárveiting til skólans, alveg eins og Blönduósskólinn fær styrk fyrir sitt fjós eftir till. meiri hl. og kemur ekkert rekstrinum við. — Að því leyti, sem hv. þm. minntist á 5 þús. kr. til héraðsskólanna, þá er ekkert tekið nánar fram um það í frv. stj., en mér er kunnugt um það, að einmitt frá þeim tíma, sem hv. 1. þm. Skagf. var í stj., var einskonar loforð gefið um það, að það skyldi vera í fjárl. nokkur styrkur upp í rafveituna á Laugaskólanum. Þessi rafveita kostaði 50 þús. kr., og meira þó vegna ýmsra óhappa við bygginguna. Það hafa verið teknar 18 þús. kr. að láni í Brunabótafél. með samþykki stj., og er það sá hluti, sem gert var ráð fyrir, að ríkið legði fram, en er í raun og veru of lítið. En því hefir ekki verið hreyft af meiri hl.

Annars er það auðgefið, að úr því að 32 stúlkur eru á Blönduósskóla, sem hefir 14 þús. kr. styrk, og 30 stúlkur eru á Hallormsstað, sem hefir 9 þús. kr. styrk, þá er ekkert, sem bendir til þess, að ódýrara geti verið á Hallormsstað. Þessi tilfærsla er því miðuð við það, að eitthvert hlutfall sé milli framlagsins, annaðhvort verður að hækka við Hallormsstað eða lækka við Blönduós, en eftir till. meiri hl. er Blönduósskólinn talsvert hærri ennþá, án þess að hægt sé að benda á nokkurt réttlæti í því. Þetta ósamræmi kemur af því, að engin l. eru til um þessar stofnanir eða styrki til þeirra, og vildi ég því mega vænta, að stj. bæti úr því.

Þá mælti hv. frsm. minni hl. á móti því, að lagðar væru 20 þús. kr. til Flensborgarskólans, honum til endurbyggingar, og gagnfræðaskóla í Reykjavík. Hann álítur óheppilegt að ráðast í þetta á þessum erfiðu tímum, það kosti mikið útlent efni o. fl. Þetta eru í raun og veru skynsamleg rök, en hér ber það á milli, að síðan kreppan hófst, hefir verið byggður fjöldi af villum í Rvík og Hafnarfirði af einstökum mönnum, sem hafa í raun og veru ekki efni á því, heldur byggja fyrir lánsfé, sem þannig er dregið út úr atvinnulífi þjóðarinnar. Það, sem ber á milli hans flokks og okkar, sem styðjum hæstv. stj., er það, að við álítum, að draga eigi úr svona byggingum, en kosta kapps um að byggja yfir bið starfandi fólk í landinu. —Fjárveitingin til þessarar skólabyggingar er mjög hófleg og sannarlega miðuð við kreppuna, þegar maður lítur á það, hvað annars er byggt hér, og það einmitt sérstaklega af flokksbræðrum hv. 1. þm. Skagf., sem hafa byggt hér í Rvík á undanförnum árum meira af dýrum húsum heldur en dæmi eru til í víðri veröld í tiltölu við fólksfjölda, og þó áreiðanlega af minni efnum hér en annarsstaðar.

Út af till. um að færa Einar Helgason aftur til Búnaðarfél., þá komu engin skynsamleg rök gegn því. Búnaðarfél. vill hrinda honum af sér, ekki af því að hann sé ekki mætur maður, heldur aðeins af því, að það vill láta landið kosta garðyrkjuna. En nú er farið fram á, að Búnaðarfél. hafi garðyrkjuna líka, og þegar Einar Helgason hættir störfum, sem við skulum vona að ekki verði í bráð, þá eigi líka félagið að styrkja hann á elliárunum, eins og það borgar ellifé til eins af sínum gömlu starfsmönnum, sem þó ekki hefir unnið eins lengi og hann.

Hvað Jóhann Kristjánsson snertir, þá er það alls ekki meiningin, ef farið verður að lækka laun yfirleitt, að hann eigi að vera yfir launalækkun hafinn frekar en aðrir. En það, sem ber á milli, er það, að meiri hl. n. segir, að þessi maður sé fyrst og fremst starfsmaður Búnaðarbankans, sem hefir mikinn sjóð, sem landið leggur til og notaður er til húsbygginga í sveitum. Nú er gert ráð fyrir 300 þús. kr. úr ríkissjóði, sem á að fara gegnum hendur þess manns til bygginga. Það leiðir því af sjálfu sér, að þegar Alþ. fær svona stofnun eins og Búnaðarbankanum þetta mikið fé, þá er alls ekki viðeigandi að borga með því alveg sérstaklega til teiknimeistara. Ég lít svo á, að bankinn geti ekki sóma síns vegna annað en borgað sínum starfsmanni, jafnvel þó hann hjálpaði eitthvað einstökum bændum með teikningar, öðrum en þeim, sem beinlínis taka lán í Búnaðarbankanum, og að varla sé viðeigandi fyrir bankann að gera sérreikning fyrir því. A. m. k. er það alveg vitað, að 4 þús. kr. í þessu skyni er margfalt meira en það, sem vinnukraftur þessa manns getur látið í té umfram það, sem hann vinnur fyrir bankann sjálfan.

Hv. frsm. minni hl. var undrandi yfir því, að meiri hl. skyldi ekki leggja til með styrk til Elliheimilisins hér í bænum. Hér er nú ekki barizt um mikið, fáein þús., og í þeim mikla rekstri, sem þetta hæli hefir, þá er þetta meira sem viðurkenning heldur en að það hafi nokkra þýðingu. Þetta hús kostaði mörg hundruð þús., reksturinn er dýr og yfirleitt þannig, eins og ég tók fram í minni fyrri ræðu, að í þessa stofnun geta ekki farið aðrir en þeir, sem eru talsvert vel efnaðir, enda er það mála sannast, að á þetta hæli hefir farið margt mjög vel efnum búið gamalt fólk, og er ekki nema gott um það að segja. Þetta er ágætt og mikil bót í þessu myndarlega húsi, en það er bara ekki neitt fátækrahæli. Ef það hefði átt að vera fyrir fátæka fólkið, hefði það ekki verið byggt í miðjum bænum, heldur t. d. austur í Ölfusi á eignum ríkisins þar, og þá sennilega verið byggt úr timbri og að öllu leyti miklu ódýrara heldur en þetta hús er. Það, sem ríkið á því að gera, er að hjálpa fátækum sveitarfélögum til að koma fyrir fátæku gömlu fólki, því það er alger misskilningur hjá hv. frsm. minni hl., að þetta hæli sé fyrir fátæklinga, og þó hægt sé að hafa þarna 3—4 fátæklinga fyrir þennan styrk, þá munar það engu. Það er engin félagsleg lausn. Þetta hæli er miðað við efnaða fólkið og þýðir ekkert að fleygja í það 4 þús. kr. Þegar á að taka á því stóra sósíala spursmáli um gamla fátæka fólkið, verður að sjá því fyrir öðruvísi hæli. Gamalmennahælin á Ísafirði og Seyðisfirði fá örlítinn styrk, og er þar miðað við þá þörf, sem þar er fyrir hendi. Ég hefi komið á öll þessi heimili, og ég játa, að það er allt miklu fullkomnara hér, enda miklu dýrara, en á Ísafirði og Seyðisfirði er það fátæka fólkið, sem hlut á að máli, og þess vegna þarf að styrkja það. Þetta er því engin „hefnd“ á gamalmennin, eins og hv. þm. var að tala um. Það er eins og fátækur maður færi inn á ódýrt gistihús, en efnaður maður inn á dýrt gistihús. Enginn mundi álíta, að hv. 1. þm. Skagf. væri að hefna sín á fátækum bónda norðan úr Skagafirði, þó hann vísaði honum á ódýrt gistihús, þar sem hann hefði ekki efni á að taka t. d. 12 kr. herbergi á Hótel Borg. Menn mundu einmitt þvert á móti álíta hann góðviljaðan og skynsaman.

Hæstv. fjmrh. hefir svarað hv. frsm. minni hl. út af launum þeirra samningsbundnu. Ég ætla þó að minnast á við hv. frsm., til þess að þetta skýrist betur, að eftir till., eins og hún er orðuð, gæti maður hugsað t. d., að sagt yrði við Eimskipafélagið: Ef þið viljið fá þennan styrk, þá verðið þið líka að lækka laun ykkar hæstu manna. — Forstjórinn hefir líklega 2½2 sinnum meiri laun en forsrh. eftir að dýrtíðaruppbótin er fallin niður. Ég skal ekki segja, hvað Eimskipafélagið mundi segja um þetta, en óneitanlega mætti spara á þessu. Þá getur maður nefnt Fisksölusamlagið. Það þarf að leggja 2 þús. kr. í lófann á hverjum framkvæmdarstjóranum á mánuði. Hvað er við þessu að segja? Bankarnir hafa komið Fisksölusamlaginu á; ríkið á bankann. Það væri auðvelt fyrir ríkið að segja við bankaráðið, að ef myndað er skipulag eins og Fisksölusamlagið, þá megi þetta ekki viðgangast. Ég er með hv. 1. þm. Skagf., að eitthvað slíkt þarf að gera á næstu árum, en ég er ekki viss um, að hann átti sig á, að það þarf að fara svona langt og ennþá lengra. Hann talar um það, að tekju- og eignarskatturinn rífi gjaldstofnana af sveitarfélögunum. Ef maður lítur yfir útsvarsskrárnar og þær heimildir, sem maður fær um tekjurnar í bænum, þá sér maður, að það er fjöldi manna, sem hefir yfir 20 þús. kr. tekjur af verzlun og ýmsu öðru. Heldur hv. 1. þm. Skagf. virkilega, að á þessum krepputímum sé það, sem beinlínis þurfi með, að þessir menn séu ekki nokkuð lækkaðir einmitt til þess að minnka eyðsluna? Það eru þessir menn, sem borga svo hátt á skrifstofum sínum, að ómögulegt er fyrir ríkið að keppa við þá. Það eru þessir menn, sem hafa valdið því, að við hv. 1. þm. Skagf. höfum orðið að gjalda ýmsum mönnum hærra en við vildum fyrir þau verk, sem þeir unnu fyrir þjóðfélagið. Þegar við hv. 1. þm. Skagf. deildum fyrir nokkrum árum um kaup skipstjóranna á varðskipunum, og hann vildi hafa það 12 þús. kr., en ég nokkru minna, þá er ég viss um, að það, sem honum gekk til, var það, að hann sá, að skipstjórar hjá einkafyrirtækjum höfðu margfalt meira. En ég var meiri sparsemdarmaður en hv. þm., og mér tókst að fá skipstjórana til að vinna fyrir minna kaupi. — Mér hefir verið sagt um einn þekktan togaraskipstjóra hér í bæ, að hann hafi verið milli skipa í eitt ár og á meðan verið borgaðar 50 þús. kr. í laun. Heldur hv. þm., að það sé nokkurt spaug fyrir þjóðfélagið að fást við kaupgjaldið, þegar einkafyrirtækin borga svona? Ég vona, að þessi orð mín verði til þess, að sjálfsagt þyki að nota tekju- og eignarskattinn til þess að venja einkafyrirtækin af því að borga svona kaup.

Ég hygg, að það, sem fyrir stj. hefir vakað með því að hækka tillög til verklegs náms erlendis, sé það, að nú á þessum krepputímum, þegar við verðum að reyna að búa við okkar eigið í sem flestum efnum, sé hyggilegast að senda út unga menn til að nema verklega hluti, sem síðar geti orðið sparnaður heima fyrir, og vona ég því, að hv. minni hl. n. sætti sig við það.

Hvað því viðvíkur, sem hv. frsm. minni hl. heldur fram, að hér muni verða mikil atvinna næsta sumar vegna Sogsins, þá er nú ekkert víst um það ennþá. Skeyti, sem hingað hafa komið, benda til þess, að þetta geti skeð, en við vitum, að auðvelt er það ekki fyrir borgarstjórann að útvega þetta lán. En eins og hv. þm. tók fram, verður sú vinna fyrst og fremst hér í Rvík, en það þarf nú víðar að lifa á landinu. Atvinnubótastyrkurinn er áætlunarupphæð og neyðarráðstöfun. Hv. þm. hefir haft með þessa hluti að gera og þekkir erfiðleikana við þá. Hann veit, að það er ekki auðvelt að komast hjá því að hafa þessa peninga. Það er aðeins dálítill skoðanamunur milli hans og núv. atvmrh. um það, hvað mikið þetta fé eigi að vera. En í sjálfu sér vildu náttúrlega allir vera með hv. þm., ef bara væri hægt að lækka þetta, því það er neyðarúrræði. Við verðum að athuga, að það lítur ekki beinlínis vel út með atvinnulífið; við vitum, að ¼ hluti af þeim fiski, sem hingað til hefir verið sendur til Spánar, verður nú ekki sendur þangað og að ekki er enn búið að finna markað fyrir hann. Það verður að takmarka fiskframleiðsluna, fækka fólkinu við þá atvinnu. af því að ekki er hægt að selja fiskinn. Vonandi tekst að finna nýja markaði, og þingið er allt á einu máli um að vinna að því sem mest má vera. En það er ekki búið. Og ef á að halda lífinu í fólkinu, er betra að gera það með atvinnubótavinnu heldur en atvinnuleysisstyrk. Um það geta allir verið sammála.

Hv. frsm. benti réttilega á, að það mundi verða ákaflega erfitt fyrir bæina að leggja fram þetta fé, 2/3 framlags á móti. Við skulum hugsa okkur, að atvinna verði svo lítil, að hungursneyð verði í landinu. Hvað á þá að gera? Ég hygg, að í raun og veru sé mikill skoðanaskyldleiki milli núv. atvmrh. og fyrirrennara hans um það, hvernig eigi að taka á þessu máli. Það, sem mér skilst að fyrir liggi, er þetta, að mjög sé hætt við, að sumstaðar á landinu vanti atvinnu og því verði að skapa hana, og að þessi bæjarfélög, sem ekki hafa efni á að leggja fram það, sem þarf, fái ekki lán. Við höfum nú nýlega séð það, að ríkasta bæjarfélagið á landinu, Reykjavík, var í vandræðum með að fá ofurlítið lán hér við dyrnar á bönkunum. Ef þetta færi svona, eins og mér finnst margt benda til, þá veit ég, að hv. 1. þm. Skagf., ef hann væri aftur orðinn atvmrh., og núv. atvmrh. mundu báðir fara eins að, reyna að skapa einhverja atvinnu.

Þá kom hv. frsm. minni hl. að verkamannabústöðunum og bændabýlunum. Ég er búinn að minnast lítillega á þetta, og við nánari athugun hygg ég, að hv. þm. muni sannfærast um, að ef á annað borð er hægt að gera þetta, að hafa þetta framlag, þá er það nauðsynlegt. Fólkinu fjölgar hér á landi um 700 karlmenn og 700 stúlkur á ári. Þetta fólk vex upp, giftist og vill mynda heimili. Hvað á að gera? Á að pakka þessu fólki saman í kjöllurum bæjanna eða á hanabjálkaloftum, eða kannske láta það vera húsnæðislaust? Þegar menn líta yfir þjóðarhaginn, þá eru menn í aðra röndina stoltir af þessari fjölgun og finnst þetta vera einhver bezta eign hvers þjóðfélags. En skyldurnar fylgja með. Nú vil ég segja hv. 1. þm. Skagf. alveg græskulaust, að það er dálítið erfið fórn, að láta 100 þús. kr. til verkamannabústaða og 100 þús. kr. til sveitabústaða. Búnaðarbankinn lánar nú ekki nema 4—5 þús. kr. til að byggja sveitabæ, og mér er kunnugt um, að tugir manna vildu gjarnan fá þessi lán, þótt ekki væri nema 3 þús. kr., og fyrir þessar 100 þús. er hægt að byggja yfir 50 fjölskyldur, ef veittar verða. Nú vil ég, án þess að glettast við hv. þm., minna á, að hann hefir fyrstur komið á tóbakseinkasölunni hér á landi sem skattamáli. Þessi einkasala hefir reynzt það vel, að hún gaf meiri tekjur en menn nokkurntíma bjuggust við. Flokkur hv. þm. neyddi hann til að leggja þetta fyrirtæki niður, vegna þess, að þeir vildu ekki þá tegund verzlunar. Einkasölunni var komið á aftur, af þeim flokkum, sem nú hafa meirihlutaaðstöðu í þinginu, og í samningi, sem þeir flokkar gerðu með sér, sem er opinber og ekkert pukur, var því slegið föstu, að kaupmannsgróðinn, sem slegizt var um milli Framsfl. og Alþfl. annarsvegar og Sjálfstfl. hinsvegar, skyldi ganga til þess að byggja yfir fátækt fólk í sveitum og við sjó. Meira að segja allur kaupmannsgróðinn skyldi fara til þessa. Nú bið ég hv. 1. þm. Skagf. að athuga það, að ef við hefðum ekki með samningum á þingi 1931, sumarþinginu, komið þessu í gegn, þá hefðu allir peningarnir, þessi 200 þús. og miklu meira, sem nú renna í ríkissjóð, alls ekki þangað komið. Þetta er fundið fé nú, þessar 200 þús. og hitt, sem fer beint í ríkissjóð. Hefði aftur á móti hv. 1. þm. Skagf. verið í meiri hl. eftir samningana 1931, þá hefðu þessi l. ekki náð fram að ganga, og ef hann væri í meiri hl. nú, myndi hann sennilega setja allt í sama horfið. Hann getur ómögulega harmað það, þótt staðið sé við þennan samning, hann, sem er svo glöggur lögfræðingur. Þetta fé hefði ekki getað verið handbært nú fyrir ríkisstj. nema af því að hann var í minni hl. á þinginu, sem þetta gerði. Það getur vel verið, að erfitt verði að standa við þetta, erfitt að kaupa sement og járn o. s. frv. En ég vil biðja hann að taka sér skemmtigöngu frá Leifsstyttunni niður á Laufásveginn, ganga þar síðan eina eða tvær ferðir eftir götunni frá kennaraskólanum heim að hans eigin húsi, og athuga þá prýði bæjarins, sem þar gefur að líta, húsin, sem byggð eru fyrir gróða eins og gróðann af tóbakseinkasölunni. Móti þessu koma svo hús eins og í Holtsmúla, sem er byggt fyrir fé úr byggingar- og landnámssjóði. Þegar hv. þm. kemur úr þessari skemmtigöngu og hefir athugað málið, hygg ég, að hann skilji, að það er betra að láta fólkið í sveitinni fá 4 þús. kr. til þess að byggja yfir sig nýjan bæ heldur en láta eina fjölskyldu byggja yfir sig slík hús, sem standa í hinu umrædda hverfi, þótt aldrei nema sú eina fjölskylda tilheyri máttarstólpunum í flokki hv. þm.

Þá kom hv. þm. að því, sem hefir orðið mest umtalað við þessa umr., en það er klásúlan um Búnaðarfél. Nú er bezt að athuga það glögglega, hvort þessi aths. er nokkuð voðaleg. Í henni er áskorun til stj. um það, að athuga fyrir næsta þing fast skipulag Búnaðarfél. Ísl. Nú er það engin goðgá út af fyrir sig, þótt svo sé ákveðið, þar sem þessari stofnun er falið að úthluta, eða úthlutar upp á eigin spýtur um það bil 200 þús. kr. á ári. Það getur enginn láð þinginu þótt því sé ekki sama, hvaða skipulag þessi stofnun hefir. Annar liður aths. er sá, að fjárhagsáætlun Búnaðarfél. skuli vera háð samþykki landbúnaðarráðh. Þetta ákvæði er gamalt og hefir staðið í fjárl., sem hv. 1. þm. Skagf. stóð að sem meirihlutamaður ásamt sínum bandamönnum. Óánægjan getur því ekki verið í sambandi við það. Hinsvegar er það rétt hjá hv. 1. þm. Skagf., að ákvæðið er þess eðlis, að ríkisstj. getur beitt hreinni og beinni ósanngirni í þessu sambandi. En ég býst ekki við, að það verði gert. Það er hægt af hvaða landsstj. sem er að beita ósanngirni í sambandi við samþykkt slíkrar fjárhagsáætlunar, en þetta band hefir núv. þingminnihl. lagt á Búnaðarfél., og það meira að segja glaður, og enginn talaði um það. Svo kemur það, sem einnig er hér mikið talað um, að landbúnaðarráðh. skuli einnig samþ. ráðningu búnaðarmálastjóra, og að hann sé ekki nema einn. Þetta er þá nýjungin. Það er til þess ætlazt, að gengið sé hreint frá því, að búnaðarmálastj. sé aðeins einn. En nú kemur fram í umr. og í till. hjá hv. þm. V.-Húnv. og einum landsk. þm., sem er flokksbróðir hans, að það sé eitthvert ólag á þessu, þannig að þeir vilja binda þetta líka með ákvæði fjárl. Í stuttu máli: Flokkur þeirra manna, sem fyrst og fremst hafa verið með í því að leggja bönd á félagið, vill líka nú hafa bönd á því. Hvað er þá að? Það kemur í ljós, að annar búnaðarmálastj., hinn eldri þeirra, hefir í ýtarlegri skýrslu, sem hann gaf 1933, lýst yfir því, að Búnaðarfél. sé mjög ábótavant, og segir, að í nágrannalöndunum hafi það tekið langan tíma að koma þessum málum fyrir. Og hann eiginlega leggur til eða talar um, að svo geti farið, að búnaðarmálastj. verði hliðstæður embættismaður og vega- og vitamálastjóri, eða hreinn skrifstofustjóri í landbúnaðarráðuneytinu. Þetta segir maðurinn, sem hefir um mörg undanfarin ár verið athafnamestur í búnaðarmálum, þrátt fyrir það, að hann hefir ekki verið alfullkominn um allt, en gert svo marga góða hluti, að menn myndu unna honum þess að vera gerður að prófessor hvaða dag, sem væri, eins og mér finnst nú jafnvel liggja í loftinu. Hér er því ekki verið að tala um neina „ofsókn“. Þessi lítilfjörlega breyt. er rökstudd af þessum manni, sem hefir haft þessa löngu reynslu í búnaðarmálum og þekkir vel til þessara hluta erlendis. En ég verð að játa það, að það er því nokkuð örðugt fyrir hv. þm. V.-Húnv. og hans nánustu flokksfélaga að koma með ákaflega harðar árásir á stj. út af þessu máli, því að þeir vita það sjálfir, og sýna með sínum till., t. d. þessi hv. þm., að hann er ekki alveg viss um, að hann geti komið fram sínu „ideali“ nema gegnum ákvörðun hér, því að hann tekur það fram í sínum till., eða byggir á því, að búnaðarþingið hafi ekki um mörg undanfarin ár fengið að ráða sinn búnaðarmálastjóra, og þess vegna vill hann, að það sé sett sem skilyrði frá þingsins hálfu, að búnaðarþingið fái að gera þetta. Honum dytti ekki í hug að koma með þetta hér, ef hann héldi, að búnaðarþ. væri öruggt með að geta þetta sjálft. Og þetta er skynsamlegt, að gera þetta, af því að búnaðarþingið hefir ekki fengið að gera þetta eins og öllum er kunnugt. Ég vil taka dæmi, sem ég vona, að hv. þm. V.-Húnv., sem haldið hefir um þetta allýtarlega ræðu, bæði hér og í útvarpið, átti sig á. Ég sný mér sérstaklega að honum, því að hann veit það ósköp vel, að það hefir verið vilji bændanna í landinu, eins og ég tók fram í gærkveldi, að það væri aðeins einn búnaðarmálastjóri. Hvers vegna hefir þetta ekki gengið fram? Um mörg ár hefir meiri hl. í búnaðarfél.stj. verið myndaður af langfrægasta og mikilhæfasta manninum í flokki hv. þm. V.-Húnv. og einum af allra þekktustu bændum í Sjálfstfl., Magnúsi á Blikastöðum. Hafa flokksbræður þessara manna, langfrægasta mannsins í litla flokknum og eins af þekktustu bændum í Sjálfstfl., gert sér leik að því ódæði að halda þessum dragbít á félaginu um mörg ár, svo að þeirra eigin flokksmenn þurfi að koma fram með einskonar handjárn á þá til þess að fá þá til að leyfa búnaðarþinginu að vera í friði? Nei. Þetta kemur rétt fram hjá hv. þm. V.-Húnv. Hann segir rétt í sínum till. Hann byggir á því ástandi, sem er, að af einhverjum alveg leyndardómsfullum ástæðum hafi þessir mætu flokksbræður hans og hv. 1. þm. Skagf. verið hindrun fyrir því, að Búnaðarfél. væri frjálst. (PO: Það hafa líka verið menn úr Framsfl. á móti því). Ég bið hv. þm. Borgf. að athuga það vel, að þetta eru mennirnir, sem hafa valdið, (PO: Hverjir hafa valdið nú?), en hvorugur okkar hv. þm. Borgf. Við höfum e. t. v. kosið þessa mætu menn í stj. Búnaðarfél., en nú eru þeir þar og hafa verið þar með þessu valdi, og við, ég og hv. þm. Borgf. og aðrir stuðningsmenn þeirra, getum ekkert við því sagt meðan þeirra umboð stendur. Ég veit, að hv. þm. Borgf. neitar því ekki, að ef þessir menn hefðu viljað beita valdi sínu, þá hefðu launin löngu verið komin. Þá hefði ekki þurft þessa till. Ég vil biðja samstarfsmann minn úr fjvn. að fara ofurlítið aftur í tímann. bara til ársins 1923, og hvað skeður á því ári? Á fjölmennum fundi á Flúðum í Árnessýslu segir Sigurður Sigurðsson búnaðarmálastjóri í júní 1934: Á þessu þingi var gerð sú krafa af landbn. þingsins til mín, sem þá var aðalmaður Búnaðarfél., að afsala stjórnarvöldunum í fél. í hendur Alþ., ef við ættum að fá jarðræktarl. í gegn. — Sig. Sig. hafði undirbúið þessi l. að miklu leyti og honum var þetta mikið áhugamál, að þau kæmust á, og hann svaraði: Ég fann það vel, að þetta var skerðing á mínu valdi. — Ég man ekki, hvort hann var þá form. Búnaðarfél. eða búnaðarmálastjóri, en sem hinn áhugasami maður tók hann þann kost að láta þetta ganga út yfir sig, en ekki málefnið. Ég verzlaði hreinlega, sagði hann, um það, að Alþ. fékk vald yfir félaginu, en bændur fengu jarðræktarl. og jarðræktarstyrkinn. Hver var aðalmaðurinn í þessari verzlun? Var það ekki einn af þekktustu bændum Sjálfstfl., Þórarinn á Hjaltabakka, Og er það ekki vitað, að það kom fram í umr. um málið bak við tjöldin, að það yrði að gera þetta vegna þess, að Sigurður Sigurðsson búnaðarmálastjóri væri svo eyðslusamur, að það væri fjarstæða annað en að setja „handjárn“ á hann, og þau voru á hann lögð árið 1923, og hafa verið á honum, Búnaðarfél. og allri bændastétt landsins síðan. Og sá, sem getur talað gilt úr flokki um þetta, er Sig. búnaðarmálastjóri, sem fórnaði sínum eigin hagsmunum fyrir málefnið, og vil ég ekki lasta hann fyrir það. Svo líða nokkur ár, og þessi maður, sem hafði fórnað sínum hagsmunum og metnaði fyrir bændastéttina, lendir í deilu við búnaðarfélagsstj., sem síðan 1923 var skipuð af Alþ. Og ég vil ekki endurtaka það hér, hvernig þeirri deilu var háttað. Það kann að vera, að hann hafi haft eitthvað formlega rangt fyrir sér. Honum er margt betur gefið en formið. En þess er ég fullviss, að í hinu innsta eðli hlutarins hafði hann á réttu að standa. En um þetta urðu miklar deilur, og þess eðlis, að þær urðu raunverulega milli þingsins og bænda, því að þeir stóðu með Sig. Sig. í heild sinni, en þeirra þingkjörnu fulltrúar voru á móti honum. Og þar kom það fram, sem ég sagði við S. S. á Flúðum, að hann hefði ekki kunnað að verzla, ekki þurfi að gefast upp fyrir þinginu 1923. En það er önnur saga. En niðurstaðan var sú, eins og hæstv. forsrh. hefir skýrt ýtarlega frá, að af þessum undarlega klofningi og þessari óhagstæðu verzlun 1923, þegar handjárnin voru sett á félagið, henti allskonar óheppni félagið. Svo kom deilan um málefni, sem aldrei verður útkljáð til fulls og enginn hefir glaðzt af og enginn fengið sigur eða ósigur í, bændur, búnaðarþingið og Sig. Sig. annarsvegar, hinsvegar Alþ. og hinir þingkjörnu menn í búnaðarfélagsstj., sem hafa alltaf verið á móti S. S. og staðið á móti honum og bændastéttinni allan tímann. Stundum var það svo á búnaðarþingi, að S. S. hafði 3/4 hluta þingsins með sér og þessi meiri hl. sagði: Við viljum hafa þig fyrir okkar leiðtoga. En það varð bara aldrei. Og í vegi fyrir því stóðu þeir menn, sem nú ráðast á hæstv. forsrh. fyrir það, að hann ætlar sér að leysa þetta mál. Ég má e. t. v. segja það hér, að núv. forsrh. var sem ungur maður af áhuga lögráðunautur Sig. Sig. í þessu máli. Núv. forsrh. þekkir vel allan gang málsins og allan veikleika Búnaðarfél. Hann hefir haft handa á milli skjölin, sem sprengingunni ullu. Hann veit um ásakanir, varnir og sáttagerðir. Hann veit, hvar skjölin eru geymd uppi á kirkjulofti. — En nú vil ég snúa mér að mínum gamla og góða kunningja, hv. þm. V.-Húnv., og taka eitt dæmi honum til skýringar á þessu máli. Dæmið er ekki persónulegt, ekki heldur ópersónulegt. Það kemur okkur við, þar sem við höfum unnið saman, og þar sem við höfum ekki unnið saman. Það eru töluverðar líkur til þess, að Framsfl. eins og hann er nú skipaður geti lagað vissa hluti, sem hann sjálfur gat ekki lagað. Ég vil benda honum á það, úr því að við erum að tala um þessa hluti og það er líka landsmál, að við unnum saman að því að koma upp skóla norður á Reykjatanga. Þessi byrjun komst á og gekk vel. Svo kom sprenging inn í þennan skóla, eins og inn í Búnaðarfél. Það var um það leyti, sem okkar vegir voru að skilja. (HannJ: Er þetta búnaðarmál?). Nei, ekki beint. Þetta er sérstök röksemdafærsla viðvíkjandi því, að líkur eru til. að stj. geti lagað þetta mál, sem hér er um að ræða. Það er ekki beint búnaðarmál, en það er landsmál. Það stóð svo á, eins og hv. þm. V.-Húnv. man sjálfsagt, að honum var áhugamál að verða oddamaður í skólanefndinni. Í henni voru 5 menn, 2 sjálfstæðismenn og 2, sem ekki voru sjálfstæðismenn. Svo þegar sprengingin kom, hallaðist hann að sjálfstæðismönnum og tók ráðin af skólanum. Vegir skildu. Hann var ungur maður, ég gamall og utan við skólann. Svo liðu 1—2 ár. Það er ekki venjan, að verr gangi fyrir ungum mönnum en gömlum, en svo fór, að þegar hv. þm. ætlaði að fara að laga þetta, þá kom eins og einhver ódöngun í allt saman. Þetta var eini skólinn, sem stóð sama og tómur, með 7 nem. Áður en sprengingin varð voru nemendurnir 35. Það skal ég taka fram, mjög til heiðurs hv. 10. landsk., að þótt hann skipti víða um í skólan., þá gerði hann það ekki þarna. Þetta lét hann standa óhreyft. Þetta mál var orðinn það mikill vandi fyrir hv. þm. Húnv., hann var búinn að keyra sig svo fastan, að hann var of greindur maður til þess að óska eftir því að hafa oddamannsvaldið áfram. Svo útnefndi hæstv. núv. kennslumálaráðh. nýjan formann, góðan mann, eftirmann hv. þm. Húnv. við kaupfélagið, og e. t. v. eftirmann hans sem þm. fyrir héraðið. (HannJ: Það tókst nú ekki síðast). Nei, en maður býst við, að það takist næst. Og hvað gerist svo? Um leið og þarna var komin önnur viðleitni, annað viðhorf, þá fyllist svo, að aftur verða 35 menn í skólanum og ekki unnt að koma meiru í hann. Ég tala þetta í fullri alvöru. Ég álít, að það hafi verið rangt af hv. þm. V.-Húnv. að skilja leiðir við mig í þessu, því að ég hafði miklu betur vit á þessu heldur en hann, af því að þetta er mín grein. En hann skildi, að það gekk ekki hjá honum, af því að hann vantaði hina réttu hæfileika til þess að stjórna. Nú hefir núv. stj. leyst þetta. Þetta er búið. Þetta er eins og illur draumur. Skólinn heldur áfram, og það þarf ekkert að biðja fyrir honum meir. Það langar engan til þess að setja það „regiment“, að aftur verði 7 menn í skólanum. Nú vil ég segja við hv. þm. V.-Húnv., af því að hann er „móðurskipið“, að ég hefi skýrt honum frá þessu litla dæmi, sem okkur kemur báðum við, og sagt honum, hvernig honum tókst. Hann lagði sína krafta vel fram. En hann náði ekki út yfir þetta. Og núv. kennslumálaráðh. hefir sett þetta á réttan kjöl. — Nú kemur að landbúnaðarráðh. að gera sína „aðgerð“, ef maður ætti að nutu málið okkar úr efri deild, á búnaðarmálunum, eins og búið er að gera við Reykjaskóla, að gera Búnaðarfél. aftur að heilbrigðri stofnun. Það þarf að skera gegnum „rövlið“. Það er búið að vera rövl síðan 1923, síðan gerð var þessi vitleysa, að kúga Sig. Sig., gera hann að ófrjálsum manni. Síðan hefir alltaf gengið verr og verr með fjölgandi ráðunautum og fækkandi ferðum þeirra sumra hverra, eins og þeim, sem bara fara vorferðirnar. Bændurnir hafa alltaf heimtað einungis einn búnaðarmálastjóra, og það, sem vakir fyrir hæstv. forsrh. og ég býst við, að hann verði studdur í, er að gera þessa litlu aðgerð og láta þennan gamla barnaskap hætta. Við höfum þegar haft bæði skömm og skaða af því, að hálfbrjóta niður mann eins og Sig. Sig. búnaðarmálastjóra, og menn hafa þegar fengið nóg af slíku. Allar þær till., sem hv. þm. V.-Húnv. og hans fylgifiskar eru með hér, eru ekkert annað en áframhald af því, sem skeði 1923. Við hinir viljum láta því vera lokið. Atkvgr. um þessa till. mun skera úr um það, hvort á að hafa áfram sama vesaldóminn og komið var á 1923, eða hvort á að gera félagið heilbrigt með einu einasta átaki.

Ég kem þá að einni brtt., sem hér liggur fyrir frá hv. þm. Snæf. Ég vil segja það um þessa till., eins og svo ótal margar aðrar, sem liggja fyrir þinginu, að þetta er till., sem maður vildi vera með. Þó álít ég, að það sé ákaflega óhyggilegt að vera með henni, eins og nú standa sakir, og ég mun því greiða atkv. á móti henni. Ég ætla að fara nokkuð ýtarlegar út í þetta atriði, af því að það útskýrir afstöðu n. til till. svo að segja í hundraðatali. Hv. þm. lýsti þessu svo, að þessi rafveita, sem þarna ætti að byggja, hefði ágæta aðstöðu og mjög góð skilyrði til þess að geta borið sig. Þetta er allt gott, en það er bara dýrt. Spurningin er bara sú, hvar eigi að taka peninga til þess að hægt sé að framkvæma þetta. Hv. þm. verður að átta sig á því, að víða á landinu, þar sem menn óska eftir að byggja slíkar rafstöðvar og fá til þess ríkisábyrgð, er það gert með alveg sömu röksemdum og hv. þm. færir hér fram fyrir máli sínu. Á einum stað er beðið um ríkisábyrgð fyrir 70 þús. kr. til rafveitu. Menn segja: þetta borgar sig. Og ég get fallizt á, að í mörgum tilfellum muni þetta borga sig. Ég get líka sagt þessum hv. þm. það, að úr mínu kjördæmi hefir komið ósk um, að ríkið gengi í ábyrgð fyrir 70 þús. kr. til rafveitu. Skilyrði eru þarna ágæt og mikið þéttbýli, en ég tek þessa umsókn ekki einu sinni upp hér. Ég segi við þetta fólk: Þetta er alveg rétt; ég veit, að það þurfið þessa rafveitu, en það eru bara engir peningar til, og þess vegna er ekki hægt að framkvæma þetta sem stendur. Jón Þorláksson borgarstjóri er staddur í útlöndum núna, til þess að reyna að semja um lán fyrir Rvík. Eftir því sem mér skilst, þá er eftir allra nýjustu athugunum búizt við því, að kostnaðurinn við virkjun Sogsins hafi hækkað um 400 þús. kr. Maður vonar þó, að lánið muni fást. Ég get sagt frá því líka, og það er ekkert á móti því, að hv. þm. viti það, að það hefir komið fram, núna þegar Jón Þorláksson hefir verið að leita fyrir sér um lán erlendis, síðan farið var að þrengja að markaði okkar á Spáni og Ítalíu, að þeir vita það mjög vel peningamennirnir, sem skipta við okkur. Og þeir segja: Okkur er ekki nóg, að það borgi sig einhver hlutur hjá ykkur. Þið verðið líka að geta borgað okkur vexti og afborganir af þeim lánum, sem þið takið. Það mun hafa verið orðað við þá menn, sem eru að semja um lán til Sogsvirkjunarinnar, að það yrði að setja sérstaka tryggingu fyrir yfirfærslunni. Ég býst ekki við því, að stj. muni ganga að þessu, en þetta er dálítil skýring á því, bæði fyrir hv. þm. Snæf. og aðra, hvernig aðstaða okkar er nú sem stendur hvað þetta snertir. Ég get ímyndað mér, að það komi til með að verða nokkrar millj., ef gengið væri inn á þá braut, að ríkið yrði látið ganga í ábyrgðir fyrir öll þau fyrirtæki, sem ef til vill er hægt að sýna fram á, að geti borið sig. En hvernig færi svo fyrir landinu, þegar það er komið í allar þessar ábyrgðir?

Ég er þess vegna ekki á móti till. eins og þessari, sem hv. þm. Snæf. bar hér fram, ef skilyrði væru til, til þess að samþ. þær. En ég álít, að á meðan þannig stendur á, að við getum ekki selt nema nokkurn hluta af aðalframleiðsluvöru okkar, fiski og kjöti, þá líti þetta mál öðruvísi út heldur en þegar allt var í uppgangi hjá okkur, og þegar full ástæða var til þess að halda, að því meira, sem við framleiddum af fiski og kjöti, því betur værum við settir. Af þeim ástæðum, sem áður eru greindar, er ég því á móti till., og mun gera allt, sem ég get til þess, að bæði þessi till. og aðrar, sem ganga í sömu átt, verði felldar, þar til betur lætur í ári.

Einn hv. þm. mælti hér nokkur orð um það, að ekki væri viðkunnanlegt að hafa ákvæði um dýrtíðaruppbót í fjárl., heldur ættu þau að vera í þáltill. Þetta er ekki stórvægilegt atriði, og þar sem það yrði þá þáltill. í Sþ., hvort sem væri, og þá færri umr. en um fjárl., þá geri ég ekki ráð fyrir, að frá formsins hlið sé hægt að setja út á þetta. En aðalatriðið í þessu máli er það, sem hv. þm. V.-Ísf. sagði nokkur orð um hér í kvöld. Hann minntist á það, að embættismenn, ekki sízt þeir, sem eru undir launal., væru ekki öfundsverðir af sínum kjörum, þó að dýrtíðaruppbótin væri ekki felld niður, og þetta er í sjálfu sér alveg rétt. Nú er það hinsvegar tekið fram, að þetta er hugsað sem bráðabirgðaákvæði, því að gert er ráð fyrir, að ný launal. verði lögð fyrir næsta þing, og ennfremur er gert ráð fyrir því, að þeir, sem lægst eru launaðir, haldi sinni dýrtíðaruppbót. Og ég hygg nú satt að segja, að ef hv. þm. V.-Ísf. lítur yfir landið, og t. d. heim í sitt kjördæmi — sem ekki er þó verr sett en önnur kjördæmi landsins — og yfir tekjuhliðina hjá kjósendum sínum, að þá muni honum verða það ljóst, að það eru ekki margir af þeim, sem hafa það háar tekjur, að ekki sé betra að hafa 5 þús. kr. í tekjur, eins og hér er gert ráð fyrir. Það er líka rétt, að það er þröngt fyrir dyrum hjá mörgum hér í Rvík með þessi laun, en við verðum að gæta að því, að Rvík verður sjálfrar sín vegna að fara að vinna á móti þeirri dýrtíð, sem í henni er. Það er ógerningur fyrir ríkið, og það getur heldur ekki borgað starfsmönnum sínum eftir þeirri dýrtíð, sem lóða- og húsaspekulationin í Rvík skapar. Ég gæti trúað því, að forráðamenn bæjarins kæmust að þeirri niðurstöðu, að hyggilegra væri af þeim að vinna að því að lækka verðið á lóðunum og húsunum hér í Rvík, og yfirleitt að stuðla að því, að ódýrara verði að lifa hér en verið hefir. Það væri sú bezta dýrtíðaruppbót, sem hægt væri að veita í þessum bæ. Ég mun svo ekki fjölyrða frekar um þetta að þessu sinni.